Fara í efni
Menning

Fuglar á Íslandi og árstíðirnar fjórar

Fuglaskoðun nýtur sívaxandi vinsælda í heiminum og Ísland er þar engin undantekning. Sem dæmi má nefna að á Facebook eru a.m.k. tvær síður sem birta ljósmyndir af íslenskum fuglum, annars vegar Fuglar á Íslandi og hins vegar Íslenskar fuglategundir, og svo er ein þar í viðbót sem heitir einfaldlega Fuglafóðrun. Fylgjendur þeirra eru samtals um 30 þúsund og fjölgar dag frá degi.

Það er ekki síst með þennan hóp í huga sem Siglfirðingurinn Sigurður Ægisson skrifaði nýjustu bók sína, sem nefnist Fuglar á Íslandi og árstíðirnar fjórar: Fugladagbókin 2022, en hún kom út fyrir skemmstu.

Til hjálpar fuglaskoðurum

„Mig langaði að koma með eitthvað sem hjálpaði fuglaskoðurum að halda utan um alla fuglana sem þeir væru að sjá, bæði í garðinum hjá sér og annars staðar, því minnið getur verið æði brigðult,“ segir Sigurður þegar hann er spurður út í hvernig þetta hafi komið til. „Ég fékk eiginlega hugmyndina á Höfn í Hornafirði þegar ég og Mikael, sonur minn, vorum að eltast við einhvern flækingsfugl fyrir nokkrum árum, grænfinku, ef ég man rétt, en þá sá ég hliðstæða bók, sænska, hjá húsráðanda, þar sem við höfðum fengið inni og vorum að mynda út um glugga. Reyndar eru svona bækur líka til í öðrum löndum víða, m.a. í hinum enskumælandi heimi, en ég byggi mína þó upp á aðeins annan hátt, þótt tilgangurinn sé nokkurn veginn sá sami.“

Eitt af því sem er ólíkt, er, að hann notar gamla, íslenska misseristalið sem viðmið, ásamt því sem víðast hvar er við lýði, þannig að fólk getur áttað sig á hvaða mánuðir gamla ársins eru hverju sinni, hvenær þeir byrja og hvenær sá næsti tekur við. En það sem var sérstakt við hið eldra var, að vormánuðurinn var bara einn og haustmánuður líka, en sumarið og veturinn fimm mánuðir hvor um sig, sem í raun hentaði betur hinni íslensku veðráttu.

„Annars má segja að bókin sé tvískipt,“ heldur Sigurður áfram, „annars vegar er fróðleikur um 52 valdar fuglategundir sem sést hafa á Íslandi, og hins vegar er dagbók, þar sem notandi getur skrifað hvaða tegundir hann er að sjá, hvar og hversu marga fugla. En auðvitað má nota bókina sem venjulega dagbók líka.“

Rúmlega 400 tegundir

Þess má geta að rúmlega 400 fuglategundir hafa sést á Íslandi frá upphafi skráningar, þótt einungis 75–80 verpi hér að staðaldri. Sigurður ákvað því að vekja athygli fólks á þessari merkilegu en þó lítt kunnu staðreynd með því að leyfa flækingsfuglum að hafa sitt rúm í bókinni.

„Það er ekki mikið til skrifað á íslensku um sumar þessar tegundir sem eru að heimsækja landið endrum og sinnum, svo að mér fannst rétt að beina kastljósinu að þeim að þessu sinni, í og með. Það hefur nær eingöngu verið um þær fjallað hingað til í lokuðum hópum eða þá í sérhæfðum tímaritum eins og Blika, Fuglum og Náttúrufræðingnum,“ segir Sigurður.

Hann hefur áður gefið út bók um íslensku varpfuglana, það var árið 1996, sú hét Ísfygla, og svo kom út í fyrra bók hans Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin, sem var tilnefnd til viðurkenningar Hagþenkis. Einnig skrifaði Sigurður og gaf út árið 2015 bók um fálkann. Hún er bara fáanleg á ensku og er m.a. til er til sölu á Amazon. Sömuleiðis hefur hann skrifað bækur um hvali (1997 og 2010) og íslenskar kynjaskepnur (2008) og fleira.

Dómpápi, býsvelgur, herfugl ...

Meðal tegundanna sem fjallað er um í hinni nýju bók eru nokkrar sem eru nær Akureyringum en marga grunar, því þar má nefna dómpápa, en einn sást á Húsavík fyrr á þessu ári, býsvelg, en einn sást á Siglufirði fyrir mörgum árum og var þá annar fuglinn fyrir Ísland frá upphafi skráningar, og svo fjallvákur, sem einnig sást á Siglufirði, gulerla, herfugl, kanaduðra, ormskríkja, en sú þriðja fyrir Ísland sást þar fyrir tveimur árum, og sefþvari, að bara fáeinar séu nefndar.

Í aðfaraorðum bókarinnar segir, að það sé von höfundar og útgefanda að hún megi þykja upplýsandi og gefandi, auka skynjun fólks á íslenskri náttúru og ekki síður opna augu þess fyrir tengslum hennar við umheiminn.

Gert er ráð fyrir að bókin komi út árlega héðan í frá og þá með nýjum textum í hvert sinn.

Bókin, sem Sigurður tileinkar barnabörnum sínum, er í litlu og handhægu broti og það er Bókaútgáfan Hólar ehf. sem gefur hana út.