Fara í efni
Menning

Fjölbreytileikinn í leikhúsinu heillar mig

Egill Andrason. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Egill Andrason byrjaði ungur að sviðsetja eigin leikrit og atriði á heimilinu, þar sem hann ólst upp á Brekkunni. Hann hefur aldrei efast um þá köllun sína, að helga sviðslistum lífið. Eftir útskrift síðasta vor frá Listaháskólanum, er hann kominn heim aftur og tekur þátt í tveimur stórum verkefnum á Akureyri í vor.

Ég hef aldrei þurft að spyrja sjálfan mig hvað mig langar að gera

„Þetta var svolítið klassískt, held ég,“ segir Egill, um leiklistarþörfina sem lét snemma á sér kræla. „Ég var alltaf að taka upp eitthvað, bjóða upp á atriði í fjölskylduboðum eða skrifa handrit. Pabbi átti svona litla upptökuvél og ég fékk hann til að taka upp fyrir mig þegar handritin lifnuðu við. Ég hef aldrei þurft að spyrja sjálfan mig hvað mig langar að gera, bara hvað ég þarf að gera til þess að láta drauminn rætast.“ 

Elti drauminn suður í borgina

„Ég bjó á Akureyri þangað til ég var fimmtán ára,“ segir Egill. „Þegar ég kláraði Brekkuskóla, varð ég að fara suður ef mig langaði að læra sviðslistir á framhaldsskólastigi. Þá var sviðslistabraut Menntaskólans á Akureyri ekki til.“ Egill tók því þá stóru ákvörðun að flytja suður og hefja nám við leiklistarbraut FG, Fjölbrautarskólans í Garðabæ.

 

Egill með samnemendum í leiklist í FG. Mynd úr einkasafni.

Foreldrar Egils eru Halla Jóhannesdóttir og Andri Lárusson, en þau studdu son sinn með virkum hætti þegar hann ákvað að flytja suður til þess að mennta sig. „Mamma fylgdi mér hálfvegis suður,“ segir Egill. „Pabbi var sjómaður á þeim tíma og hún sá tækifæri í því að vera hjá mér þegar hann var á sjónum, þannig að hún var þá hjá mér og heima á Akureyri svolítið til skiptis fyrsta árið mitt í skólanum. Bæði systkini mín voru flutt að heiman. Það eru mikil forréttindi að hafa getað gert þetta svona með þeim og hefði aldrei gengið upp annars.“

Fjölbreytt verkefni eftir útskrift, þrátt fyrir Covid-faraldur

„Ég kláraði svo FG sem dúx árið 2020, það góða ár,“ segir Egill kíminn, en það gefur auga leið að upphaf Covid-faraldursins sé tæplega besti tíminn til þess að útskrifast í sviðslistum. „Ég fékk samt mjög gott tækifæri strax eftir útskrift, og fékk að skrifa barnasöngleikinn Höfðingjabaráttan fyrir Þjóðleikhúsið. Það var fyrir Þjóðleik, sem er landsbyggðaverkefni.“ Vegna faraldursins fór verkið hans Egils ekki á fjalirnar eins og stóð til, en gaman að segja frá því að það varð svo sett upp árið 2021 hjá leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar. 

 

Fjölskylda Egils við útskrift úr FG. F.v. Halla Jóhannesdóttir, Bergrún Andra Hölludóttir, Egill, Andri Lárusson og Sölvi Andrason. Mynd úr einkasafni

Eftir útskrift flutti Egill aftur heim til Akureyrar og fékk m.a. að aðstoða við uppsetningu verksins Hjartagull hjá LMA, Leikfélagi Menntaskólans á Akureyri. „Þetta er söngleikur sem var skrifaður í kring um tónlist 200.000 naglbíta,“ rifjar Egill upp. „Ég aðstoðaði leikstjórann, Aron Martin, við skipulag og annað. Á sama tíma var ég að undirbúa mig fyrir inntökupróf í Listaháskólann.“

