Fara í efni
Menning

Hátíð með frönskum kvikmyndum hefst í dag

Frönsk kvikmyndahátíð hefst á Akureyri í dag. Þetta er orðinn árlegur viðburður í febrúar með bíósýningum á nokkrum vel völdum stöðum.

Opnunarmynd hátíðarinnar er franska gamanmyndin Un p'tit truc en plus frá árinu 2024, leikstýrð af Artus, sem einnig fer með aðalhlutverkið. Sýningin í dag hefst kl. 17 í Sambíóunum.

„Þessi hlýja og skemmtilega kvikmynd segir frá óvæntum tengslum sem myndast á ólíklegustu stöðum. Með léttum húmor og hjartnæmum boðskap er kvikmyndin falleg áminning um að stundum eru það litlu hlutirnir sem skipta mestu máli,“ segir í tilkynningu frá aðstandendurm hátíðarinnar.

Franska kvikmyndahátíðin fer einnig fram í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík, Amtsbókasafninu á Akureyri og í Listasafninu á Akureyri. Dagskrá hátíðarinnar má sjá hér.

Enginn aðgangseyrir er á sýningar hátíðarinnar en á sýningar í Sambíóunum þarf að skrá sig þar sem fjöldi sæta er takmarkaður. Á aðrar sýningar er nóg að mæta á staðinn. Frekari upplýsingar er að finna á upplýsingasíðu hátíðarinnar hér.

Franska kvikmyndahátíðin er haldin í samstarfi við Bíó Paradís, Myndform og Sambíóin. Hún er skipulögð af sendiráði Frakklands á Íslandi, Alliance Francaise de Reykjavík, Institut Français og Akureyrarbæ.