Fara í efni
Menning

Gríman: Arnar hlaut heiðursverðlaunin

Arnar Jónsson þakkar fyrir sig á Grímuverðlaunahátíðinni í kvöld. Mynd af vef RÚV.

Leikarinn Arnar Jónsson er heiðursverðlaunahafi Sviðslistasambands Íslands 2023. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti honum verðlaunin á Grímuhátíðinni, uppskeruhátíð Sviðslistasambandsins, í Borgarleikhúsinu í kvöld.

Heiðursverðlaunin eru árlega veitt einum einstaklingi sem þykir hafa skilað framúrskarandi ævistarfi í þágu sviðslista á Íslandi.

„Vegferðin hefur verið löng og viðburðarrík og gengið á ýmsu, en hér er ég nú samt,“ sagði Arnar þegar hann þakkaði fyrir sig og leit yfir farinn veg. „Ég þakka af alhug öllu því góða fólki sem ég hef deilt leiksviðinu með í mörgum og vandasömum glímum, oft við erfið hlutverk, en það má ekki gleyma að flóknustu og snúnustu hlutverk í lífi hvers manns, og endast ævina út, eru þó eiginmanns-, föður- og afahlutverkin. Ég vona að ég fái sæmilega gagnrýni fyrir frammistöðu mína í þeim hlutverkum.“

Arnar þakkaði sérstaklega eiginkonu sinni, Þórhildi Þorleifsdóttur, leikstjóra, „sem alla tíð hefur verið mín helsta stoð og stytta, minn beittasti gagnrýnandi og helsta stuðningsmanneskja,“ sagði hann og bætti við: „Takk, elsku Þórhildur mín.“

Í kynningu Grímunnar segir í kvöld um Arnar Jónsson:

  • Heiðursverðlaunahafi sviðslistasambands Íslands í ár er fæddur á Akureyri 1943. Frá unga aldri hefur hann helgað líf sitt leiklistargyðjunni en hann hefur túlkað fleiri persónur en nokkur annar íslenskur leikari.
  • Hann útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1964 og fékk fljótlega fastráðningu hjá Iðnó þar sem hann starfaði í fjögur ár. Árið 1968 stofnaði hann Leiksmiðjuna ásamt hópi af ungu áræðnu leikhúsfólki sem hafði það háleita markmið að endurskapa leiklist í landinu.
  • Eftir þrjár framúrstefnulegar uppsetningar með Leiksmiðjunni; Litla prinsinn, Galdra loft og Frísir kalla, starfaði hann hjá Leikfélagi Akureyrar um nokkurt skeið en fljótt kom í ljós að fastmótuð leikhússtofnun átti ekki vel við þennan unga eldhuga. Hann gekk því aftur til liðs við hóp af róttæku listafólki sem skilgreindi sig sem gagnrýninn, framsækinn leikhóp, sem vildi fjalla um borgaralegan samtímaveruleika á listrænan hátt og vekja umræðu um þjóðfélagsmál. Árið 1975 stofnaði þessi hópur Alþýðuleikhúsið og vakti verðskuldaða athygli fyrir óvenju leikræna framsetningu og kröftuga, agaða stílfærslu. Alþýðuleikhúsið var honum ávallt hugleikið, löngu eftir að hann hafði sagt skilið við það og tekið fastráðningu hjá Þjóðleikhúsinu, þar sem hann hefur starfað með hléum í ríflega fjóra áratugi.
  • Árið 2003 skrifaði Þorvaldur Þorsteinsson einleikinn Sveinsstykki sérstaklega með hann í huga. Verkið var sviðsett undir leikstjórn Þorleifs Arnar [sonar leikarans] og svo í annað sinn árið 2013 undir leikstjórn Þórhildar Þorleifsdóttur [eiginkonu Arnars]. Sú sýning átti að vera einskonar kveðja hans til áhorfenda, en í dag, 10 árum síðar er hann enn að taka að sér hlutverk á fjölum Þjóðleikhússins.
  • Auk þess að gæða óteljandi leikhúspersónur lífi hefur hann leikið í mörgum kvikmyndum, meðal annars burðarhlutverk í Útlaganum, Atómstöðinni, Á hjara veraldar, Maríu og Dansinum. Einnig hefur hann farið með fjölmörg hlutverk í útvarpi og sjónvarpi.
  • Hann hefur hlotið nokkrar Grímutilnefningar og hreppti verðlaunin fyrir túlkun sína á Lé konungi. Hann hlaut Stefaníustjakann fyrir störf sín við leiklist árið 1971.

Nánar hér á vef RÚV, þar sem heyra má þakkarávarp Arnars