Heiðra minningu Piaf: „Ótrúleg flott tónlist“
„Þetta er ótrúlega skemmtilegt verkefni; kórinn er æðislegur, hljóðfæraleikarnir ótrúlega flottir og ég mun gera mitt besta! Ég mæli með því að fólk komi og hlusti,“ segir Erla Dóra Vogler, einsöngvari með kvennakórnum Emblu sem heldur tónleika í Hofi í dag. Þar verður minningu frönsku söngkonunnar Edith Piaf haldið á lofti.
„Piaf var ekki aðeins vinsælasta söngkona Frakklands á sínum tíma heldur þekkt um allan heim. Hún söng um nóttina, eymdina og óhamingjuna en líka hamingjuna, frelsið og ástina,“ segir í tilkynningu frá kórnum og það eru engar ýkjur. Tónleikarnir verða í Hömrum og hefjast kl. 17.00.
„Tónlistin er ótrúlega flott. Maður reynir að taka upp eitthvað af töktum Piaf en ég get aldrei orðið hún,“ segir söngkonan og bætir við að glapræði væri að reyna það. „Maður verður að finna sína eigin leið,“ segir hún við Akureyri.net.
Erla Dóra segist ekki hafa hlustað mikið á Piaf í gegnum tíðina. „Ég sá leikritið um hana í Borgarleikhúsinu á sínum tíma, það var ótrúlega flott sýning. Ég hef sett hana á fóninn en ekki hlustað mikið, sum lögin sem við flytjum hafði ég aldrei heyrt en þetta eru geggjuð lög og útsetningar Roars Kvam eru frábærar,“ segir Erla Dóra.
Piaf söng vitaskuld á frönsku „og það gefur lögunum ákveðinn lit. Öll þessi rúlluðu err,“ segir söngkonan og hlær. Erla Dóra syngur á íslensku, þýðingar Þórarins Eldjárns og dr. Sigurðar Ingólfssonar. „Ég þarf því að finna öðruvísi leið en hún fór, finna þann sjarma sem er í lögunum og koma honum til skila á íslensku.“