Fara í efni
Menning

Handritin heim – til sýnis í Nonnahúsi

Dagur íslenskrar tungu er runninn upp. Hann er 16. nóvember ár hvert, sem einnig er fæðingardagur Jóns Sveinssonar, Nonna.

100 ár eru liðin frá því fyrsta bók Nonna kom út á íslensku og af því tilefni verður haldin hátíð – Nonnahátíð – sem hefst í dag og stendur til sunnudags. Í dag verður „síðbúið útgáfuhóf“ í Nonnahúsi, eins og það er orðað á vef Minjasafnsins, frá klukkan 15.00 til 17.00.

Handrit að fyrstu bók Nonna, sem hann skrifaði á dönsku, og þýðing Freysteins Gunnarssonar verða til sýnis í Nonnahúsi frá frá því í dag til sunnudags. Landsbókasafn-Háskólabókasafn sem varðveitir skjalasafn Jóns Sveinssonar lánar handritin tímabundið til safnsins.

Dagskrá Nonnahátíðar verður annars sem sem hér segir skv. heimasíðu Minjasafnsins:

Í dag klukkan 15.00-17.00

  • Barnabókamarkaður Fróða í Nonnahúsi – athugið enginn posi
  • Upplestur úr bókinni Nonni sem kom út á Storytel í ár.
  • Myndskreyttu Nonnabók.
  • Kakó og smákökur frá 15-17.

Fimmtudagur 17. nóvember 13.00-16.00

  • Handritin heim – sýning á frumhandritum Nonna.
  • Myndskreyttu Nonnabók.
  • Leiðsögn um Nonnahús kl. 13.
  • Upplestur úr bókinni Nonni

Föstudagur 18. nóvember 13.00-16.00

  • Handritin heim – sýning á frumhandritum Nonna.
  • Myndskreyttu Nonnabók.
  • Leiðsögn um Nonnahús kl. 13.
  • Upplestur úr bókinni Nonni

Laugardagur 19. nóvember 13.00-16.00

  • Brynhildur Þórarinsdóttir, rithöfundur kynnir nýjustu bók sína Dularfulla hjólahvarfið kl. 14.00
  • Leiðsögn um Nonnahús kl. 15.00
  • Upplestur úr bókinni Nonni
  • Handritin heim – sýning á frumhandritum Nonna.
  • Myndskreyttu Nonnabók.
  • Mandarínur og konfekt í boði Nonnahúss

Sunnudagur 20. nóvember 13.00-16.00

  • Handritin heim – sýning á frumhandritum Nonna.
  • Myndskreyttu Nonnabók.
  • Sígild síðdegi TÓNAK – með Petreu og Michael á Minjasafninu kl. 14.
  • Leikin verða ýmis verk fyrir þverflautu og klarinett. Norðlenskur frumflutningur á verkinu Shimmer of Light eftir Sunnu Friðjónsdóttur fyrir piccolóflautu og hljóðverk.
  • Petrea og Michael eru bæði kennarar við Tónlistarskólann á Akureyri.
  • Kaffi og konfekt á Minjasafninu

Logn, hlýindi, blíðviðri – og sonur

Á vef Minjasafnsins er fæðingardagur Nonna rifjaður upp. Þar segir:

Faðir hans Sveinn Þórarinsson lýsir deginum á Möðruvöllum svona í dagbók sinni: „Logn hlýindi og blíðviðri. Kl. hálf eitt í nótt vakti kona mín mig, þá orðin joðsjúk.“ Jón gamli húsmaður var í skyndi sendur af stað til að ná í yfirsetukonuna Ástu Daníelsdóttur að Hvammi. „Tók Ásta til starfa strax og fæddi kona mín eptir harða hríð sveinbarn kl. 4, og gekk fæðingin þannig að kalla má fljótt og vel, og sýnist ekki ætla að hafa nein bág eptirköst. Ég og hyski mitt allt vakti um nóttina og líka í dag. ... Frúin, Petrea, Þorgerður og annað kvenfólk hér kom smámsaman inn að „skoða barnið“ sem er vanalegt en mér öldungis óskiljanleg fýsn margs kvenfólks.“

„Fleiri áttu eftir að sýna Jóni Stefáni, Nonna, áhuga eftir því sem áratugir liðu því skáldsögur Nonna opnuðu ævintýraheim sem fangaði huga lesenda um allan heim. Það fæddist nefnilega skáld þennan blíðviðrisdag,“ segir á vef safnsins.

Myndin er eftir Kristin G. Jóhannsson