Fara í efni
Menning

Fullorðin flytja í menningarhúsið Hof

Fullorðin er heimalagaður gamanleikur Leikfélags Akureyrar þar sem Árni Beinteinn, Birna Pétursdóttir og Vilhjálmur B. Bragason fara á kostum og hafa hrist duglega upp í hláturtaugum leikhúsþyrstra áhorfenda nú í janúar. Framan af var fámennt grímuklæddra gesta í sal Samkomuhússins, einungis 50 áhorfendur leyfðir, en samkomuhömlur hafa nú verið rýmkaðar svo áhorfendur mega vera 100 á hverri sýningu. Þessar takmarkanir valda því að sýningar þurfa að vera fleiri en þegar hægt er að sýna fyrir fullu húsi. Leikfélagið hefur bætt við aukasýningum, en fyrirsjáanlegt er að þær teygjast fram í febrúar og þá tekur að þrengjast um í Samkomuhúsinu, þar sem verið er að koma Benedikt búálfi á svið.

Nú hefur verið ákveðið að í febrúar verði Fullorðin sýnd í Svarta kassanum á sviði Hamraborgar í Hofi. Svarti kassinn er reyndar sviðið sjálft og þar er komið fyrir sætum fyrir þann fjölda sem má. Áður hafa farið þar fram tónleikar og reyndar sýndi Leikfélagið Hárið á þessum stað fyrir allmörgum árum. Svarti kassinn er afar notalegt rými með mikilli nánd listamanna og gesta.

Allar nánari upplýsingar um sýningar, miðasölu og leikskrá má finna á vef mak.is