Spennandi starfsnám í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu

„Ég komst inn í LHÍ þarna um haustið, á sviðshöfundabraut,“ segir Egill. „Ég var blessunarlega í mjög góðum bekk og þetta var ofboðslega gaman. Ég fékk mikla félagslega útrás, en það kom mér reyndar á óvart hvað þetta var mikill háskóli líka. Mikill lestur og fræði. Á næstsíðustu önninni minni tók ég þátt í leikverkinu FÚSI í Borgarleikhúsinu sem starfsnemi, og skrifaði BA ritgerðina mína um það. Ég fékk líka að vinna við sýninguna Eddu í Þjóðleikhúsinu í starfsnámi.“

 

Egill er fjölhæfur listamaður sem kann vel við sig á sviði. Hér er hann kynnir í Skrekk árið 2023. Mynd: aðsend

Það vatt svo upp á sig að taka þátt í FÚSA, en sýningin sló í gegn og var sýnd margoft eftir áætlaðan sýningartíma. „Leikstjórinn, Agnar Jón Egilsson, kenndi mér í FG og óskaði eftir því að fá mig með,“ segir Egill. „Ég er tónlistarstjóri og er í raun að stjórna tónlistinni af sviðinu, þannig að ég er sýnilegur í verkinu og tek þátt, bæði í tali og tónum.“ Sýningin er heimildaleiksýning, þar sem Sigfús Sveinbjörn Svanbergsson segir sögu sína. Ásamt Fúsa og Agli eru leikstjórinn Agnar og leikararnir Bergur Þór Ingólfsson og Halldóra Geirharðsdóttir þáttakendur í sýningunni.

Fúsi stjórnar ferðinni og við erum að aðstoða hann við að segja sína sögu. Þetta er mjög flæðandi og skemmtilegt

„Tónlist er mjög stór hluti af lífi Fúsa, en við spilum mikið og syngjum,“ segir Egill. „Það er Villi Vill og allskonar, og stundum spinnum við líka eitthvað rugl. Sýningin er aldrei alveg eins, þetta er spuni líka. Það fer eiginlega eftir dagsformi okkar allra hvernig útkoman er. Fúsi stjórnar ferðinni og við erum að aðstoða hann við að segja sína sögu. Þetta er mjög flæðandi og skemmtilegt.“ Egill segir að sýningin sé að mörgu leyti mjög óvenjuleg, en nú kemur hópurinn með hana norður yfir heiðar í lok janúar og hann er spenntur að sjá hvernig viðtökurnar verða. Tvær sýningar eru í boði, 31. janúar og 1. febrúar í Hofi. 

 

Sýningin FÚSI hefur hlotið ýmsar viðurkenningar, meðal annars Hvatningarverðlaun ÖBÍ réttindasamtaka fyrir tímamótaverk í íslenskum leikhúsum. Mynd: Facebook

„Það er greinilega eitthvað sem fólk fílar við þessa sýningu,“ segir Egill. „Það er svo gaman að segja frá því, að árið 2023, þegar sýningin um Fúsa var frumsýnd, var ár þar sem metfjöldi sýninga eftir listamenn með einhverja fötlun voru sýndar. Þessi sýning var uppistaðan í BA verkefninu mínu, og ég kafaði ofan í ýmislegt þessu tengt.“

Egill vill ekki festa sig við eina fjöl, og hefur áhuga á flestu sem tilheyrir leikhúsinu. „Ég þrífst svolítið á fjölbreytileikanum, að vera í allskonar,“ segir Egill. „Ég er stundum tónlistarmaður, stundum leikari, stundum leikstjóri eða höfundur,“ segir Egill, en hitt stóra verkefnið sem hann tekur að sér á Akureyri, fyrir utan að setja FÚSA á svið, er einmitt að leikstýra. LMA, Leikfélag Menntaskólans á Akureyri ætlar að sýna Galdrakarlinn í OZ í vor, og Egill verður leikstjóri. 

Í öðrum hluta viðtalsins við Egil, sem við birtum á morgun, heyrum við allt um ferðalagið til OZ með LMA. 

Á MORGUNFORRÉTTINDI AÐ VINNA MEÐ ÞESSUM KRÖKKUM