Forréttindi að vinna með þessum krökkum
Egill Andrason er ungur sviðshöfundur, nýútskrifaður frá Listaháskóla Íslands. Hann er fæddur og uppalinn á Brekkunni, en ástin fyrir leikhúsinu virðist vera honum í blóð borin. Hann hefur ekki vikið af þeirri braut síðan hann var pínulítill, rétt eins og Dórótea fylgir gula múrsteinslagða veginum í OZ. Nú er hann kominn heim aftur eftir námsárin í Reykjavík og tekur þátt í tveimur stórum verkefnum í vor.
Þetta er annar hluti viðtalsins við Egil, í gær fjölluðum við um menntaveginn í sviðslistunum og FÚSA, sem er gestasýning frá Borgarleikhúsinu, sýnd í lok janúar í Hofi. Þar er Egill tónlistarstjóri.
Hitt verkefnið, sem Egill hefur tekið að sér, er að leikstýra LMA, Leikfélagi Menntaskólans á Akureyri, en þau ætla að setja upp Galdrakarlinn í OZ í Hofi. „Við erum í raun byrjuð að æfa,“ segir Egill, spenntur fyrir verkefninu. „Það er mikil tónlist, enda er þetta söngleikur, og það er búið að vinna heilmikið í því að útsetja lög. Það eru náttúrulega nemendur á öllum vígstöðvum, sem er gaman, að geta gefið þeim pláss til þess að stjórna.“ Egill segist hugsa þetta svolítið þannig, að líta kannski helst á sjálfan sig sem gæðastjóra, en leyfa sköpunarkrafti nemendanna að ríkja.
Dórótea er alltaf að leita heim, en svo sér hún að hún sjálf er heimilið
„Ég segi líka alltaf, í öllum verkefnum sem ég tek að mér í leikhúsinu, að ef þið hafið gaman, þá verður gaman,“ segir Egill. „Galdrakarlinn í OZ er líka þannig verk. Fólk er ekki að fara á það vegna þess að það er svo djúpt verk. Allir þekkja þetta og þetta á að vera gaman. Það er auðvitað boðskapur í verkinu, þetta með að við erum nóg. Sá sem er að leita að hjartanu, hann er mjög kærleiksríkur, sá sem er að leita að heilanum er alltaf sniðugur og Dórótea er alltaf að leita heim, en svo sér hún að hún sjálf er heimilið.“
Á síðasta ári sýndi LMA leikverkið um spýtustrákinn Gosa, sem fékk mjög góðar viðtökur. Hér má lesa pistil blaðamanns um þá sýningu. Mynd: Facebook síða LMA
Ástríða, metnaður og miklir hæfileikar
„Það sem mig langar að leggja upp með, er að þetta sé skemmtileg sýning,“ segir Egill. „Ég vil hafa hraða atburðarrás, hafa tónlistina frábæra, að fólk syngi vel, dansi vel og að leikgleðin skíni. Að krakkarnir skíni.“ Egill segir að það sem sé svo gaman við að fá að vinna með leikfélagi í framhaldsskóla, sé að þar sé ástríðan í toppi. „Hér er enginn að fá borgað eða neitt, öll eru hérna fyrir sig. Að geta nýtt þessa ástríðu, með tólum atvinnumanna,“ hér gerir Egill stutt hlé á máli sínu, og viðurkennir að hann sé að kalla sig atvinnumann í fyrsta skiptið. „Það er svo góð blanda,“ bætir hann við og brosir.
