Fara í efni
Menning

Georg Óskar – Það er ekkert grín að vera ég

Georg Óskar. Hvur er maðurinn? Jú, hann tengist Akureyri órjúfandi böndum. Reyndar alinn upp á Krít fyrstu árin og ber því eftirnafnið Giannakoudakis en síðan á Dalvík og Akureyri. Hann fór í Síðuskóla, Verkmenntaskólann og Myndlistaskólann, Hann segist hafa verið baldinn krakki sem fékk útrás í prakkarastrikum, íþróttum, hjólabrettum og síðan í listinni. Það var samt ekki  fyrr en nýlega sem hann fékk almennilega greiningu og meðferð vegna ADHD, sem hefur samt greinilega fylgt honum frá unga aldri. Og nú er þessi skrautlegi karakter kominn heim til Akureyrar með sýninguna Það er ekkert grín að vera ég sem verður í þremur sölum í Listasafninu.

„Það er virkilega gaman að vera kominn heim. Ég lít alltaf á mig sem Akureyring og að fá að vera með svona stóra sýningu hér í Listasafninu er mér mikill heiður. Héðan á ég svo miklar minningar, Þorpið og Eyjafjörðurinn mótuðu mig mikið til. Yngri ár voru vissulega skrautleg á köflum en svo hef ég róast með árunum og náð einhvers konar jafnvægi, held ég,“ sagði Óskar þar sem hann var að hengja upp málverk í sölum Listasafnsins á Akureyri.

Hann fór í skiptinám í Lahti í Finnland og nam við Listaháskólann í Björgvin í Noregi og kynntist þar kínversku listakonunni Yafei Qi sem hann giftist síðar á Akureyri. Þau fluttust til Berlínar 2018 og áttu þar góðar stundir sem Óskar eyddi mikið með Margeiri Dire sem bjó í Berlín á sama tíma. Fluttu þau síðan til Óslóar í Noregi þar sem þau eru nú og eftir nokkurn tíma eignuðust þau barn, keyptu sér íbúð og leigðu vinnustofu.

Líf mitt er í listinni

„Líf mitt er í listinni og mörg málverk afhjúpa mig en auðvitað reynir maður stundum að dyljast og fela sig á bak við pensilstrokurnar,“ sagði Óskar. Hann hefur undanfarin fimmtán ár að mestu lifað á listinni og geri aðrir betur. Sýningar í Bandaríkjunum, Bretlandi, Kína, Noregi og víðar sem þýðir að það er eftirspurn eftir málverkum hans. Hann mun taka þátt í Listamessunni SG Singapore í janúar 2025 með Richard Koh Fine Arts og sýnir síðan í gallerínu hans í Singapore í júlí 2025.

„Jú, jú, auðvitað hef ég unnið aðrar vinnur, heldur betur! Jón sprettur, byrjaði sem sendill, síðan var mér treyst að baka pizzur, B. Jensen árin eru mér kær líka, ég lærði að vinna þar má segja, 14 ára gamall. Kaffi Kú hjá Einari og Sessu. Slá gras á golfvellinum hjá Steindóri, mér var bara treyst fyrir að vera á „ruff“ vélinni þar endaði ég einu sinni á gríninu sem ég var húðskammaður fyrir, auðvitað. Ég hef alltaf verið best geymdur í háa grasinu en ég náði stundum samt að gera einhverjar kúnstir þar líka. Steindór hafði það aldrei í sér að reka mig enda topp gaur. Ég gæti lengi talið en undanfarin ár hef ég verið svo lánsamur að hafa getað helgað mig listinni – og svo föðurhlutverkinu síðastliðið ár. Þegar dóttir okkar fæddist hefur tilveran færst á annað stig og að vera pabbi breytir manni heilmikið.“

Það virðist hvíla ansi mikið á Óskari að vera orðinn pabbi og hvernig íbúðin þeirra í Ósló gæti orðið fjölskylduvænni. „Jú, ég hef gaman af því að smíða og dytta að en á sama tíma hef ég vit á því að fá fólk í starfið ef það er mér um megn, þannig að þegar upp er staðið býst ég við að íbúðin okkar verði bara hentug fyrir okkur þrjú,“ sagði Óskar. „Ino litla er nýbyrjuð á leikskóla í nágrenninu og við erum smám saman að aðlagast norsku samfélagi.“

Það er ekkert grín að vera ég

Óskar var spurður nánar út í umfjöllunarefni hans í myndlistinni. Titill sýningarinnar, Það er ekkert grín að vera ég, bendir til þess að þetta séu persónuleg verk og sum jafnvel afhjúpandi eins og hann kom inn á. Er þetta jafnvel einskonar ævisaga í myndverkum?

„Að sumu leyti má segja það því nokkrar myndir endurspegla minningar mínar frá Akureyri þegar ég var að byrja að fikra mig áfram,  Berlínarárin og svo framvegis. Sýningin er ferðalag sem byrjar í Þorpinu, póstnúmeri 603 og heldur svo áfram út fyrir landsteinana. Það má örugglega lesa og greina einhverja þróun í verkunum en ég hef nánast alltaf verið að draga fram mína upplifun á manneskjunni og umhverfinu á hverjum tíma. Ég hef gert þetta með húmor og galgopaskap, stundum með ádeilubroddi en líka einlægni, sem sumir myndu jafnvel kalla barnslega einlægni,“ sagði Óskar.

Hann nefndi að auðvitað væri það áhorfandans að meta hvert verk og túlka á sinn hátt og upplifun fólks væri oft mismunandi.

„Kjarninn í sköpunarferlinu mínu er eðli daglegs amsturs, sem inniheldur náttúruna og flækjur mannlífsins. Verkin gegna hlutverki dagbókar, þar sem ég skrái persónulegar athuganir og á sama tíma standa verkin opin fyrir aðra að horfa inn á við því ég vil og hef þá von  á að tengjast öðru fólki með verkunum mínum, geri ég það með myndefni, nálgun, textum og titlum verka.  Ég hef alltaf staðið fyrir því að reyna skilja eitthvað eftir í verkunum mínum.“

Sýningin í Listasafninu á Akureyri verður opnuð á morgun, laugardaginn 28. september, í sölum 1, 3 og 5 og mun hún standa alveg fram í janúar.