Guðný Einarsdóttir leikur á Orgelhátíð
Guðný Einarsdóttir, organisti við Háteigskirkju, heldur tónleika á Orgelhátíð í Akureyrarkirkju, miðvikudaginn 30. nóvember kl. 20
Á efnisskránni eru verk eftir J.S. Bach, Arngerði Maríu Árnadóttur, Niels W. Gade, César Franck og Charles Ives og efnisskráin er innblásin af aðventu og jólum, að því er segir í tilkynningu frá Orgelhátíðinni.
Guðný Einarsdóttir stundaði píanónám frá unga aldri og lauk hún prófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, orgelnámi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar og framhaldsnámi í kirkjutónlist frá Tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn. Samhliða náminu var hún stjórnandi og einn af stofnendum kammerkórsins Stöku. Að loknu námi í Kaupmannahöfn var Guðný organisti danska safnaðarins í París en samhliða starfinu stundaði hún framhaldsnám í orgelleik.
Guðný hefur komið fram á Íslandi og erlendis sem einleikari, meðleikari og kórstjóri og stundað kennslu í orgel- og píanóleik. Hún hefur gefið út tvo geisladiska með orgelverkum, annar þeirra, orgelverk Jóns Nordal, var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Guðný samdi söguna Lítil saga úr orgelhúsi sem er tónlistarævintýri fyrir börn um undraheima pípuorgelsins. Hún hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir ýmis félagasamtök og Þjóðkirkjuna og setið í ýmsum nefndum m.a. Sálmabókarnefnd Þjóðkirkjunnar. Hún gegnir nú stöðu organista við Háteigskirkju í Reykjavík og er stjórnandi Kordíu, Kórs Háteigskirkju.
Aðgangseyrir er 2500 kr. Tónlistarsjóður, Sóknarnefnd Akureyrarkirkju og Héraðssjóður Þingeyjar - og Eyjafjarðarprófastsdæmis styrkja Orgelhátíð í Akureyrarkirkju.