Ég bjóst kannski við að það yrði of erfitt, en það voru alveg átta manns eða fleiri sem bara negldu lög sem ég hélt að enginn myndi ná
Egill stjórnaði áheyrnarprufum í september síðastliðnum og segist hafa látið krakkana mæta gríðarlegum áskorunum til þess að sjá hvers þau væru megnug. „Fyrst vildi ég nú bara sjá hvort að þau gætu tjáð sig á sviði,“ segir Egill. „En undir lokin var ég farinn að biðja þau að syngja einhverjar aríur, mjög erfið lög, á sviðinu. Ég bjóst kannski við að það yrði of erfitt, en það voru alveg átta manns eða fleiri sem bara negldu lög sem ég hélt að enginn myndi ná.“
Sviðslistabrautin í MA var tilnefnd til Menntaverðlaunanna í fyrra. Hér má sjá fyrsta bekkinn sem útskrifaðist á kjörnámsbraut í sviðslistum að lokinni sýningu á lokaverkefni þeirra, ásamt Völu Fannell fyrsta verkefnisstjóra brautarinnar og Ingunni Elísabetu Hreinsdóttur núverandi verkefnastjóra. Egill segir að það hefði breytt miklu fyrir sig að hafa þessa braut þegar hann útskrifaðist úr grunnskóla. Mynd: Heimasíða Menntaskólans á Akureyri
Það er sviðslistabraut við Menntaskólann á Akureyri, sem var stofnuð árið 2020. Blaðamaður veltir því upp, hvort að það muni miklu um brautina, í samhengi við uppsetningar LMA, sem hefur verið til mun lengur. „Það hefði munað miklu fyrir mig persónulega, að hafa þessa braut,“ segir Egill, en hann er einn af þeim sem varð að flytja ungur suður til þess að komast í nám í sviðslistum á framhaldsskólastigi. „En varðandi krakkana, þá held ég að það hljóti að vera. Sviðslistir eru samt svo margskonar, þetta snýst ekki bara um að leika. Kannski er manneskja á náttúrufræðibraut betri í að koma fram heldur en einhver af sviðslistabraut sem hefur mestan áhuga á sviðsetningu eða búningum,“ segir Egill. Krakkarnir sem taka þátt í uppsetningu LMA í ár eru ekki öll af sviðslistabrautinni, þó að mörg séu það.
Við erum með ótrúlega flott tónlistarfólk, sem er að rúlla því upp að útsetja tónlistina fyrir litla sinfóníuhljómsveit
„Það er og hefur alltaf verið mikill metnaður hjá MA fyrir þessum sýningum,“ segir Egill. „Krakkarnir fá einingar fyrir þáttökuna og tímann til þess að sinna þessu, sem skiptir öllu máli. Svo erum við með ótrúlega flott tónlistarfólk, sem er að rúlla því upp að útsetja tónlistina fyrir litla sinfóníuhljómsveit. Hún er náttúrulega skipuð nemendum líka. Og þar kemur inn tónlistarbrautin í skólanum, þar sem krakkar sem ætla að leggja fyrir sig tónlist geta verið í því af fullum þunga samhliða bóknáminu.“
„Þetta er ótrúlega mikil vinna,“ segir Egill. „Þetta er í raun atvinnumennska, undir öðrum formerkjum. Stúlkurnar sem eru mest í því að útsetja lögin og þjálfa hljómsveitina eru báðar á tónlistarbraut, og tónlistin í verkinu er bara eitt af stóru verkefnunum þeirra í skólanum, að vinna þetta. Hæfileikarnir eru gríðarlegir. Það eru forréttindi að fá að vinna með þessum krökkum.“
„Leiklist er kölluð drama af ástæðu“
Æfingatímabilið er sirka tveir mánuðir, en verkið verður frumsýnt 14. mars. Egill sendi lögin á leikhópinn fyrir jól og óskaði eftir að því að krakkarnir myndu læra þau áður en æfingar hefjast. „Handritið er komið til allra, en ég vil eiginlega negla söng og dans fyrst. Leiknu atriðin og línurnar koma svo með. Markmiðið er í raun að þetta sé tilbúið um miðjan febrúar, svo það sé nægur tími til að snurfusa, en reynslan kennir að það kemur alltaf eitthvað uppá í lokin. Við tökumst á við það, svona krísur eru alltaf í lagi eftir á. Það þarf bara að gera ráð fyrir krísum í dagskránni.“
„Ég legg eiginlega mest upp úr því að það séu hrein og bein samskipti,“ segir Egill. „Leiklist er kölluð drama af ástæðu. Það eru miklar tilfinningar, svo ég tali ekki um á þessum aldri. Það eru skýrir verkferlar í kring um samskipti, það eru trúnaðarmenn og skjöl sem óskað er eftir að fyllt sé út ef eitthvað kemur upp á. Það er ekki gott ef einhver gremja fær að krauma, vegna þess að leikgleðin skiptir öllu máli. Ef fólk er eitthvað pirrað, þá finnst það á aftasta bekk.“
„Vitfús Blú„ er söngleikur sem Egill skrifaði, samdi tónlist fyrir og leikstýrði í Háskólabíó síðastliðið sumar. Myndir: aðsendar
Uppsetning LMA á Galdrakarlinum í OZ er byggð á þýðingu Bergs Þórs Ingólfssonar, sem er einmitt leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar um þessar mundir. „Samningurinn við Hof er þannig að við erum bara með ákveðið margar sýningar, og þær eru ekki margar,“ segir Egill. „Þannig að það þýðir ekkert að draga lappirnar við að næla sér í miða ef ætlunin er að sjá verkið.“
Að lokum er gaman að spyrja leikhúsfólk hvaða hjátrú það aðhyllist. „Ég held alveg tryggð við þessi klassísku atriði, eins og að það megi ekki hneigja sig fyrir frumsýningu og að það megi alls ekki segja orðið Macbeth í leikhúsinu,“ segir Egill. „Þegar ég vann í Þjóðleikhúsinu kynntist ég reynslumiklum leikurum á borð við Arnar Jónsson og Guðrúnu Gísladóttur og þau voru alveg með fleiri hluti sem varð að passa. Ég ákvað að reyna að halda þessu í lágmarki.“
„Það verður gaman að kynnast því, hvaða hjátrú fylgir LMA,“ segir Egill, en hann klæjar bersýnilega í puttana að byrja að skapa OZ í Hofi.
