Game-far Aðalsteins Þórssonar á Brúnum
Aðalsteinn Þórsson opnar sýningu á myndlistarverkum sínum laugardaginn 8. apríl kl. 15.00 í listaskálanum að Brúnum í Eyjafjarðarsveit; Brúnir Horse Gallery. Sýninguna nefnir hann Game-far í Brúnir horse.
Í tilkynningu segir að verkin séu öll tvívíð, „unnin með olíulit, akríl eða pastel á pappír, hardbord eða dúk og eru í ólíkum stærðum. Þannig er stærsta verkið yfir þrír metrar á lengd en það minnsta u.þ.b. þrír desimetrar.“ Flest eru verkin frá þessu ári og því síðasta en nokkur eru eldri, það elsta frá 2006.
„Það er meiningin að þessi verk sýni ákveðna samfellu í sköpun minni. Engu að síður er mikill munur á myndheimi þeirra elstu og þeirra yngri. Þannig komu t.d. óforvarindis flugvélar inn í seríu sem ég var að vinna að í fyrra vor. Þær hafa ekki farið aftur, en eru þetta flugvélar?“ segir listamaðurinn í tilkynningu. „Ég var frekar illa stemmdur þarna í endann á faraldri og stríðið í Úkraínu. Þetta voru ekki per se vélar framfara og fegurðar sem komu á pappírinn. Burt séð frá stríði, hversu jákvæðum augum eigum við að líta þessi farartæki í heimi hnattrænnar hlýnunar af völdum alls brunans síðustu öldina og kannski heldur lengur? Við brennum samt áfram sem aldrei fyrr. Því við erum börn leiksins, dýr þægindanna. Ég býð Game-far á dúk. Titilinn vísar til margræðs veruleika verkanna í margræðum veruleika samtímans.“
Aðalsteinn Þórsson er fæddur 1964 á Kristnesi í Eyjafirði. 1989 hóf hann nám í Myndlistaskólanum á Akureyri. Hann lauk MFA námi frá Dutch Artinstitute, ArtEz árið 1998, þá Aki2 í borginni Enchede í Hollandi. Aðalsteinn hefur verið starfandi myndlistamaður síðan. Haldið fjölda sýninga og tekið þátt í samsýningum. Megin verkefni Aðalsteins utan við málverkið er Einkasafnið, umhverfisverkerk sem hann starfrækir í Eyjafjarðarsveit 10 km. sunnan Akureyrar.
Sýningin er opin frá 14 - 17, 9. apríl páskadag og helgina 22. og 23. apríl. Hægt er að hafa samband við listamanninn um leiðsögn um sýninguna á öðrum tímum. Aðgangur er ókeypis.