Ferðalag um sólkerfið fyrir augu og eyru
Einstakur viðburður er á dagskrá hjá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands þann 18. febrúar, næstkomandi sunnudag. Stórbrotið tónverk Gustav Holst, Pláneturnar, verður þá flutt í Hofi. En hljómsveitin verður ekki ein á sviðinu. Stjörnu-Sævar mun kynna tónleikana og fræða gesti um reikistjörnurnar sjö sem urðu Holst innblástur við tónsmíðarnar.
„Pláneturnar eftir Gustav Holst er alveg gullfallegt tónverk,“ segir Sævar Helgi Bragason, betur þekktur sem Stjörnu-Sævar. „Tónlistin er innblásin fyrst og fremst af stjörnuspekinni sem tengist reikistjörnunum í sólkerfinu okkar. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands ætlar að flytja alla sjö þættina. Þegar Holst samdi verkið var bara vitað um sjö stjörnur fyrir utan jörðina.“ Sævar segist aldrei hafa unnið með SinfóNord áður og hlakkar mikið til. Einu sinni áður hefur hann flutt þrjá þætti úr verkinu með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Kannski er hægt að kalla þetta bara ímyndaða geimferð sem við förum saman í!
„Á milli tónverkana ætla ég að segja frá því hversu töfrandi staðir þetta eru, sýna flottar myndir og velta því upp, hvernig væri að fara í heimsókn á þessar stjörnur,“ segir Sævar. „Þó að tónlistin sé kannski ekki beint hefðbundin krakkatónlist, þá held ég að þetta sé einmitt mjög skemmtilegt og áhugavert fyrir krakka. Ég hvet krakkana til þess að vera líka opin fyrir tónlistinni. Sem dæmi, þá er líklegt að aðdáendur StarWars eða Stjörnustríðs muni kannast við sig, en John Williams, tónskáld þríleiksins, sótti mikinn innblástur í tónverk Holst. Dramatíski marsinn sem drynur undir innkomu Svarthöfða er undir miklum áhrifum frá þætti Holst um rauðu plánetuna Mars.“
„Kannski er hægt að kalla þetta bara ímyndaða geimferð sem við förum saman í!“ segir Sævar að lokum.
Tónleikarnir hefjast klukkan 16, en klukkan 15 verður Sævar einnig með kynningu, þar sem hann mun fræða gesti um tónskáldið, verkið og pláneturnar sjálfar. Öll eru velkomin á kynninguna og enn er hægt að fá miða á tónleikana á mak.is .