Gamli tíminn lifnar við í Garðskúr afa Sig
Garðskúr afa Sig er heiti nýjustu bókar rithöfundarins Sigmundar Ernis Rúnarssonar og er hún framhald bókarinnar Eldhús ömmu Rún sem kom út 2012 en í báðum þessara prósaverka skáldsins er fjallað um hversdagsleg samskipti við gömlu verkakonuna og bóndakonuna, þær Guðrúnu og Sigrúnu – og núna Sigfús og Sigmund sem ganga samviskusamlega til starfa sinna á lagernum hjá KEA og niðri á kaja, svo fremi einhverja vinnu er þar að hafa, en heima fyrir ríkir svo gamla hefðin í bland við óttann gagnvart nýjungum.
Það er óhætt að segja að gamli tíminn lifni við á síðum þessara bóka, tími nægjusemi og útsjónarsemi í heimilisrekstri þegar samfélagið var einsleitnara en það ber með sér á nýrri öld. Og tíminn virtist líða hægar, raunar miklu hægar, enda dægrastytting og tómstundir ekki merkilegri fyrirbæri en svo að litið var niður á gagnlausa tímaeyðslu af því taginu.
En grípum niður í nýju bókina, fyrsti prósinn gefur tóninn:
Endurminningin
er leiðsögn
hávaðalaus tilmæli
um
dugnað og gæsku.
Og Sigmundur litli fær auðvitað tilsögnina í afahúsum í kringum 1970:
Þegar kom að því að heilsa fólki var kennslan bæði
einföld og skýr; taktu hraustlega í þverþykka höndina,
en þó ekki fastar en svo að hlýjan sitji eftir í lófanum.
Og þetta er sem fyrr segir, tími nægjusemi og hófstilltra lífsviðhorfa:
Peningar höfðu þríþættan tilgang, að því er afa fannst;
svo hann hefði fyrir salti í grautinn, gæti keypt sér
eitthvað af tóbaki – og ætti fyrir útförinni. Tvennt það
fyrra sparaði hann við sig alla tíð svo það þriðja myndi
ekki klikka í lokin.
Auðvitað var hneykslast á þessum tímum og tuðað lítillega ofan í kviðinn:
Gamli maðurinn skildi ekkert í þessu endemis þrugli
kaupstaðarfólksins um framhaldslíf, enda sagði hann
við mig eitthvert skiptið með skárra augað dregið í pung
að ef hann dræpist yrði það fyrir fullt og allt.
Fólk á þessum tíma talaði dönsku á sunnudögum, að því er hermt var upp á Akureyringa fyrr á tímum, en þótt það sé líklega ofsagt var margt í mæli þess nokkuð dönskuskotið:
Draumur afa var að byggja altan út af suðurgaflinum
svo hann sæi betur fram í fjörð, en amma talaði hann af því,
vongóð lengi um að eignast frekar stóris fyrir stofugluggann.
Og raunar voru mállýskur þessa tíma af öllu tagi og á það ekki síst við um gömlu blótsyrðin:
Hann blótaði ekki oft, en þá sjaldan hann yggldi munninn
var það með svo sérstæðum orðum að ein og sér
vöktu þau meiri athygli en reiðin sjálf; ekkisens
var einna algengast og af og til heyrðist grefilsins,
en þá fyrst tók í útveggina ef það var djombandinn.
Undir 1970 kom sjónvarp til Akureyrar, en það var fullt til seint fyrir suma menn:
Karlinn
vandist aldrei
sjónvarpi
allar sæmilega
trúverðugar fréttir
bærust úr útvarpi
það þyrfti ekki
að sýna honum það
sem hægt væri
að segja honum.
Þessir gömlu dagar voru tímar réttindaleysis í atvinnulífinu – og það var fráleitt sjálfgefið fyrir daglaunamenn að fá vinnu:
Það mátti lesa það
úr göngulagi afa
upp gjögtandi tréstigann
í Gilsbakkavegi
hvort hann hefði fengið vinnu
þann daginn
en því léttari
voru skrefin
sem meira
hafði verið að gera.
Og ef fólk hafði eitthvað á milli handanna var stundum leyft sér, en það voru líka engir venjulegir dagar:
Fékk að fara með þeim
þennan daginn
það átti að versla ristavél
þá fyrstu í þeirra búskap
hún með túberað hárið
hann á blankskónum.
Garðskúr afa Sig geymir 80 prósa um þessa gömlu daga frá æskuárum skáldsins á Akureyri og ekki er laust við að það megi finna húslyktina á síðum bókarinnar, svo og ilminn af nýslegnu grasi í bakgarðinum, að ekki sé talað um bragðið af nýuppteknum kartöflum.