Fara í efni
Menning

FNV sýnir Rocky horror í Menningarhúsinu Hofi

Uppfærsla Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Rocky horror verður sett upp í Hofi, þann 9. og 10. maí. Í fréttatilkynningu segir að sýningin hafi nú þegar fengið frábærar viðtökur í Skagafirði, þar sem rúmlega 1000 áhorfendur hafa séð verkið, en leikfélag FNV hefur verið þekkt fyrir metnaðarfullar sýningar í gegnum árin. Þetta er þó í fyrsta skipti sem þau koma með sýninguna sína austur fyrir Tröllaskagann, og leyfa fleirum að njóta.

Rocky horror picture show er þekkt verk, en það var til dæmis fyrsta verkefni Leikfélags Akureyrar eftir að Menningarhúsið Hof var opnað með pompi og prakt. Söguþráðurinn er ævintýri líkastur, þar sem unga parið Brad og Janet flækjast inn í furðulegan heim vísindamannsins Dr. Frank-N-Furter – þar sem allt getur gerst. Richard O’Brien skrifaði The Rocky Horror Show árið 1973 og verkið var frumsýnt 19. júní sama ár í London. Sýningin gekk í langan tíma og hefur verið sett upp víða um heim allar götur síðan og alltaf notið mikillar hylli. Árið 1975 var svo gerð kvikmynd eftir söngleiknum; The Rocky Horror Picture Show.

 

Það eru óneitanlega litríkar persónur í verkinu sem eru ekki allar þar sem þær eru séðar. Myndir: NFNV

Mikið í lagt í tónlist og dansi

Leikhópurinn er samansettur af 15 leikurum, sem hafa lagt líf og sál í verkefnið, segir í fréttatilkynningunni. Tónlist er stór hluti verksins, en gaman er að segja frá því að sigurvegari Söngvakeppni framhaldsskólanna árið 2024, Emelíana Lillý Guðbrandsdóttir, leikur í verkinu.

Eydís Gauja Eiríksdóttir er danshöfundur uppfærslunnar, en hún er búsett á Akureyri. Tónlistarstjórar eru þeir Sigvaldi Helgi Gunnarsson og Snorri Örn Arnarson. Leikstjóri verksins er Eysteinn Ívar Guðbrandsson sem er 23 ára leikhúsunnandi en þrátt fyrir ungan aldur þá er hann að leikstýra sínu þriðja verki fyrir NFNV.

Það er metnaðarfullt hjá leikfélagi FNV að koma með sýninguna sína í Hof, og vonandi byrjun á einhverju skemmtilegu samstarfi þar sem metnaðarfull leikverk Skagfirðinga koma til Akureyrar í sýningu. Að lokum segir í fréttatilkynninguninni frá FNV að hér sé tækifæri sem enginn áhugamaður um leikhús, söngleikja- eða skemmtanamenningu megi láta framhjá sér fara.

Miðasala er hafin á mak.is og tix.is

 

Samsett mynd úr sýningu FNV á Rocky horror. Mynd: aðsend