Fornbókasalar í Fróða leita að húsnæði
„Það er búið að selja húsnæðið sem hýst hefur fornbókabúðina Fróða í nærri 40 ár svo nú leitum við að nýjum samastað,“ segir Ren Gates sem rekur verslunina ásamt maka sínum Stu Gates. „Við erum ekki hættir, það er alveg klárt mál. En við myndum þiggja aðstoð við að finna nýtt varanlegt húsnæði undir reksturinn því við finnum að fólki er ekki sama um verslunina og vill ekki missa hana úr miðbænum.“
Galdrabækur á ensku seljast vel í versluninni sem og íslenskar bækur um dulræn málefni. Þá eru matreiðslubækur alltaf vinsælar sem og gamlar barnabækur.
Vantar aðstoð við að finna húsnæði
Þeir félagar leita nú logandi ljósi eftir nýju húsnæði undir starfsemina en leitin hefur því miður ekki gengið vel fram til þessa. Ren segir að þeir vilji helst kaupa eigið húsnæði undir starfsemina en leiga kemur líka til greina. Helst vilja þeir að verslunin verði áfram í miðbænum, enda er góð bókabúð ómissandi hluti af hverjum alvöru bæ. „Ef við höfum ekki fundið nýtt verslunarrými í september þá pökkum við bókunum í geymslu og seljum þær í netverslun þar til við finnum húsnæði,“ segir Ren og bætir við að þeir félagar yrðu þakklátir fyrir allar ábendingar og aðstoð að hugsanlegri lausn á málinu. Hann segir að þeir vilji alls ekki gefa reksturinn upp á bátinn enda bækurnar þeirra ástríða.
Verslun með sál og sögu
Fornbókabúðin Fróði hefur verið hluti af miðbæ Akureyrar lengi en verslunin á 40 ára afmæli í núverandi mynd á næsta ári. Verslunin er ein sú elsta sem starfað hefur samfellt undir sama nafni í miðbæ Akureyrar og á sér fastan sess í hjörtum margra Akureyringa. Upphaflega var fornbókaverslunin stofnuð í heimahúsi í þorpinu og var þá rekin undir nafninu Fagrahlíð en fékk sitt núverandi nafn þegar Bárður Halldórsson, kennari, keypti verslunina og flutti hana í JMJ húsið.
Olga Ágústsdóttir keypti reksturinn af Bárði árið 1984. Fyrstu mánuðina eftir að Olga tók við rekstrinum var verslunin áfram til húsa austast í JMJ húsinu. Leigusamningurinn rann hins vegar fljótlega út og var ekki endurnýjaður þar sem JMJ þurfti stærra húsnæði. Þá fór Olga á stúfana og endaði á að kaupa húsnæðið í Kaupvangsstræti 19 þar sem verslunin hefur verið til húsa allar götur síðar. Olga rak verslunina þar til fyrir fimm árum síðan að Ren og Stu tóku við keflinu. Gaman er að segja frá því að áður en Fróði fornbókabúð opnaði í Kaupvangsstræti 19 hafði þar verið prentsmiðja. Áform höfðu verið uppi um að opna þar bjórlíkisstað, en þetta var áður en bjórinn var leyfður á Íslandi. Ekkert var úr þeim áformum þar sem húsnæðið var selt til Olgu sem kom fornbókabúðinni þar upp.
Fornbókabúðin Fróði á sér meira en 40 ára sögu á Akureyri og hefur verslunin mikla sérstöðu í verslunarflórunni í miðbæ Akureyrar.
Galdrabækur og matreiðslurit vinsæl
Sala á gömlum bókum hljómar kannski ekki sem gróðavænn bransi í eyrum einhverra en Ren segir verslunarreksturinn ganga vel. Bóksalan hefur aukist hjá þeim félögum jafnt og þétt þessi fimm ár sem þeir hafa verið með verslunina. Margir hafi sannarlega áhuga á gömlum bókum, bæði heimamenn og ferðafólk. Aðspurður að því að hvaða bækur seljist best í verslunini segir hann það vera matreiðslubækur, bækur um dulspeki, ljóð, galdrabækur og gamlar barnabækur. Þá hafa þeir félagar einnig staðið fyrir ýmsum uppákomum í versluninni eins og ljóðalestri, tónlistarflutningi og opnum míkrófóni. Þá geta viðskiptavinir pantað lestur í lófa, tarot eða rúnir hjá Stu. „Við viljum halda áfram að byggja á þeim sterka grunni sem við höfum nú þegar lagt. Við viljum halda fornbókaversluninni í bænum og standa fyrir fleiri menningarviðburðum í versluninni,“ segir Ren að lokum og bætir við að hann trúi ekki öðru en húsnæðismálin leysist enda geri verslunin miðbæjarlíf Akureyrar litríkara og verslunin á sér stóran kúnnahóp.
Fornbókabúðin Fróði er meira en bara verslun. Þar er hægt að láta lesa í lófa og verslunin hefur hýst ýmsa viðburði, eins og tónleika, upplestur og opinn míkrófón.