Fara í efni
Menning

Fossar Eyjafjarðar #3: Geirufoss

Foss vikunnar er Geirufoss í Myrká. Mynd: Svavar Alfreð Jónsson

Foss vikunnar er Geirufoss. Hann er í Myrká í Myrkárdal sem er einn þverdala Hörgárdals.

Úr bókinni Gljúfrabúar og Giljadísir:

Í þjóðsögu segir frá bónda í Myrkárdal, vel stæðum, miklu afarmenni sem þó hafði þjáðst af támeyru. Svo illa haldinn var hann af henni að hann taldi támeyru einan sjúkdóma. Önnur veikindi stöfuðu að hans mati af aumingjaskap.

Bóndi átti dóttur og hafði ungan og röskan mann í vinnu hjá sér. Felldu vinnumaðurinn og bóndadóttirin hugi saman. Vinnumaðurinn hafði það starf að standa yfir fé bónda á dalnum. Eitt sinn kom til hans kona ein mikil og stórskorin. Kvaðst hún heita Geira og byggi framar á dalnum. Faðir hennar hafi verið tröllkarl en móðir hennar mennsk. Væri hún því hálftröll. Foreldrar hennar væru báðir dánir og því hundleiddist henni. Heimtaði Geira af vinnumanni að hann bæri sig á bakinu meðan hann standi yfir fénu. Ekki þorði vinnumaður annað en að hlýða. Gekk þannig næstu dagana og var hann skiljanlega að niðurlotum kominn en þorði ekki að segja neinum frá þessari áníðslu skessunnar af ótta við að bónda þætti lítið til koma miðað við fjandans támeyruna.

Svo fór þó að vinnumaðurinn gafst upp og sagði bóndadótturinni allt af létta. Henni hugkvæmdist snjallráð. Vinnumaðurinn átti að segja föður hennar að sökum heiftarlegrar támeyru treysti hann sér ekki til að fylgja fénu næsta dag. Bóndi hlyti að viðurkenna támeyru sem fullgild veikindaforföll. Kom á daginn að þannig brást bóndi við og bauðst til að fara sjálfur með fénu fram á dalinn enda óvenju góður af támeyru það sinnið.

Sem fyrr kom Geira þar að og krefst nú sætis á baki bónda. Hann skorti kjark til að neita og mátti rogast með hana á bakinu allan þann dag. Hugsaði hann Geiru þegjandi þörfina. Þegar mál var komið til að halda heim á leið greip bóndi fast um hné Geiru, hljóp að fossi sem þar var hjá og kastaði henni fram af sér niður í hann. Lét hún þar lífið.

Dapurleg urðu örlög Geiru en sagan átti líka önnur og betri lok. Bóndi sá að fleira getur þjakað mannfólkið en támeyran. Hinn ungi vinnumaður hafði þurft að dröslast með heila tröllskessu á bakinu við skyldustörf sín og borið þá byrði furðulengi án þess að mögla. Eitthvað hlyti að vera í þannig mann spunnið. Því gaf bóndi vinnumanni dóttur sína. Þau tóku við búinu og vegnaði vel í nábýli við fossinn þar sem Geira bar beinin.

 

_ _ _

Fossar Eyjafjarðar eru vikulegur viðburður á Akureyri.net. Á hverjum sunnudegi birtum við einn foss úr bók Svavars Alfreðs Jónssonar; Gljúfrabúar og Giljadísir, sem er myndabók með fimmtíu eyfirskum fossum. Tilvitnun í inngang bókarinnar: „Fossar Eyjafjarðar hafa ekki komist í hóp íslenskra elítufossa. Engu að síður eru þeir allir merkisfossar hver með sínu lagi; sumir háir og renglulegir og lufsast fram af hengifluginu með slitróttum ym en aðrir bosmamiklir og sperra fram bringuna um leið og þeir skutla sér niður þverhnípið með þungum og nötrandi dunum.“

Taka ber fram að Svavar er líka með fossa úr Fjallabyggð í bókinni, en hann bjó lengi í Ólafsfirði og telur svæðið vera part af sínum heimavelli í Eyjafirðinum.