Gott að vera veikur á Hótel Akureyri!
Tónlistarmaðurinn Mugison, sem spilað hefur í hverri kirkjunni á fætur annarri í sumar, hefur undanfarið verið á ferð um Norðurland. Hann gerði þrjár tilraunir til að komast út í Grímsey og spila í kirkjunni þar en varð frá að hverfa.
„Grímsey verður að bíða betri tíma. Ég á eftir að fara þangað en veit bara ekki hvenær,“ segir Mugison. Fyrsta tilraunin féll um sjálfa sig vegna skipulagsklúðurs hjá honum sjálfum. Næst þegar hann ætlaði að reyna við Grímsey varð hann veikur og í þriðja skiptið var ekki flogið vegna veðurs.
Veikur í viku á Hótel Akureyri
Mugison ætlar sér að spila í 100 kirkjum í 100 póstnúmerum fyrir árslok og er hann hálfnaður með verkefnið. Frá því í maí hefur hann meira og minna verið á ferðinni á sendibíl um landið en hann hefur sofið í bílnum á ferðalögum sínum, þar til nýlega þegar hann kom í hús á Hótel Akureyri. Þá vildi ekki betur til en að hann fékk covid og lá veikur á hótelinu í viku. „Ég get staðfest það að það er mjög gott að vera veikur á Hótel Akureyri,“ segir Mugison sem var feginn að hafa hótelgistingu þegar veikindin bönkuðu upp á. Bílinn er ekki einangraður svo hann segir að það sé orðið kalt að gista í honum núna. Rómaði hann Hótel Akureyri og vertana þar í hástert en á Akureyrarvöku tók hann lagið á hótelbarnum við mikinn fögnuð gesta. Segist Mugison hlakka til að heimsækja hótelið aftur og halda þar alvöru tónleika.
Enn er hægt að sjá Mugison spila í kirkjum landsins. Sjá upplýsingar um næstu kirkjutónleika á mugison.is
Kirkjur út um allt fyrir norðan
Kirkjurnar sem Mugison hefur nú þegar haldið tónleika í á Akureyri og nágrenni eru Möðruvallakirkja, Húsavíkurkirkja, Svalbarðskirkja, Akureyrarkirkja, Grundarkirkja, Dalvíkurkirkja, Ólafsfjarðarkirkja, Siglufjarðarkirkja, Grenivíkurkirkja, Tjarnarkirkja í Svarfaðardal og Hríseyjarkirkja. Að hans sögn eru um 370 kirkjur á landinu öllu og segir hann að það væri gaman að ná að spila einhvern tímann í þeim öllum. „Norðlendingar eru kirkjusjúkir, það eru kirkjur út um allt, ég á alveg fullt af kirkjum eftir þar,“ segir Mugison sem ætlar þó að láta sér nægja að ná 100 kirkjum fyrir árslok. „Svo setur maður sér bara eitthvað annað markmið.“
Mugison á nýja barnum á Hótel Akureyri, í nýafstaðinni ferð um Norðurlandið. Barinn er skemmtilega hannaður, eins og hótelið allt.
Londonar stemning í Grundarkirkju
Aðspurður hvaða kirkjutónleikar á Norðurlandi hafi staðið upp úr segir Mugison að allir tónleikarnir hafi verið geggjaðir en eftirminnilegustu tónleikarnir hafi þó verið í Tjarnarkirkju í Svarfaðardal. „Tjarnarkirkja er lítil og sæt og það voru um 90 manns pakkaðir í þessari litlu kirkju. Konan mín var með og nokkrir vinir svo það var extra gaman á þessum tónleikum,“ segir Mugison. Þá segir hann að það hafi líka verið gaman að spila í Akureyrarkirkju „því þar er svo geggjað sound,“ eins og hann orðar það. „Þá kom Grundarkirkja verulega á óvart. Kirkjan er há, falleg og með skemmtilegum litatónum. Það eru svalir meðfram öllu, það er svona Lundúnastemning þar. Það var pakkað á svölunum og líka í salnum og mjög góð stemning.“
Fyrst og fremst hefur þetta verið skemmtilegt ferðalag. Það hefur verið mjög gaman að hitta kirkjuverðina og prestana á öllum þessum stöðum. Þá hef ég sjálfur staðið í kirkjudyrunum og tekið á móti fólki og það hefur verið rosalega gaman að spjalla við fólk og heyra sögur kirknanna.
Kirkjan góður staður fyrir mannamót
Talið berst að því hvaða áhrif allar þessar kirkjuheimsóknir hafi haft á hann. „Ómeðvitað hefur þetta örugglega einhver áhrif. Fyrst og fremst hefur þetta verið skemmtilegt ferðalag. Það hefur verið mjög gaman að hitta kirkjuverðina og prestana á öllum þessum stöðum. Þá hef ég sjálfur staðið í kirkjudyrunum og tekið á móti fólki og það hefur verið rosalega gaman að spjalla við fólk og heyra sögur kirknanna. Þó fólk sé kannski ekki duglegt að mæta í messu þá á kirkjan stærri hlut í fólki en það kannski gerir sér grein fyrir. Fólk ber virðingu fyrir kirkjunni og hefur átt þar stórar stundir bæði í gleði og sorg. Kirkjan er góður staður til þess að hittast á,“ segir Mugison og bætir við að hann væri alveg til í að sjá kirkjur landsins nýttar undir fjölbreyttari starfsemi. Segist hann sjálfur til dæmis alveg vera til í að fara á uppistand í kirkju.