Fara í efni
Menning

Getur haft mikið að segja fyrir Eyrina

Höfundar bókarinnar, Arnór Bliki Hallmundsson og Kristín Aðalsteinsdóttir. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Fyrir tæpum tveimur vikum kom út bókin Oddeyri. Saga, hús og fólk eftir Kristínu Aðalsteinsdóttur og Arnór Blika Hallmundsson. Bókin hefur að geyma viðtöl við íbúa í 55 húsum á Eyrinni ásamt sögulegum fróðleik um húsin, ásamt myndum.

Þau Kristín og Arnór Bliki héldu útgáfuteiti í Oddeyrarskóla á laugardaginn og eru yfir sig ánægð með viðtökurnar. Bókin er með svipuðu sniði og fyrri bók Kristínar um Innbæinn, nema hvað í þessari bók bætist við sögulegur fróðleikur sem Arnór Bliki hefur tekið saman.

Kristín er ánægð með útkomuna, en Akureyri.net var á staðnum og fékk nokkrar mínútur með önnum köfnum höfundunum. „Ég held að þessi bók geti haft mikið að segja fyrir Eyrina vegna þess að þarna birtast í einni bók viðtöl við fólk sem býr við bestu aðstæður, í dásamlegu umhverfi. Það eru ótalmargir þarna sem segja hvað veðrið sé gott á Eyrinni, hvað það sé hlýtt, að þarna sé hlýrra en þegar kemur ofar í bæinn,“ segir Kristín.

„Yndislegt hvað fólk tók okkur vel“

Hún segir vinnuna við bókina hafa verið sérstaklega ánægjulega. „Það var yndislegt hvað fólk tók okkur vel og var tilbúið að segja frá,“ segir Kristín og bætir við að pistlarnir frá Arnóri Blika séu ómetanlegir, söguleg heimild um húsin sem viðmælendur hennar búa í.

Þau fóru með bréf í ein 80 hús á Eyrinni og skrifuðu á endanum um 55 hús og íbúana í þeim. „Það voru engin nei, beint,“ segir Kristín. „En við ítrekuðum ekkert. Við fengum 55 svör og töluðum við það fólk. Við gengum ekki á eftir neinum og ýttum ekki á neinn.“ Arnór Bliki bætir við að þögn hafi eiginlega verið sama og ósamþykki – það er að það fólk sem svaraði ekki bréfinu hafi væntanlega ekki haft áhuga á því að vera með.

Þau fóru um alla Eyrina og reyndu að ná til fólks í öllum götum í íbúahluta Eyrinnar, frá Strandgötu í suðri að Grenivöllum í norðri, frá Glerárgötu í vestri að Hjalteyrargötu í austri. „Ég held að það hafi tekist vel og að allar götur séu með,“ segir Arnór Bliki. 

Gestir í útgáfuteitinu voru á öllum aldri; gluggað var í bókina og eintak keypt, margir spjölluðu við höfundana og gæddu sér á veitingum. Einstaka hafði mestan áhuga á þeim!

„Ég tala við húsin“

Vinna þeirra tveggja var ólík því Kristín hitti íbúana, tók viðtölin og skrifaði þau, en Arnór Bliki skrifaði sögulegu pistlana. „Já, ég tala við húsin,“ segir hann í gamansömum tón um þessa verkaskiptingu. „Við unnum þetta auðvitað svolítið í sitthvoru lagi, en samvinnan var líka mikil og hún var algjörlega frábær, sérstaklega ánægjuleg,“ segir Kristín og Arnór Bliki tekur undir það.

„Ég leita fyrst og fremst upplýsinga í gögnum af Héraðsskjalasafninu, í bókunum byggingarnefndar og svo eru til ritaðar heimildir, Oddeyri, húsakannanir og svo bækurnar hans Jóns Hjaltasonar,“ segir Arnór Bliki um sína vinnu. „Timarit.is hefur líka reynst mér gagnlegt, til dæmis til að finna út úr því hverjir bjuggu hvar, hvenær. Svo fæ ég oft ábendingar frá hinum og þessum, frá fólki sem hefur kannski átt heima í húsunum eða átt afa og ömmur sem hafa byggt húsin. Það er ómetanlegt,“ segir Arnór Bliki.

Hann segist nýta ábendingar og munnlegar heimildir, allt sem hann kemst í. Hann reyni að vera spar á fullyrðingar og yfirlýsingar ef hann er ekki fullkomlega öruggur um upplýsingarnar og noti þá mikið mun hafa, líklega og sennilega þegar hann segir frá húsunum. „Af því að heimildir geta verið misvísandi og stundum ber þeim ekki saman. En ég hef ofboðslega gaman af þessu grúski,“ segir Arnór Bliki og má segja að það skíni í gegn, bæði í bókinni og þegar hann talar um þetta viðfangsefni.

Sérstaklega ánægjulegar heimsóknir

Eins og áður kom fram hafði Kristín áður gefið út svipaða bók um Innbæinn, en aðeins með viðtölum og myndum, ekki með sögulegum fróðleik um húsin. „Ég var byrjuð á þessari bók bara ein með sjálfri mér af því að ég hafði áður skrifað bókina um Innbæinn og ætlaði að hafa þessa bók eins. Svo var mér hugsað til Arnórs Blika, en við þekktumst reyndar ekki mikið. Ég lagði hugmyndina fyrir hann um það að við ynnum þetta saman. Hann tók því bara fagnandi og við unnum mikið og náið saman,“ segir Kristín.

Hún er virkilega ánægð með það hvernig fólk tók henni. „Hvert heimilið á fætur öðru þar sem var ánægjulegt að koma inn. Ég gæti haft mjög mörg orð um þessar heimsóknir. Fólkið var allt jákvætt og það yrði svakaleg upptalning. Þetta var bara sérstaklega ánægjulegt,“ segir Kristín um viðmælendur sína og heimsóknir hennar til þeirra.

Vill selja upp í kostnað

Kristín gefur bókina út sjálf, en sonur hennar, Aðalsteinn Hallgrímsson, sá um að setja bókina upp og hafði að miklu leyti umsjón með myndvinnslu. Kristín er stolt af útkomunni, enda sonurinn fagmaður og verkið mjög vel unnið. Henni fannst einfaldast að gefa bókina út sjálf. „Ég hef ekki verið að sækja styrki til að fá einhverja smáaura hér og þar. Heldur bara ætlumst við núna til þess að hún seljist fyrir kostnaði. Þetta er verk upp á 3,5 milljónir,“ segir útgefandinn Kristín.

Viðbrögðin við bókinni hafa verið mjög góð. Kristín hefur haft opið heima hjá sér síðdegis síðustu tíu daga, frá því að bókin kom út, og segir að á hverjum einasta degi hafi einhverjir komið. „Og svo sjáið þið hvernig það er hér,“ segir hún að lokum og lítur yfir þéttsetinn matsalinn í Oddreyarskóla, en þar var stöðugur straumur fólks frá því að útgáfuteitið hófst strax eftir hádegið.