Hefja tónleikaferð um Evrópu á Akureyri
Þungarokkshljómsveitin Sólstafir spilar á Græna hattinum föstudagskvöldið 18. nóvember og hefur þar með árlega tónleikaferð um Evrópu.
„Sólstafir hafa í áraraðir haldið tónleika víðsvegar um Evrópu og eiga sér dyggan aðdáendahóp um allan heim. Rétt eins og annað tónlistarfólk þurfti sveitin að setja allt tónleikahald á bið í heimsfaraldrinum. Aðalbjörn Tryggvason, forsprakki sveitarinnar, segir umhverfið í tónleikamálum á meginlandinu breytt eftir faraldurinn og tíminn muni leiða það í ljós hvort það muni komast aftur í samt horf. Nú þremur árum eftir að öllu var skellt í lás er hljómsveitinn nú á leiðinni í tónleikaferð um Evrópu og spila á 30 tónleikum í 16 löndum á 32 dögum,“ segir í tilkynningu frá hljómsveitinni.
Græni hatturinn á heimsmælikvarða
Þeir félagar hafa ákveðið að þjófstarta tónleikaferðinni með tónleikum á Akureyri. „Eftir að hafa spilað út um allan heim á hinum ýmsu stöðum, kirkjum, knæpum og allt þar á milli, get ég staðfest að Græni Hatturinn er á heimsmælikvarða. Það er alltaf gott sánd og topp stemning á Hattinum”, segir Aðalbjörn.
„Í nóvember 2020 kom sjöunda plata Sólstafa út, Endless Twilight of Codependent Love. Aðrar plötur Sólstafa, Berdreyminn, Ótta, Svartir Sandar og Köld, hafa fengið mjög góðar móttökur undanfarin ár og skipað sveitinni sess sem ein framsæknasta rokksveit senunnar.“
Hljómsveitina skipa, auk Aðalbjörns sem leikur á gítar og syngur, Sævar Maríus Sæþórsson gítarleikari, Svavar Austmann bassaleikari og trommarinn Hallgrímur Jón Hallgrímsson.