Fara í efni
Menning

Fjölbreytilegt fjör á Einni með öllu

Flötin neðan við Samkomuhúsið er jafnan þétt setin á sunnudagskvöldi um versló. Mynd: einmedollu.is.

Fjölskylduhátíðin Ein með öllu verður haldin á Akureyri um verslunarmannahelgina, 4.-6. ágúst. Í boði verður fjölbreytileg skemmtun þar sem öll ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, með fjölskyldu-, barna- og kvöldskemmtunum um allan bæ, með landsþekktu listafólki, tveimur tívolíum, skógardegi í Kjarnaskógi, sparitónleikum og öðrum viðburðum, að því er fram kemur í tilkynningu frá skipuleggjendum hátíðarinnar. Hér er yfirlit um það helsta, en ítarlega dagskrá má finna á vef hátíðarinnar, einmedollu.is.

Tónlistin áberandi

Margir tónlistarviðburðir verða á dagskrá alla helgina.

  • Græni Hatturinn: Magni, Matti Papi og Jónas Sig og hljómsveit öll kvöldin
  • Akureyrarkirkja: Óskalagatónleikar með Óskari Péturssyni, Eyþóri Inga Jónssyni og Ívari Helgasyni.
  • Sjallinn: Dynheimaball á föstudagskvöld, Páll Óskar og Emmsjé Gauti á laugardagskvöld og Herra Hnetusmjör, Aron Can og Friðrik Dór á sunnudagskvöld. 
  • Akureyri er okkar: Viðburður þar sem veitingamenn bæjarins taka sig saman og bjóða upp á óvænta tónleika á hverju veitingahúsi fyrir sig þannig að fólk getur rölt á milli og hlýtt á tónlist listafólksins. 
  • Flötin neðan við Samkomuhúsið: Sparitónleikar á sunnudagskvöld, Herra Hnetusmjör, Diljá, Friðrik Dór, Aron Can, Birkir Blær, Ragga Rix, Jónas Sig og hljómsveit og Rúnar Eff skemmta fram að miðnætti. Endað með flugeldasýningu.

Hreyfing og fjör

  • Akureyri.bike verður með hjólaáskorun á laugardeginum þar sem miðað er við samanlagðan tíma upp fimm brekkur í Eyjafirði.
  • Rafhjólaleikar þar sem tekist er á við fjórar af skemmtilegustu brekkum bæjarins á sunnudeginum.
  • Hlaupakeppnin Súlur Vertical fer fram á laugardag, þar sem hlaupið er upp á Súlur og víðar og endað í miðbænum, fjórar vegalengdir í boði, 18, 28, 55 og 100 kílómetra utanvegahlaup.
  • Krakkahlaupið Súlur Vertical verður á föstudeginum.
  • Húlludúlan verður á tveimur stöðum um helgina, á útisvæði Sykurverks í miðbænum á laugardag og í Kjarnaskógi á skógardeginum á sunnudag. Allir krakkar velkomnir að húlla saman.

List, menning, fjör og afþreying

Listunnendur og annað áhugafólk um hönnun fær sinn skammt.

  • Markaðsstemning alla þrjá dagana þar sem handverk, listmunir, nýjar og gamlar vörur, skór, fatnaður og margt annað verður til sölu. 
  • Götubitar verða á svæðinu.
  • Mömmur og möffins í Lystigarðinum þar sem öll innkoma rennur til fæðingardeildar Sjúkrahússins á Akureyri. 
  • Söfnin í bænum verða opin um helgina og nóg í boði af menningu og list.
  • Mótorhjólasafnið, Listasafnið á Akureyri, Flugsafnið, Leikfangasýning í Friðbjarnarhúsi, Safnasafnið og Iðnaðarsafnið taka vel á móti gestum og gangandi

Fjölbreytileg önnur dægradvöl og afþreying verður í boði víða um bæinn alla helgina.

  • Sprell Tívolí og Taylor's Tivoli hafa boðað komu sína til bæjarins og verða á flötinni neðan við Samkomuhúsið yfir helgina þar sem meðal annars verða í boði fallturn, hringekja, hoppkastalaland og margt fleira.
  • Glerártorg: Leikhópurinn Lotta kemur fram og sýnir brot af því besta, gefins Candyfloss og hæfileikakeppni unga fólksins á sínum stað á laugardeginum kl. 15, opin öllum krökkum á aldrinum 8-16 ára.

Dagskrá helgarinnar í mótun og hægt að finna allar upplýsingar á vef mótsins - einmedollu.is