Frá Upptaktinum árið 2024. Þar fá tónskáld framtíðarinnar tækifæri til þess að sjá tónverkin sín flutt af atvinnufólki á stóra sviðinu í Hofi. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Egill fær svo að vinna með enn yngra listafólki en nemendum Menntaskólans. „Annað spennandi verkefni, sem byrjar í lok janúar, er Upptakturinn,“ segir Egill. „Ég og Greta Salome verðum leiðbeinendur, en þarna koma saman nemendur í 5.-10. bekk grunnskólanna á Norðurlandi eystra sem hafa áhuga á því að semja tónlist.“
Spennandi verkefni við sjóndeildarhringinn
Næst á dagskrá hjá Agli, eftir vorið, verður að vera aðstoðarleikstjóri í verkinu Skammarþríhyrningurinn eftir Bjarna Snæbjörnsson sem Gréta Kristín Ómarsdóttir ætlar að leikstýra hjá Borgarleikhúsinu. „Svo er ég að fara að halda áfram með verkefni sem heitir 'Teenage songbook',“ segir Egill. „Við erum lítill hópur sem hefur sýnt þetta síðastliðin fimm ár víðsvegar um Evrópu. Sýningin er á ensku og stundum á frönsku. Ásrún Magnúsdóttir og Alexander Roberts eru leikstjórar, en við sömdum þetta með þeim þegar við vorum táningar. Sýningin hefur svo vaxið með okkur og fjallar um ástir og tabú í lífi unglinga. Við förum til Þýskalands og Hollands í maí.“ Unglingar frá því landi sem þau eru í hverju sinni slást í för og bæta í sýninguna sögum og lögum frá sér, þannig að sýningin er mjög lifandi og breytileg.
Egill í sýningunni 'Teenage songbook' í Hamborg. Mynd úr einkasafni - Ljósmyndari: Ilan Rudisuhli
Lokaspurningin fyrir sviðslistamanninn, er hvort hann telji að hægt sé að vera búsettur á Akureyri og fá næga vinnu í þessum geira. „Nei, ekki alveg,“ segir hann strax. „Þú getur kannski ekki unnið bara sem sviðslistamaður. Starfsöryggið er náttúrlega ekki til staðar. Þetta er verkefnavinna. Ég þarf að fljúga einu sinni til tvisvar í mánuði suður til þess að taka að mér verkefni.“
„Maður kæmist kannski upp með það að vera hérna alltaf ef maður væri fjöllistamaður. Væri kannski af og til að spila á hljóðfæri á þessum tónleikum, kenna hér, veislustjóri þarna, leika annarsstaðar. En að vera sviðshöfundur, eins og ég, þá er líka hægt að vinna svolítið í fjarvinnu. Ég bý til dæmis bæði hérna í bænum og í Hrísey. Þar er mjög gott að sinna fjarvinnu.“
Egill var sumarlistamaður Akureyrarbæjar árið 2023. Þá litaði hann bæinn í öllum regnbogas litum og má búast við að hann haldi því áfram í krafti sköpunar. Ekki bara hér, heldur um allt land og víðar. Mynd: Facebook / ljósmyndari: Sindri Swan