Fræ úr hinu yndislega Bohemian Rapsody
Alþjóðlegu tónlistarhátíðinni WindWorks í norðri lýkur á morgun, laugardaginn 12. ágúst, með tvennum tónleikum í Sjóminjasafninu - Safnahúsinu á Húsavík. Ókeypis er á tónleikana.
Á fyrri tónleikunum, klukkan 14.00, kemur fram tríó trompetleikara – Jóhann Ingvi Stefánsson, Sóley Björk Einarsdóttir og Vilhjálmur Ingi Sigurðarson spila þá, og í kjölfar þeirra, klukkan 15.00, leikur Aulos tríóið og frumflytur m.a. verk eftir staðartónskáld hátíðarinnar, Daníel Þorsteinsson.
Áskorun, heiður, hvatning
Daníel Þorsteinsson samdi fjögur verk sérstaklega fyrir hátíðina og segir það hafa verið mikla áskorun að vera beðinn um að taka verkefnið að sér. „Það var líka mikill heiður og í raun og veru mjög hvetjandi,“ segir Daníel við Akureyri.net.
Pamela De Sensi, stofnandi hátíðarinnar og listrænn stjórnandi, kom að máli við Daníel síðastliðið haust og falaðist eftir kröftum hans, Daníel sótti um starfslaun vegna verkefnisins og fékk. „Ég hafði því tækifæri til að helga mig þessu eingöngu; gat tekið mér leyfi frá störfum í Tónlistarskólanum og einhent mér í þetta stóra verkefni. Mér var falið að semja fjögur verk, í janúar var talið í og ég sat við fram á sumar.“
Hrósar Pamelu
Hátíðin er helguð blásturshljóðfærum. Daníel segist áður hafa samið fyrir slík hljóðfæri í kammer- og sinfóníuverkum, en ekki samið verk fyrir þau eingöngu, þar sem tveir eða þrír blásturshljóðfæraleikarar spila saman.
„Þetta er öðruvísi áskorun því hljóðfærin eru berskjaldaðri og þar með maður sjálfur. Fyrsta verkið var til dæmis fyrir þverflautu og básúnu sem eru ekki eðlislík hljóðfæri og annað fyrir altflautu og náttúruhorn. Það eru svolítið krefjandi samsetningar en mér leiddist alls ekki; fannst óskaplega gaman að glíma við þetta og var með frábæra flytjendur sem ég var í sambandi við.“
Daníel vissi með góðum fyrirvara hverjir myndu flytja verkin. Hann segir það í sjálfu sér ekki breyta neinu, en þekki tónskáld einstaka hljóðfæraleikara vel hafi menn það ósjálfrátt á bak við eyrað „og stundum skrifar maður beinlínis eitthvað til einhvers sem maður þekkir. Það er líka gefandi.“
Hann segir það ákveðið ævintýri að hlýða á frumflutning eigin verka, en þegar spurt er um þá upplifun kýs Daníel að hrósa Pamela De Sensi sem áður var nefnd frekar en fara nánar út í þá sálma. „Ég gefst ekki upp á að hrósa Pamelu fyrir atorku hennar við að koma öllu í framkvæmd því þetta er ekki einfalt mál. Hér eru bæði innlendir og erlendir flytjendur svo það eru gríðarlega margir spottar sem hún þarf að toga í.“
Mercury og Bohemian Rapsody
Daníel segist hafa sótt sér innblástur í verkin „til ekki ómerkara tónskálds en Freddie Mercury og hljómsveitar hans, Queen.“ Strax hafi kviknað sú hugmynd að leita í þann brunn, sem hafi verið Daníel kær og haft áhrif á hann.
„Ég leyfði þessu að gerjast og verkin fjögur bera hvert um sig einhver fræ úr hinu yndislega verki, Bohemian Rapsody. Maður getur sótt sér innblástur hvert sem verkast vill og þetta beindi mér að ákveðnum tilfinningum og hugsunum.“
Verkin eru fjögur eins og áður sagði, og heiti þeirra ættu ekki að koma unnendum Mercury og Queen á óvart: það fyrsta kallar Daníel Anyway, það næsta The wind blows, þriðja verkið heitir Doesn't really matter og það fjórða og síðasta kallar hann To me, to me.
„Titlarnir eru úr verkinu og svo vann ég líka lítil mótíf, sem ekki eru augljós og sumir heyra líklega en aðrir ekki, úr þessum kafla Bohemian Rapsody.“
Gengið ótrúlega vel
WindWorks í norðri hófst í Ólafsfirði 2. ágúst og lýkur tíu dögum seinna á Húsavík, með viðkomu á Langanesi, Akureyri, Dalvík og Svalbarðsströnd,.
Listrænn stjórnandi og stofnandi hátíðarinnar er flautuleikarinn Pamela De Sensi, eins og áður kom fram, „og hún ásamt Petreu Óskarsdóttur hafa staðið fyrir því að þessi hátíð yrði að veruleika,“ segir í tilkynningu frá hátíðinni.
„Í ár hefur gengið ótrúlega vel, og hátíðin stækkað frá síðasta ári og því ber að þakka fjölmörgum styrktaraðilum sem hafa stutt við hátíðina, ásamt öllum söfnunum sem hafa tekið á móti okkur. Nokkur erlend tónskáld báðu um að semja ný verk fyrir tónleikana og komu tvö þeirra alla leið til Íslands til að hlýða á frumflutninginn, Edoardo Dinelli frá Ítalíu og Luiz Castelões frá Brasilíu.“
- Frétt Akureyri.net fyrir hátíðina: Áhersla á nýsköpun á WindWorks í norðri
WindWorks í Norðri er styrkt af uppbyggingarsjóði SSNE, Tónlistarsjóði Menntamálaráðuneytisins, Norðurþingi, Akureyrabæ, Menningarsjóði FÍH, Samfélagsstyrks Norðurorku, Tónskáldasjóði Rúv og Stef, Listamannalaunum og Istituto Italiano di Cultura í Oslo.