Fólk trúir ekki að svona garður sé til hér norður í hafi
„Plönturnar okkar eru margar hverjar búnar að aðlaga sig loftslaginu, en þær eru svolítið seinar í gang í ár vegna veðurs,“ segir Guðrún Kristín Björgvinsdóttir, umsjónarmaður Lystigarðsins á Akureyri. Núna eru plönturnar í garðinum að vakna hver á fætur annarri, en Guðrún segir að þar séu u.þ.b. 7.000 mismunandi tegundir, allsstaðar að úr heiminum. „Þessi garður er paradís. Hann er griðarstaður fyrir bæjarbúa og gesti okkar.“
Að koma hingað, njóta náttúrunnar og hlusta á vindinn og fuglana, finna lyktina, það er ekkert betra
„Lystigarðurinn okkar er mikilvægt plöntusafn, hingað getur þú komið til þess að skoða tegundir,“ segir Guðrún. „Það má líka spyrja okkur starfsfólkið og fá ráðleggingar um plöntur í garðinn þinn heima, við svörum með glöðu geði og aðstoðum. Að koma hingað, njóta náttúrunnar og hlusta á vindinn og fuglana, finna lyktina, það er ekkert betra. Einn dagur hérna, er ekki eins og sá næsti. Garðurinn er síbreytilegur. Hugsum vel um garðinn og göngum um hann af virðingu.“
Það eru helst túlípanarnir sem eru komnir á skrið, en þeir eru fljótir að taka við sér þegar hlýnar. Mynd RH
„Það er náttúrulega mikið skjól hérna og við reynum að velja bestu staðsetninguna fyrir hverja plöntu,“ segir Guðrún. „Við röðum þeim í garðinn eftir ættum. Svo kannski henta íslenskar aðstæður jafnvel betur fyrir sumar plöntur. Til dæmis, hef ég lent á tali við Breta sem eru steinhissa á því hvað Riddarasporinn okkar er miklu stærri og veglegri hérna en heima hjá þeim í Englandi. Fólk er oft orðlaust yfir plöntunum okkar.“
Garðar erlendis panta fræ frá okkur og við fáum frá þeim í staðinn. Garðar frá Bandaríkjunum, Japan, Suður Kóreu, Úkraínu, bara nefndu það
„Hver einasta planta er með númer og skráð vandlega hjá okkur,“ segir Guðrún. „Ef planta deyr, þá fer hún í skrána yfir dánar plöntur. Við skráum allt.“ Á hverju ári fer grasafræðingur Lystigarðsins, Travis Anthony, á stúfana á skiptimarkaði grasagarðanna í heiminum. „Garðar erlendis panta fræ frá okkur og við fáum frá þeim í staðinn. Garðar frá Bandaríkjunum, Japan, Suður Kóreu, Úkraínu, bara nefndu það, fá fræ sem við tínum og hreinsum á haustin af plöntunum okkar hérna.“
„Þegar við fáum fræ að utan, sem Travis hefur pantað, skoðum við hvort við eigum að sá fræinu að vori eða hausti,“ segir Guðrún. „Ef það er að hausti, þarf það vetrardvala og spírar svo næsta vor. Stundum þarf tvö ár í mold, en þetta er allt misjafnt eftir plöntum. Þegar plantan er farin að vaxa, fer Travis yfir það gaumgæfilega, hvort þetta sé ekki örugglega rétta plantan. Þegar hún er tilbúin, setjum við hana út, þar sem hentar henni best í garðinum.“
Allar plönturnar eru merktar og á skiltunum er hægt að sjá hvað plantan heitir á latínu, hverrar ættar hún er, hvaðan hún kemur og númer hennar og staðsetningu. Hjartalindin er lítið tré, bláu blómin sem sjást á myndinni eru nágrannar. Mynd RH
„Margar plöntur í dag eru þróaðar tegundir af mönnum,“ segir Guðrún. „Þetta er margra ára þróun, að skapa allar þessar tegundir. Plöntusafnið okkar í Lystigarðinum á Akureyri er með 7.000 tegundir, þar af u.þ.b. 450 íslenskar tegundir. Það er samt erfitt fyrir margar íslenskar plöntur að búa hér, vegna þess að þær þrífast við misjafnar aðstæður. Sumar vilja bara vera í möl, sumar vilja bara mýri.“ Guðrún segir að í Lystigarðinum sé reynt að skapa sem bestar aðstæður fyrir hverja plöntu, sumar hafa til dæmis stöðugt vatnsrennsli.
