Fara í efni
Menning

Gifs fer illa með fermingarföt

Mynd: Skapti Hallgrímsson

– Nú er ég aftur kominn á það stig að mála það sem ég sé með augunum eins og hin börnin, sagði Kristinn G. Jóhannsson listmálari í gær, þegar fyrsti hluti samtals hans og Akureyri.net var birt. Þá opnaði listmálarinn sýningu í Mjólkurbúðinni. Kristinn kallar hana Að liðnum sjötíu árum enda 70 eru ár í þessum mánuði síðan hann sýndi fyrst!

Skal nú vinnustofuspjallinu haldið áfram ...

Fyrsta sýning Kristins var í október 1954 á Varðborg, æskulýðshöll við Geislagötu þar sem áður var Hótel Norðurland og er reyndar aftur nú. Hann var þá 17 ára menntskælingur.

Í aðdraganda sýningarinnar sagði í lítill frétt á forsíðu Dags:

„Þessi ungi Akureyringur hefur helgað málaralistinni allar frístundir sínar, mörg undanfarin ár, og mun bæjarbúum þykja fróðlegt að kynnast þessum nýja málara, sem á svo óvenjulegum aldri opnar málverkasýningu.“

Bæjarbúum þótti það fróðlegt og spennandi sem þarna átti sér stað enda málarinn á „óvenjulegum aldri“. Kristinn varðveitir enn gestabókina af sýningunni '54 og þar skráðu nöfn sín 389 manns.

Fjölmennt var við opnun sýningarinnar í Mjólkurbúðinni í gær, ekki vegna þess að málarinn er aftur á „óvenjulegum aldri“ heldur hlakka margir jafnan til þegar Kristinn G. sýnir.

Kristinn varðveitir vitaskuld gestabókina frá fyrstu sýningu sinni sem hófst 2. október 1954. Þetta er fyrsta síðan; Heimir Hannesson ritaði nafn sitt fyrstur, síðan Júlíus Sólnes ...

Brekkurnar í Innbænum prýða nú veggi Mjólkurbúðarinnar i Gilinu, auk þess hús, bílar og fleiri mannanna verk sem fengu að vera með að þessu sinni.

Hvað sýndirðu á Varðborg ´54?

– Ég sýndi húsin í bænum og nágrenni, hafði meira að segja farið út í Slipp og málað skip sem dregin voru upp í dráttarbraut og svolítið var úr Svarfaðardalnum. Þarna voru líka uppstillingar, talsvert af myndum sem ég hafði málað meðan ég var undir handarjaðri Hauks Stefánssonar listmálara, sem var minn fyrsti kennari í þessu.

Dagur sagði 62 verk á sýningunni. Safnast hafði í sarpinn enda hóf Kristinn barnungur að dansa við listagyðjuna.

– Árið eftir fermingu byrjaði ég hjá Jónasi Jakobssyni og ætlaði að verða myndhöggvari. Hann flutti hingað í bæinn, meðal annars til þess að búa til Helga magra sem stendur úti á klöppum, og frú Schiöth sem stendur uppi í Lystigarði, svo ég nefni dæmi.

– Ég man eftir því þegar við fórum með frú Schiöth suður. Jónas steypti hana sjálfur í gifs hér og tók svo leigubíl þegar farið var með hana í málmsteypuna; við sátum með styttuna í aftursætinu, ég og elsti sonur Jónasar, og héldum um herðar henni svo hún dytti ekki framfyrir sig og brotnaði.

Þið og styttan í leigubíl alla leið suður?

– Alla leið suður til Reykjavíkur! Vegirnir voru ekki góðir og það var hálfur sólarhringur sem fór í þetta. Ég man að ég var í fermingarfötunum mínum, þau voru dökkblá og óskaplega vandlega saumuð hjá Valtý klæðskera en þegar ég kom suður var ég orðinn mosóttur, af því það smitaði af gifsinu þegar ég hélt utan um frúna.

Kristinn við opnun sýningar sinnar í Mjólkurbúðinni í gær. Að baki listamanninum eru myndirnar Hús með skyggni og Hús án áfengis. Mynd: Skapti Hallgrímsson

– Mér þótti þetta bölvað því ekki var hægt að ná þessu úr og mosóttur gekk ég um Reykjavík fyrir listamenn og snillinga. Þar hitti ég Einar Jónsson, Ásmund Sveinsson og fleiri sem Jónas vildi að ég sæi ef ég ætlaði að verða myndhöggvari.

Einhverjir kunna að segja: Guði séu þakkir fyrir hve mikill óþrifnaður fylgir gifsinu...

– Ég var lengi með þetta í vaskahúsinu heima hjá mér í Norðurgötunni en það var sóðalegt, bæði leirinn og gifsið, og þar að auki fer það illa með fermingarfötin!

Þegar settur var á stofn skóli frístundamálara, þar sem Emil Sigurðsson var forsprakki en aðrir ungir menn með honum, var Kristinn G. einn nemenda.

– Við fengum fyrst inni í fokheldu Fjórðungssjúkrahúsinu, en svo þurfti að nota sjúkrahúsið til annars svo við hröktumst burtu og fórum næst í Laugargötuna. Ég var fyrst hjá Jónasi að búa til myndir en rann svo á lyktina af terpentínu og striga í hinu herberginu þar sem Haukur var. Þá var teningunum kastað; ég hætti við að verða myndhöggvari og fór yfir til Hauks.

Skóli frístundamálara lagði upp laupana en Kristinn gat þó haldið sínu striki.

