Fara í efni
Menning

Helgi Þórs hyllir trén á nýrri listasýningu

Þessi litla sýning snýst um tré. Tré-handverk, tré-myndir, tré-allskonar og gott ef ekki einskonar trétrú. Þannig hljómar lýsingin á næstu sýningu sem sett verður upp í Dyngjunni, listhúsi í Fífilbrekku í Eyjafjarðarsveit. Að þessu sinni er það listamaðurinn og bóndinn í Kristnesi, Helgi Þórsson, sem sýnir verk sín. Hann hefur verið áhugamaður um tré og allt sem þeim tengist frá blautu barnsbeini og fannst því upplagt að sýningin væri helguð trjám. Sýningin ber heitið 'Vinir mínir trén' og opnun verður í dag, laugardag, á milli kl. 14-17. Léttar veitingar í boði.
 
Það er bara mikilvægt að muna eftir trjánum. Þau eru mikil blessun, enda vinir mínir
„Þetta er lítil sýning að flatarmáli, en fjöldi verka telst samt í einhverjum tugum,“ segir Helgi í samtali við blaðamann Akureyri.net. „Það helgast af því að mikið er af pínulitlum ljósmyndum af trjám. Segja má að uppröðunin á sýningunni sé svona í anda Stórvals, þar sem hugafarið 'hérna mætti nú troða einni mynd' er ráðandi.“ Helgi rifjar upp að fjölskyldualbúmin í Kristnesi hafi ætíð verið full af trjám, þó að ein og ein mynd af fjölskyldumeðlimi hafi slysast með. „Oft í því hlutverki að gefa rétt stærðarhlutföll á tré við hliðina,“ segir Helgi. 

Húsgögn, tískuljósmyndir og blessuð trén

Svo verða þarna nokkrar teikningar og svona bland í poka, eins og við er að búast þegar maður hamast við einhverja sköpun úr öllu sem á vegi manns verður,“ segir Helgi. „Loks má nefna nokkur húsgögn í villtum stíl og tvær af mínum bestu tískuljósmyndum þar sem skógurinn var í miðpunkti. Það er bara mikilvægt að muna eftir trjánum. Þau eru mikil blessun, enda vinir mínir.“
 
 
 
Myndir af sýningunni: T.v. Bergsveinn litli bróðir Helga rannsakar reyniviðinn á Skriðu sem einmitt á tvöhundruð ára afmæli um þessar mundir. T.h. Hin sérstöku ber hafþyrnis. Myndir: Helgi Þórsson