Fara í efni
Menning

Ferðagarpurinn Erró kemur til Akureyrar

Tvö verka Errós sem verða til sýnis í Listasafninu á Akureyri næsta sumar.

Stór sýning á málverkum Errós verður í Listasafninu á Akureyri næsta sumar. Sýningin ber nafnið Ferðagarpurinn Erró og þar verða myndir úr þekktum seríum listamannsins, til dæmis Heimsferð Maós, Konur frá Norður-Afríku og geimferðaseríunni. Erró sýndi síðast í Listasafninu á Akureyri árið 2005.

Guðmundur Guðmundsson, sem tók upp listamannsafnið Erró, er fæddur 1932 og er því orðinn 88 ára. Hann hefur í áratugi verið þekktasti samtímalistamaður Íslendinga og ferðalög hafa verið einkennandi fyrir líf hans og list. Erró stundaði listnám í Reykjavík, Ósló í Noregi og Ravenna og Flórens á Ítalíu en settist að í París 1958. Mörg ferðalög fylgdu þar á eftir og má nefna sögulegar ferðir til New York í Bandaríkjunum, Moskvu í þáverandi Sovétríkjum og Havana á Kúbu.

Hvert sem hann fer sankar Erró að sér hundruðum mynda. Hann nýtir þær í samklippuverk sem smám saman verða að málverki. Hugmyndin um ferðalög og tilfærslur birtist í mörgum verkum, þar sem hann notar mótíf eins og flugvélar, lestir, eldflaugar, fugla, hesta eða jafnvel ofurhetjur, á sértækan hátt.

Sýningin á verkum Errós, sem hefst 1. maí, verður í öllum sölum á efstu hæð Listasafnsins. Verkin á sýningunni eru öll í eigu Listasafns Reykjavíkur.