„Glæsiröddin“ Harpa Ósk frá Basel í Hof

Frægðarsól Hörpu Óskar Björnsdóttur hefur risið hratt í tónlistarheiminum undanfarin ár. Þessi þrítuga sópransöngkona býr nú í Sviss og starfar hjá Basel leikhúsinu, þar sem hún tekur þátt í fimm mismunandi óperuuppsetningum á yfirstandandi leikári. Harpa Ósk mun spila stórt hlutverk í uppsetningu Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands á Jóhannesarpassíu Bachs í Hofi á skírdag, fimmtudaginn 17. apríl.
Harpa Ósk er Kópavogsmær en með sterka tengingu norður í land. Hún hóf að læra á píanó fjögurra ára, byrjaði í kór níu ára og 14 ára var Harpa Ósk farin að syngja með Gradualekór Langholtskirkju. Hún nam í Söngskólanum í Reykjavík og síðar í Þýskalandi þar sem Harpa Ósk lauk mastersnámi sínu, í München, og hefur starfað við söng allar götur síðan.
„Glæsirödd“
Árið 2019, þegar Harpa Ósk var 25 ára, var ljóst hvert stefndi. Hún var valin einn fjögurra sigurvegara í einleikarakeppninni Ungir einleikarar og einnig Rödd ársins í keppninni Vox Domini; keppni klassískt menntaðra söngvara sem Félag íslenskra söngkennara stóð fyrir. Þar sem hún hafnaði líka í fyrsta sæti í sínum flokki; háskólaflokki, og hlaut auk þess áhorfendaverðlaunin.
Akureyrski stórtenórinn Kristján Jóhannsson sparaði ekki stóru orðin eftir þá keppni. Sagði Hörpu Ósk hafa glæsirödd. „Ég varð ofsalega hrifinn af ungri konu sem söng ... bæði mjög falleg, flott, góður flutningur og glæsirödd sem er eitthvað sem ég hef ekki heyrt hér í að minnsta kosti tuttugu ár ...“ sagði Kristján í viðtali á Bylgjunni.
Hof og Hof
Tengdafjölskylda Hörpu Óskar er búsett á Akureyri og hún hefur einnig tengingar til Kleifa í Ólafsfirði. Harpa, sem auk söngsins er menntuð rafmagnsverkfræðingur, starfaði í níu ár hjá Landsvirkjun, tók á þeim tíma oft vaktir hjá fyrirtækinu við Glerárgötu á Akureyri. Hún segist hafa notið sín bæði á Akureyri og í Ólafsfirði og segir ekkert jafnast á við að drekka kaffi úr pumpukönnu í Búnaðarbankabollunum í Hofi á Kleifum!
Harpa Ósk hefur einnig varið jólum á Akureyri, segir það dásamlegt og gaman er að geta þess að um jólin 2015 söng hún í jólaóratoríu Bachs ásamt kórnum Hljómeyki í Hofi. Hún kveðst því ákaflega spennt og segir það langþráðan draum að fá að koma fram sem einsöngvari í menningarhúsinu Hofi á Akureyri.
Jóhannesarpassía Bachs
Harpa Ósk mun spila stórt hlutverk í uppsetningu Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands á Jóhannesarpassíu Bachs sem fyrr segir, og hún er aldeilis ekki ókunnug verkum þess mikla meistara. „Já, ég á ýmis tengsl við Johann Sebastian Bach og tónlist hans. Ég bjó í Leipzig í þrjú ár þar sem ég var í söngnámi. Ég bjó meira að segja í götunni þar sem Tómasarkirkjan er; þar starfaði Bach og samdi mörg af sínum merkustu verkum, eins og Jóhannesarpassíuna og Mattheusarpassíuna. Í desember síðastliðnum söng ég verk hans með Barrokkbandinu Brák og Kór Hallgrímskirkju,“ segir hún.
„Ég söng einnig nýlega tónlist eins sonar hans, Johanns Christians Bachs, þegar ég tók að mér titilhlutverk í óperunni Zanaida í München í fyrra. Það var mest krefjandi hlutverk sem ég hef sungið, og tónlistin var ótrúlega skemmtileg þótt hún sé ólík tónlist föður hans. Stíllinn minnti meira á Mozart.“