Fara í efni
Menning

„Gjöfin til íslenzkrar alþýðu“ í Listasafninu

Jóhannes S. Kjarval, Fjallamjólk, 1941.

Þrjár sýningar verða opnaðar í Listasafninu á Akureyri á laugardaginn. Ein þeirra er yfirlitssýning á verkum úr safni ASÍ eftir fimm gamla, íslenska meistara; hluti gjafar Ragnars í Smára til Alþýðusambandsins frá því fyrir sex áratugum.

„Það þóttu stórtíðindi þegar athafnamaðurinn Ragnar Jónsson, kenndur við [smjörlíkisgerðina] Smára, ákvað að færa Alþýðusambandi Íslands málverkasafnið sitt að gjöf sumarið 1961. Ósk Ragnars var sú að stofnað yrði listasafn sem kæmi listinni á framfæri við vinnandi fólk í landinu. Listaverkagjöf Ragnars – um 147 verk – lagði grunninn að Listasafni ASÍ og geymir verk margra af þekktustu myndlistarmönnum þjóðarinnar frá síðustu öld,“ segir í tilkynningu frá Listasafninu á Akureyri.

„Ragnar Jónsson byggði safn sitt í kring um fastan kjarna, stór og kyngi mögnuð verk eftir fimm listmálara sem að hans mati voru þekktustu listamenn samtímans. Það voru þeir Ásgrímur Jónsson, Jóhannes S. Kjarval, Jón Stefánsson, Gunnlaugur Scheving og Þorvaldur Skúlason.

Á sýningunni er lögð áhersla á verk þessara listamanna, leitast er við að fanga þá meginhugsun sem lá að baki söfnunarstefnu Ragnars og spegla sýn hans á íslenska listasögu.“

Safnið verður opið frá klukkan 12.00 til 17.00 á laugardaginn. Sýningin er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri og Listasafns ASÍ.

Ásgrímur Jónsson, Landslag, 1948 – 1950.