Fara í efni
Menning

Gleðileikurinn Grís settur á svið í VMA

Dansæfing hjá leikhópi VMA fyrir Grís.

Æfingar eru á fullu sex daga vikunnar hjá Leikfélagi Verkmenntaskólans á Akureyri, sem ætlar að setja upp söngleikinn Grís (Grease) í Gryfjunni í VMA og stefnir nú að frumsýningu 19. febrúar, ögn síðar en áður var ætlað. Pétur Guðjónsson er leikstjóri, en hann hefur áður stýrt allmörgum sýningum hjá félaginu. Hann sagði að ástandið og veiran hefðu seinkað frumsýningu um viku eða svo, en æfingar gengju vel og allir vonuðu að faraldurinn ylli ekki frekari töfum.

Áður hafa verið leiksýningar í Gryfjunni en Leikfélag VMA hefur á síðustu árum sett upp sýningar víða annars staðar, meðal annars í Hofi, í Samkomuhúsinu og í Freyvangi, en í þetta sinn verður sýnt á heimaslóðum. Pétur sagðist vonast til að áhorfendur og leikhúsáhugafólk tækju því vel að koma í skólahúsið og sjá sýninguna.

Grís er stærsta verkefni sem félagið hefur tekið fyrir, gamli, góði söngleikurinn, sem gerður var eftir kvikmyndinni á sínum tíma. Að sögn Péturs verður ekkert hrært í verkinu eða fært til nútíma heldur væri viðmiðunin 1959 og þýðandinn Veturliði Guðnason. Það væri býsna mikil ögrun fyrir unglinga nútímans að takast á við þetta verk, jafnt tíðarandann og málið. Þetta væri góður skóli.

Undanfarin ár hefur Leikfélag VMA sýnt vinsælan söngleik annaðhvert ár en barnasýningu hitt árið. Félagið hefur gengið í gegnum þróunarskeið og að sögn Péturs hefur verið lærdómsríkt að takast á við ólík verk fyrir ólíka hópa og kynnast aðstæðum á ólíkum stöðum. Hins vegar sé draumurinn að geta haft tvær sýningar á ári, söngleik og barnaleik til skiptis á vorin en fámennari, alvarlegri og dramatískari sýningar á hausti.

Hlutverkin í Grís eru 15 en mikill fjöldi annarra nemenda tekur þátt í sýningunni. Þarna er mikill söngur og dans og hljómsveit, aðallega skipuð nemendum skólans, verður á sviðinu. Kristján Edelstein er tónlistarstjóri og um dansana sér Eva Reykjalín. Kennarar koma einnig við sögu, meðal annars aðstoða kennarar á listnámsbraut við leiktjaldagerð.

Í Gryfjunni eru sæti fyrir allt að 180 manns ef engar fjöldatakmarkanir eða fjarlægðarreglur verða í gildi, en sviðið í Gryfjunni hefur verið stækkað fyrir þessa uppákomu. Pétur sagði að verið væri að teikna upp nokkra möguleika á gestafjölda ef til takmarkana kemur, en allir vonuðu að hvernig sem það kunni að velta fái þessi gleðileikur, söngur og dans að ylja sem flestum gestum, metnaður allra sem að þessu stæðu væri mikill.

Fylgist endilega með auglýsingum um Grís í VMA.

Sverrir Páll