Síðan fer Blásólin að blómstra og þá er það svo stórkostlegt að hún er í uppáhaldi hjá mér á þeirri stundu
Sumar plöntur eiga erfitt uppdráttar í Lystigarðinum, þar sem aðstæður henta þeim ekki nógu vel. „Við erum til dæmis með eitt kirsuberjatré,“ segir Guðrún. „Það er alveg pínulítið og er eiginlega bara í gjörgæslu hjá okkur, það á svolítið erfitt. En það lifir.“
Blaðamaður spyr hvort að einhverjar plöntur sem geti alls ekki búið hlið við hlið. „Já, þá dettur mér til dæmis í hug Yllir,“ segir Guðrún. „Það er planta sem er eiginlega ómögulegt að drepa, og svo er hann með einhver eiturefni í rótinni og hann getur drepið plönturnar í kring um sig til þess að rýma fyrir sjálfum sér. Það eru helst tré sem þola að vera nálægt honum. Aspir til dæmis, þær þola næstum því allt.“
„Þegar ég horfi á stóru öspina hérna við húsið, þá hugsa ég stundum að þetta sé fallegasta tré í heiminum,“ segir Guðrún, aðspurð hvort hún eigi sér uppáhalds plöntu í garðinum. „En svo labba ég kannski út og sé annað tré, og þá finnst mér það fallegast. Þetta er svo breytilegt og eitt tré er ekki alltaf sama tréð. Síðan fer Blásólin að blómstra og þá er það svo stórkostlegt að hún er í uppáhaldi hjá mér á þeirri stundu.“ Guðrún segir að það sé svo alltaf dásamlegt að koma inn í gróðurhúsið, það sé hennar paradís á jörðu.
Heggurinn blómstrar ofboðslega fallegum blómum, segir Guðrún. Nú er hann í óða önn við að undirbúa þau. Mynd RH
„Elstu trén hérna eru 112 ára, jafngömul garðinum,“ segir Guðrún. „Þetta eru í raun ekkert voðalega gömul tré, víða í útlöndum eru mörg hundruð ára gömul tré.“ Elstu trén í garðinum eru samt mörg hver farin að láta á sjá, og Guðrún segir að það sé kannski ekki mjög langt í að þau elstu fái að fara. „Reyniviður lifir til dæmis í svona 140 ár, og það getur kannski tekið 30 ár fyrir þau að deyja. En, ef við tökum tré, þá getur annað eins vaxið upp af rótinni. Annars eigum við þá fræ af sama trénu og getum plantað því.“
Þessi litli garður, bara 3,6 hektarar, hérna norður í hafi, þau trúa því varla hvað garðurinn hefur að geyma
„Fólk trúir þessu ekki,“ segir Guðrún, um viðbrögð erlendra gesta við garðinum. „Þessi litli garður, bara 3,6 hektarar, hérna norður í hafi, þau trúa því varla hvað garðurinn hefur að geyma. Það er fullt af fólki, sem kemur til Akureyrar, bara til þess að skoða þennan garð. Ég veit um eina konu frá Englandi, sem kemur oft yfir hafið, bara til þess að heimsækja Lystigarðinn. Um daginn kom maður hingað sem hafði séð í plöntuskránni okkar, að við værum með bambus. Hann kom til þess að sjá hann.“
Í þykka trénu þarna fyrir miðri mynd, er skógarþröstur búinn að hreiðra um sig. Guðrún segir að samfélag fuglanna í garðinum sé ofboðslega líflegt og gott, en fuglarnir eru jafnvel farnir að vingast svolítið við starfsfólk garðsins. Mynd RH
Guðrún er frá Dalvík og fyrstu kynni hennar af garðrækt var þegar hún fór að vinna fyrir sveitarfélagið sem flokkstjóri. „Eftir það fékk ég áframhaldandi vinnu hjá Dalvíkurbyggð við að sjá um gróður og fékk að hlaða tjörnina sem er í láginni, sem mér fannst ótrúlega gaman.“ Eftir að finna sína hillu í plöntunum, moldinni og grjótinu, ákvað Guðrún að fara í Garðyrkjuskólann árið 2000. „Ég byrjaði að vinna 1998 hjá Akureyrarbæ í sumarblómunum. Í ár er semsagt 26. árið sem ég vinn fyrir bæinn, en ég byrjaði árið 2015 í Lystigarðinum.“
„Að vera úti, í gróðri, gefur miklu meira en mann nokkurn tímann getur grunað,“ segir Guðrún að lokum.
- Heimasíða Lystigarðsins er fróðlegur staður, hér er hægt að fletta upp ótal plöntum og fræðast um þær.