Hlaut 10 í einkunn og styrk úr minningarsjóði
Matiss Leo Meckl útskrifaðist á dögunum sem slagverksleikari frá Tónlistarskólanum á Akureyri með hæstu einkunn á framhaldsprófi sem gefin hefur verið við skólann – hann fékk 10, hæstu mögulegu einkunn!
Matiss hefur í haust framhaldsnám við konunglega tónlistarháskólann í Den Haag í Hollandi.
Við skólaslit Tónlistarskólans á Akureyri var tilkynnt að Matiss hefði hlotið styrk úr Minningarsjóði Þorgerðar S. Eiríksdóttir, 400.000 krónur. Sjóðurinn var stofnaður fyrir hálfri öld til minningar um Þorgerði, sem nýfarin var til framhaldsnáms í London þegar hún lést af slysförum. Þorgerður heitin hefði orðið sjötug á þessu ár.
Matiss, sem verður tvítugur í sumar, varð stúdent af tónlistarbraut Menntaskólans á Akureyri í fyrra. Hann hefur spilað með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Lúðrasveit Akureyrar, Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands og verið öflugur í hljómsveitarstarfi tónlistarskólans þar sem hann hefur m.a. komið fram sem einleikari með blásarasveitum skólans, að því er kom fram í máli Hjörleifs Arnar Jónssonar, skólastjóra.
Reynir Bjarnar Eiríksson, bróðir Þorgerðar heitinnar, og Matiss Leo Meckl, þegar hann tók við styrknum úr minningarsjóðnum við skólaslit Tónlistarskólans. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Sinfónían í kvöld
Í kvöld stígur Matiss nýtt skref á ferlinum; leikur með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Hörpu þar sem flutt verður sinfónía nr. 3 eftir Gustaf Mahler. „Það var mikill heiður að vera boðið að spila með Sinfóníunni. Ég fæ bara að spila lítinn part, sem gestanemandi, en þetta er samt mjög spennandi,“ sagði Matiss við Akureyri.net, nýkominn af æfingu í vikunni. „Ég hefur tvisvar spilað með Ungsveit Sinfóníunnar og eftir það hef ég átt þann draum að spila í Sinfóníuhljómsveit í framtíðinni.“
Matiss fæddist í Lettlandi en flutti til Akureyrar aðeins mánuði síðar. Móðir hans, Zane Brikovska félagsráðgjafi hjá Akureyrarbæ, er lettnesk en faðir Matiss, Markus Hermann Meckl, prófessor við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, er frá Þýskalandi.
Spenntur fyrir framhaldsnáminu
Tónlist fangaði huga Matiss snemma. „Ég byrjaði í Tónræktinni og lærði fyrst á píanó, en kennarinn minn sagði mér fljótlega að ég væri svo rytmískur að ég ætti að prófa að læra á trommur,“ segir hann.
Matiss sat við trommusettið um tíma og gekk vel en sneri sér síðan að allsherjar slagverki. Nam fyrst hjá Halla Gulla – Halldóri Gunnlaugi Haukssyni, síðan Rodrigo Lopez og Ludvig Kára Forberg, en „lengst hef ég verið hjá Emil Þorra Emilssyni. Hann er frábær kennari.“ Emil hefur kennt Matiss síðustu ár og var honum innan handar varðandi framhaldsnámið.
„Ég sótti um skólann í Den Haag í janúar, fór út og skoðaði og leist rosalega vel á. Ég fékk svo tilkynningu í maí um að ég hefði komist inn, flyt líklega út í ágúst og verð þarna í fjögur ár,“ segir Mattiss.
Margir Íslendingar hafa lært við þennan skóla, „til dæmis Emil Þorri. Mér finnst geggjað að fara í sama skóla og hann. Emil þekkir marga kennara við skólann og ég hef þegar kynnst sumum þeirra.“
Matiss og saxafónleikarinn Ýmir Haukur Guðjónsson á framhaldsprófstónleikum þess síðarnefnda í vor. Þar fluttu þeir eigið frumsamið lag og endurtóku leikinn við skólaslitin. Mynd: Sverrir Páll
Hélt það væri ekki hægt!
