Fara í efni
Menning

Heimsfrægur blásari einleikari í Hofi

Matilda Lloyd blæs í trompetinn sem einleikari í Hofi á miðvikudagskvöldið.

Heimsþekktur trompetleikari, Matilda Lloyd, verður einleikari á tónleikum í Hofi á miðvikudagskvöldið. Um er að ræða hausttónleika  C-blásarasveitar Tónlistarskólans á Akureyri en C-sveitina skipa þeir blásarar skólans sem lengst eru komnir.

„Að þessu sinni fáum við góða gesti, Lewisham Concert Band frá London. Sveitirnar leika saman og sitt í hvoru lagi efnisskrá sem samanstendur af íslenskri og breskri blásarasveitartónlist auk trompetkonserts eftir Alexander Arutunian,“ segir í tilkynningu frá skólanum.

Einleikari verður Matilda Lloyd á trompet. „Hún er margverðlaunuð fyrir trompetleik; vann BBC Young Musician of the Year Brass Final árið 2014 og hlaut fyrstu verðlaun í Eric Aubier trompetkeppninni 2015. Hún er eftirsóttur einleikari og mun halda masterklass fyrir trompetnemendur Tónlistarskólans á Akureyri á meðan á dvöl hennar stendur.“

Tónleikarnir hefjast kl 19:30 og er aðgangur ókeypis.