Hnoðri í norðri fékk menningarstyrk
Sviðslistahópurinn Hnoðri í norðri fékk á dögunum 1,5 milljónir króna styrk úr menningarsjóði sem tengdur er nafni Jóhannesar Nordals, fyrrverandi seðlabankastjóra.
Verkefnið sem hlýtur styrkinn kallast Skoffín og skringilmenni og er örópera sem samin er fyrir nemendur í grunnskólum á Norðurlandi. Höfundur og tónskáld er Þórunn Guðmundsdóttir en verkið fléttar saman íslenskar þjóðsögur tengdar áramótunum og þrettándanum. Verkefni tengd þeim þjóðsögum sem um ræðir verða jafnframt send á grunnskólana svo börnin tengist þjóðsögunum og fái tækifæri til að vinna með efniviðinn.
„Menningarstyrknum er fyrst og fremst ætlað að styðja viðleitni einstaklinga og hópa sem miðar að því að varðveita menningarverðmæti lands og þjóðar sem núverandi kynslóð hefur fengið í arf,“ segir á vef Seðlabankans. „Jóhannes Nordal, sem menningarstyrkirnir eru kenndir við, lést 5. mars síðastliðinn, 98 ára að aldri. Hann var seðlabankastjóri manna lengst, eða í 32 ár. Þess má geta að Jóhannes hafði í öll fyrri 11 skipti verið viðstaddur úthlutanir styrksins.“
Nánar hér um úthlutunina.