„Nei, ég hefði alls ekki velt því fyrir að ég myndi fá 10 í einkunn. Hélt að það væri ekki hægt!“ segir Matiss, spurður um þann sögulega árangur. „Mér gekk vissulega mjög vel í prófinu, eins og á öllum prófum fram að því, en einkunnin kom mér samt mjög á óvart.“
Hann segir margt ótrúlega ánægjulegt hafa átt sér stað á skömmum tíma. „Ég fékk tilkynningu um að ég hefði komist inn í skólann nokkrum dögum fyrir framhaldsprófið varð svo glaður að ég æfði mig enn meira en ég ætlaði, kláraði síðan framhaldsprófið og fékk þessa frábæru einkunn, og svo voru framhaldsprófstónleikarnir mínir sem gengu mjög vel. Það var rosalega gaman að spila þar með mörgum kennurum og vinum í tónlistarskólanum.“
Mjög þakklátur
Ekki leið síðan á löngu þar til Matiss var tilkynnt að hann hlyti styrkinn úr Minningarsjóði Þorgerðar og hann er ekki síður himinlifandi með það. „Styrkurinn skiptir mig miklu máli og ég er mjög þakklátur,“ segir Matiss. „Hann hjálpar mér gríðarlega. Það er alls ekki ódýrt að búa sem nemandi í Hollandi og mér er sagt að nú sé mjög erfitt að finna húsnæði þar, jafnvel erfitt að finna bara herbergi. Og svo kostar skólinn auðvitað sitt.“
Þegar talið berst aftur að prófinu og einkunninni segist Matiss fyrst og fremst hafa viljað standa sig vel. „Eftir útskriftina úr MA settist ég niður með kennaranum mínum, þá var rétti tíminn til að ákveða hvort ég vildi halda áfram í slagverkinu í alvörunni eða ekki.“ Niðurstaðan var sem betur fer sú að haldið skyldi áfram af alvöru:
„Síðan þá hef ég reynt að æfa mig eins mikið og ég get. Frá því í ágúst í fyrra þangað til í maí á þessu ári hef ég oftast æft mig sex daga vikunnar, að minnsta kosti fjóra klukkutíma á dag. Emil og fleiri kennarar geta staðfest að ég kom oftast fyrstur í skólann og var oft síðastur heim! Mér hefur alltaf þótt mjög gaman að æfa.“
Draumurinn um sinfóníuhljómsveit
Enginn nemandi í Tónlistarskólanum á Akureyri er kominn jafn langt á slagverksbrautinni og Matiss. „Ég á vini í skólanum sem eru að læra á önnur hljóðfæri, geta spilað saman og haft gaman, en það getur verið einmanalegt hjá mér. Þess vegna er ég mjög spenntur að fara út og kynnast öðrum sem eru komnir jafn langt og ég eða lengra.“
Matiss stefnir að því að ljúka bakkalár prófi – bachelor – að fjórum árum liðnum. Spurður um framhaldið, að því loknu segir hann:
„Mig hefur lengi langað að vinna í Sinfóníuhljómsveit. Það er einn stærsti draumur minn eins og er. Eftir að ég klára háskólann stefni ég að því að sækja um í einhverri sinfóníuhljómsveit út í heimi. Þegar ég hugsa svo enn lengra inn í framtíðina held ég að mér þætti mjög gaman að kenna.“
_ _ _
MINNINGARSJÓÐUR ÞORGERÐAR
Þorgerður S. Eiríksdóttir lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum á Akureyri og var nýkomin til London í framhaldsnám er hún lést af slysförum í febrúar 1972.
Hjörleifur Örn Jónsson skólastjóri sagði við skólaslitin að sjóðurinn hefði átt erfitt uppdráttar eftir efnahagshrunið 2008. Ekki hafi verið úthlutað úr honum í hálfan annan áratug en nú hafi góðu heilli verið möguleiki á því á ný.
Ári síðar stofnuðu aðstandendur Þorgerðar, ásamt Tónlistarskólanum og Tónlistarfélagi Akureyrar, minningarsjóð til að styðja við bakið á efnilegum nemendum frá Tónlistarskólanum á Akureyri til framhaldsnáms. „Allir núverandi og fyrrverandi nemendur skólans sem stunda, eða eru á leið í framhaldsnám, hafa kost á því að sækja um styrk úr sjóðnum þar sem tónlistarnám getur verið kostnaðarsamt fyrir unga nemendur sem þurfa oftar en ekki að flytjast búferlum til að stunda nám sitt og í mörgum tilfellum út fyrir landssteinana,“ segir á vef Tónlistarskólans á Akureyri.
Nánar hér um sjóðinn