Fara í efni
Menning

Hilda Jana: þriggja þátta hlaðvarp um byggðaríg

Hlaðvarpsþættir Hildu Jönu fjalla um byggðaríg en markmið þáttanna er að vekja áhuga á byggðamálum og veita hlustendum tækifæri til að velta þeim fyrir sér út frá sjónarhornum ólíkra byggða.

Rígurinn er þriggja þátta hlaðvarpssería sem Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri, hefur sett í loftið. Þættirnir fjalla um byggðamál á Íslandi og þann undirliggjandi byggðaríg sem þar er að finna.

Hilda Jana lauk meistaranámi í blaða- og fréttamennsku frá Háskóla Íslands í vor og voru þættirnir hluti af meistararverkefni hennar. Í þáttunum er fjallað um sögulegt samhengi íslensks byggðarígs, rýnt í stjórnmál, menningu, jafnréttismál, verkalýðsbaráttu, menntun, samgöngumál, ólík viðhorf eftir búsetu og tekjum svo eitthvað sé nefnt.

Byggðarígur raunverulegur

Í mínum huga er rígurinn raunverulegur og tilheyrir ekki aðeins fortíðinni. Rígurinn er margt, allt frá hatrammri hagsmunabaráttu og jafnvel spillingu yfir í góðlátlegt grín. Rígurinn er fyrst og fremst því að kenna að við eigum erfitt með að setja okkur í spor annarra, sérstaklega ef við erum ekki nægilega upplýst um hvað í því felst, en einnig eigum við erfitt með að taka ákvarðanir sem byggðar eru á þeirri þekkingu, sé hún yfirleitt fyrir hendi. Kannski má kjarna málið í því að þegar öllu er á botninn hvolft á þá erum við mannfólkið helst til eigingjörn,“ segir Hilda Jana og bætir við að markmið þáttanna felist í því að vekja áhuga á byggðamálum og veita hlustendum tækifæri til að velta þeim fyrir sér út frá sjónarhornum ólíkra byggða, allt frá vaxtarsvæðum til brothættra byggða.

Þurfum að setja okkur í spor annarra

„Það sem kom mér mest á óvart þegar ég setti upp byggðagleraugun svona markvisst, var að sjá byggðamál endurspeglast svona ríkulega í menningu okkar s.s. í tónlist og kvikmyndum. Þá fannst mér líka áhugavert þegar ég var að grúska í heimildum að sjá hvað við höfum í mörg ár verið að tala um nákvæmlega sömu hlutina í tengslum við byggðamál. Það var líka að finna jákvæðan undirtón um að við séum að mjakast í rétta átt, bara allt of hægt, segir Hilda og heldur áfram; „Byggðarígurinn er kannski ekki beint feimnismál, þó eru kannski íbúar landsbyggðanna ófeimnari við að berjast fyrir sínum hagsmunum en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Hins vegar má líka segja að íbúar landsbyggðanna hafi þurft og þurfi enn að berjast fyrir sínum hagsmunum eigi framfarir að eiga sér stað á landsbyggðunum, á meðan að framfarir eigi sér nánast sjálfkrafa staðar á höfuðborgarsvæðinu. Mín upplifun er sú að okkur þyki öllum óskaplega vænt um landið okkar, við þurfum einfaldlega að vita meira um ólíkar aðstæður, setja okkur oftar í spor annarra, taka ákvarðanir byggða á þeirri þekkingu og síðast en ekki síst mun að hagsmunir okkar eru að mjög stórum hluta sameiginlegir.

Hlusta má á hlaðvarpsþættina hér: