Fara í efni
Menning

Hernámsárin ljóslifandi og kómísk í Freyvangi

„Það er mjög áhugavert að reyna að setja sig í spor fólks sem var að draga fram lífið á Íslandi þegar herinn lenti og breytti svo mörgu. Að vakna allt í einu upp við það, að hræðileg átök úti í heimi og harmleikurinn sem fylgir, sé að banka upp á í friðsælli tilverunni, hlýtur að hafa verið undarlegt. Tilveru sem hafði samt ekki verið auðveld, og fólk fékk ekkert gefins.“

Þannig kemst Rakel Hinriksdóttir að orði í pistli um uppsetningu Freyvangsleikhússins á Land míns föður, leikriti Kjartans Ragnarssonar, sem frumsýnt var á föstudaginn var. „Í heildina flott, metnaðarfull og skemmtileg sýning hjá Freyvangsleikhúsinu,“ segir Rakel.

Verkið var fyrst sýnt af Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó við Tjörnina árið 1985. 

Í leikritinu er vissulega reynt að finna kómíkina í hernáminu og sagt frá á léttum nótum, segir Rakel, „en sársaukinn og óöryggið er þó alltumlykjandi og líf fólk er að kútveltast í þessari gríðarstóru þvottavél. Hvort sem afraksturinn er hengdur upp í stofunni hjá Leifi, eða settur á svið í íslenskri sveit mörgum árum síðar – er það bókað mál að áhrif heimsstyrjaldanna voru gríðarleg, og eru að verki enn í dag. Ókyrrð er í friði heimsveldanna þegar þetta er skrifað, og við vitum ekki hvað næstu mánuðir og ár bera í skauti sér. Þangað til væri ekkert vitlaust að skella sér í leikhús!“

Pistill Rakelar