Fara í efni
Menning

Gagnvirk ljóðasýning opnuð í Mjólkurbúðinni

Það sem mögulega er fyrsta gagnvirka ljóðasýningin á Íslandi verður opnuð í dag kl. 17 í Mjólkurbúðinni, sal Myndlistarfélagssins í Gilinu. 

Sýningin samanstendur af 21 ljóði Í römmum sem öll eru þrjár setningar. Á sýningunni er aðgengilegur QR-kóði sem gestir geta skannað og detta þá inn á heimasvæði ljóðanna þar sem höfundur hefur sett inn vísbendingar um kveikjur sumra ljóðanna. Í tilkynningu um sýninguna segir að þar gefist gestum kostur á að bæta við ljóðin, tjá upplifun sína, setja inn myndir, eða bara hvað sem er – eða bara sleppa því að taka þátt og skoða hvað aðrir hafa gert. Höfundur ljóðanna og hugmyndasmiður sýningarinnar er Arnrún Halla Arnórsdóttir, hjúkrunarfræðingur, háskólakennari, doktorsnemi og áhugaskáld.

Ljóðin á sýningunni eru öll þrjár setningar. Af hverju? Jú af því að lífið þarf ekki að vera flókið og tölustafurinn 3 hefur mikla þýðingu í lífi höfundar. Til dæmis á hún þrjú börn sem öllu breyttu. Ljóðin á sýningunni eru ný, gömul, endurunnin, uppspuni og sannleikur, allt í bland upp úr skáldaskúffu Arnrúnar sem hefur verið að fyllast undanfarið 31 ár eða svo.

Þetta er fyrsta opinberun höfundar á skáldskap sínum. Hingað til hafa ljóðin verið dregin fram á kort fyrir vini og fjölskyldu, upplestur til gamans eða miðaldurs útrás á andlitsbókinni. Nú er komið að því að höfundur stígur út fyrir rammann og býður ykkur í dans með sér og ljóðunum. Njótið vel

Sýningin er opin á eftirfarandi dögum:

  • 1. mars kl.17-19
  • 2. mars kl.14-17
  • 3. mars kl.14-17
  • 8. mars kl.17-19
  • 9. mars kl.14-18
  • 10. mars kl.14-18