Hátíðarsýning Steps á Frozen í Hofi í dag
Listdansskólinn Steps Dancecenter verður með tvær hátíðarsýningar í Hofi í dag, laugardag, kl. 12 og 14. Boðið er upp á sannkallað dansævintýri þar sem nemendur skólans stíga á svið í Hofi með ævintýrið Frozen.
„Áhorfendur geta hlakkað til stórbrotinnar upplifunar þar sem sagan af systrunum Elsu og Önnu, snjókarlinum Ólafi og öðrum persónum úr heimi Frozen er túlkuð á einstakan hátt í gegnum fjölbreytta dansa,“ segir meðal annars í tilkynningu Steps. Þar kemur einnig fram að viðburðurinn er fjölskylduvænn og bjóði upp á eitthvað fyrir alla aldurshópa, frá glæsilegum dansatriðum yngstu nemenda til áhrifamikillar frammistöðu reyndari dansara. „Þessi hátíðarsýning markar upphaf aðventunnar á Akureyri og lofar að færa gestum gleði og töfra,“ segir einnig í tilkynningunni.
Steps Dancecenter er listdansskóli á Akureyri og fagnar tíu ára afmæli í ár. „Við erum virkilega stolt af því að veita dansáhugafólki á öllum aldri vettvang til að njóta danslistarinnar, efla hæfileika sína og gleðja samfélagið með sýningum sem standa upp úr. Æfingar hafa staðið yfir í margar vikur og eru nemendur okkar frá 2ja ára aldri og eldri að stíga á svið full eftirvæntingu,“ segir í tilkynningu Dance Stepcenter um hátíðarsýningu skólans í Hofi.