– Haukur bauð mér þá að koma upp á vinnustofu sína og sitja þar tvö kvöld í viku. Hann málaði sín verk og ég fékk að mála líka. Hann var ekki margmáll kennari en ágætur og hlýr og leiðrétti hjá mér kúrsinn ef honum fannst ég gera einhverja bölvaða vitleysu. Þetta voru ánægjuleg kvöld en svo bara dó hann veturinn ´53 og þá varð ég meistaralaus, hættur hjá Jónasi og búinn að missa Hauk. En ég potaðist áfram.

Sýningin á Varðborg var vitaskuld stórt skref fyrir ungan listamann.

– Við pabbi hengdum upp verk á þrjá veggi og á gardínurnar fyrir stóra glugganum hengdum við vatnslitamyndirnar. Svo var opnað serimoníulaust.

Kristinn á vinnustofu í síðustu viku þar sem málverkin, sem nú gleðja gesti Mjólkurbúðarinnar, biðu ferðbúin.

Margir mættu á sýningu listamannsins unga eins og áður kom fram. – Megnið af þessu seldist og ég varð moldríkur, segir Kristinn nú. – Held ég hafi eignast 10 þúsund krónur í peningum. Það er talsvert enda voru myndirnar dýrar ... 

Mér sýnist hann brosa óvenju breitt.

Varstu snemma ákveðinn í því að gerast listamaður? Jafnvel þótt listin hafi farið svona illa með fermingarfötin?

– Já, þetta var á þeim árum að menn fóru í læknisfræði eða lögfræði, einstaka varð prestur og einhverjir fóru í viðskiptafræði. Ég sá ekki fram á að ég yrði nothæfur í neitt af þessu svo ég hélt mig við bara þetta og fór suður í Handíða- og myndlistaskólann eftir stúdentspróf. En stoppaði stutt og fór til Edinborgar.

Edinborgar? Var það tilviljun?

– Nei, það var ekki meiri tilviljun en svo að minn ágæti skólabróðir, Björn Jóhannsson, sem var ákveðinn í að fara í ensku og sögu í Edinborgarháskóla, hringir í mig og spyr hvort ég vilji ekki koma líka og setjast í listaskóla í Edinborg frekar en að gaufa þetta í Reykjavík. Ég sótti um og við fórum í sinn hvorn skólann.

Árin í Edinborgarháskóla voru góð, segir Kristinn.

– En þegar ég kem heim var ekkert hægt að lifa á því að þykjast vera listamaður með sítt hár og skegg, segir hann.

Þú hefur neyðst til að snúa þér að einhverju öðru.

– Ég held að það hafi bara verið til góðs. Ég byrjaði á því að vinna á Vikunni í nokkra mánuði, teiknaði forsíður og eitthvað fleira. Á þessum tíma vantaði alls staðar kennara og stúdentspróf var talið ágætt til þess að sinna kennslu, svo ég fór vestur á Patreksfjörð. Þangað hafði ég aldrei komið.

Kristin hafði ágætan tíma til að sinna listinni að loknum skóladegi.

– Ég kenndi í tvö ár og fór að því loknu í kennaraskólann og um það leyti sem ég tók kennaraprófið sýndi ég í Bogasal Þjóðminjasafnsins, aðallega afraksturinn frá Patreksfirði. Þetta voru mest húsin og bátarnir og fjöllin. Og börnin að leika að sér.

Það reyndist ekki flókið fyrir listamanninn að komast að í Þjóðminjasafninu.

– Kristján Eldjárn var þá þjóðminjavörður og ég hringdi bara í hann og spurði hvort ég mætti sýna í Bogasalnum. Og hann sagði já!

Bara si sona.

– Við vorum báðir Svarfdælingar að uppruna. Hann vissi hver ég var.

Mjólkurbúðin í gær. Myndirnar: Hér byrja Aðalstræti og Spítalavegur og fara hvort í sína áttina – Jeppakerra með rauðum glitljósum – Apótekið.

Sama haust og Kristinn sýndi í Bogasalnum tók hann þátt í sýningu Félags íslenskra myndlistamanna, FÍM, í Listamannaskálanum.

– Eftir að ég tók kennarapróf fer ég að líta í kringum mig og það endar þannig að ég fer til Ólafsfjarðar. Hafði aldrei komið þangað heldur. Þar kenndi ég einn vetur við barnaskólann en þegar Gagnfræðaskólinn var stofnaður í bænum ári seinna var ég ráðinn skólastjóri.

Skólastjórastarfinu sinnti Kristinn í 17 ár en flutti eftir þann tíma aftur heim til Akureyrar. Var þá ráðinn skólastjóri Bröttuhlíðarskóla sem nú heitir Hlíðarskóli, stjórnaði honum ámóta lengi og Gagnfræðaskólanum í Ólafsfirði en lét gott heita um aldamótin. Var þá kominn á 95 ára regluna svokölluðu sem virkar eða virkaði þannig að þegar aldur og starfsaldur eru lagðir saman og útkoman er 95 getur viðkomandi farið á eftirlaun.

– Síðan hefur þetta verið aðalatvinnan, í fyrsta sinn, segir Kristinn og lítur yfir listaverkin á vinnustofunni.

– Ég lærði til þessa, var tiltölulega fljótur að afla mér kennararéttinda en þetta tók mig miklu lengri tíma í skóla, að læra það sem ég gat síðan ekki sinnt að ráði fyrr en allra síðustu árin.

– Að vísu málaði ég allan tímann og þegar maður lítur á ferilskrána, sýningarskrána, þá er ég búinn að halda tæpar 40 einkasýningar og samsýningar og svo hef ég komið nálægt um 50 bókum, teiknað forsíður eða myndskreytt …

  • Á MORGUN ÉG ER ENGINN KOLLHNÍSAMAÐUR