Gæða Sigurhæðir lífi á nýjan leik
Líf færist bráðlega í Sigurhæðir, hið fallega hús séra Matthíasar, þar sem það kúrir neðan undir Akureyrarkirkju. Húsið var auglýst til leigu, Akureyrarbær hefur ákveðið að semja við Flóru menningarhús og trúlega verður skrifað undir samning innan tíðar.
„Aðgengi að staðnum hefur valdið vandræðum en gott er að líta á Sigurhæðir bara eins og þær eru og taka kostum staðarins. Húsið hefur að miklu leyti verið gert upp og höfum við Akureyringar kostað þar heilmiklu til. Það kunnum við að meta. Vandkvæði komu upp með raka í húsinu, en það hefur verið lagað. Húsið þarf líka á fólki og lífi að halda og núna bætum við úr því,“ segir Kristín Þóra Kjartansdóttir, eigandi Flóru, við Akureyri.net.
Hjónin Kristín Þóra og Hlynur Hallsson búa við Hafnarstræti, steinsnar frá Sigurhæðum. „Við horfum daglega á þetta hús, börnin okkar og vinir þeirra hafa oft leikið sér þarna og ég hef oft hugsað um að einhver verði að gera eitthvað í Sigurhæðum.“
Andinn varðveittur
„Það er magnað fyrir okkur að eiga svona stað og nú fær fólk aðgengi að honum. Sigurhæðir er að mörgu leyti barn síns tíma. Og það tekur okkur að hluta til þessa tíma. Sem er mikill kostur. Að koma inn í Sigurhæðir er eins og að hverfa marga áratugi aftur í tímann, þótt engin safnastarfsemi sé þar inni núna. Húsið er bara sjálft þess eðlis. Fólk er í raun komið eitthvert annað, tilfinningalega og í huganum. Sem betur fer hafa Akureyringar líka haft vit á því að varðveita þennan anda. Þessi sérstaða er einmitt það sem þarf að vinna með. Við lítum á Sigurhæðir sem vin í miðju Akureyrar. Akureyri er svo í miðri náttúruparadís Norðurlands með alla sína töfra.“
Kristín Þóra segir Sigurhæðir líka sérstæðan stað á þann hátt að „húsið situr eitt og útaf fyrir sig í gróðurbrekkunni með einstöku útsýni inní hluta þessarrar náttúru. Það er í miðbæ Akureyrar, en þarna er samt eins og fólk sé komið út í sveit. Hingað er því gott að koma, líka til að draga sig útúr ati hversdagsins.“
Sköpun – hugsun
„Við munum reka þarna stað þar sem listamenn, hönnuðir, frumkvöðlar, bændur, hugsuðir og aðrir skapandi aðilar geta fengið inni til þess að dvelja og vinna að nýju og endurhugsa. Og koma sköpun sinni og hugsun á framfæri. Fólk sem vinnur með ólíka miðla og ólík efni. Sérstök áhersla verður þó á þau sem vinna með texta í ólíkum miðlum.“
Kristína segir pælingarnar ekki markaðsdrifnar. „Við samtímafólkið höfum fengið það verkefni í hendurnar að endurhugsa hlutina, hugsa tilveru okkar uppá nýtt, endurskapa samfélagið og takast þannig á uppbyggilegan hátt á við þær umbreytingar sem nú þegar eru byrjaðar. Þetta er stórt, en byrjar smátt. Við þurfum að gefa fólki sérstakt rými til þess að dvelja við þessar pælingar, kveikja neista að nýju, finna nýjabrum, vinna með það, skapa nýtt og miðla því. Það þarf önnur tól og tæki til að takast á við nýjan veruleika, tilveru í hraðri umbreytingu. Þannig mun Flóra halda áfram því starfi sem hún hefur sinnt í Hafnarstrætinu undanfarinn áratug: að vinna með mjög ólíkum aðilum að endurhugsun náttúrutengsla okkar, uppgötvunum, nýbreytni því tengdu. Hér spila listamenn þó sérstakt hlutverk meðal allra ofangreindra skapandi aðila. Þeir hafa svo marga miðla til þess að endurspegla og endurskapa og veita okkur tækifæri til þess sjá uppá nýtt.“
Síbreytileg sýning
Í Sigurhæðum verður því vinnuaðstaða fyrir þennan fjölbreytta hóp, segir Kristín, „en hér verður einnig minningarstaður um Matthías Jochumsson og Guðrúnu Runólfsdóttur, þar sem verður síbreytileg sýning eða innsetning sem skapar tengingar við það afar áhugaverða fólk, þeirra tíma og hugsun, fólk sem voru líka lykilmanneskjur hér í marga áratugi. Matthías var fyrir margra sakir frumgneisti á sínum tíma og bar með sér ferska vinda inn í samfélagið –og sem slíkur bæði umdeildur og elskaður. Staðurinn verður líka með eigin viðburði og sérverkefni á menningarsviði í gangi eins og Skapandi Akureyri - Akureyri Creative kort og menningarsamstarf undir hatti Pastel ritraðar.“
Menningarhús í Sigurhæðum verður opið fyrir vinnuaðstöðu allan ársins hring en húsið verður opið almenningi hálft árið, 6. júní til 6. nóvember. „Vinnuaðstaðan verður tekin í gagnið fljótlega eða þegar við fáum húsið afhent í sumar. Full starfsemi með opnun fyrir almenning kemst svo af stað vorið 2022. Þá getur fólk líka fengið inni í Sigurhæðum fyrir minni fundi, uppákomur, kynningar, upplestra, sýningar, námskeið – allt í sérstæðu andrúmslofti staðarins – og almenningi býðst að njóta alls þessa,“ segir Kristín.
Vert er að geta þess að sett verður á fót sjö manna fagráð fólks úr ýmsum áttum; þar á meðal verður fulltrúi frá Minjasafninu á Akureyri, sem verður ráðgefandi um starfsemi Flóru menningarhúss í Sigurhæðum.