Fara í efni
Menning

Meistarar strengjanna: Fegurð og tilfinningaflóð

Plakat fyrir tónleikana 'Meistarar strengjanna'. Mynd: mak.is

Fyrstu tónleikar ársins 2025 hjá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands bera heitið Meistarar strengjanna. Tónleikarnir eru á dagskrá sunnudaginn 26. janúar kl 16 í Hamraborg, Menningarhúsinu Hofi. „Þetta verða heilandi strengjatónleikar,“ segir Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri MAk, í samtali við Akureyri.net.

Hugleiðslustund í strengjadýpi Ólafs Arnalds

„Þetta verður nærandi og græðandi. Það er ró, fegurð og hugleiðslutónlist á dagskrá, verk sem hreyfa við þér. Við ætlum að flytja verkin Öldurót og Spiral eftir Ólaf Arnalds, en hann hefur haft gríðarleg áhrif á það, hvernig er skrifað fyrir strengi í dag. Hans Zimmer, kvikmyndatónskáldið fræga, sagði að það væri alveg einstakur hljómur í íslenskri tónlist. Dularfullur og myrkur, en um leið töfrandi. Þar var hann að vísa í tónlist Ólafs meðal annars.“

„Ólafur er eiginlega orðinn gúrú í tónlistarheiminum, einskonar vin í skarkala og stressi heimsins,“ segir Þorvaldur. „Fólk sækir í kyrrð ró og hugleiðsluástand í tónlistinni hans. Þessi verk sem við flytjum eru einmitt þannig. Þau eru viðkvæm og falleg.“ Þorvaldur bendir á að það sé til góð upptaka af verkinu Öldurót á YouTube, þar sem Ólafur flytur verkið með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, undir stjórn Atla Örvarssonar. „Þessi upptaka var frumflutt á BBC,“ segir Þorvaldur, en Ólafur Arnalds mun ekki spila sjálfur í Hofi á tónleikunum, en verkið verður flutt fyrir strengi og hörpu. Nýjasta gersemin í hljóðfæraeign Menningarfélagsins, er glæsileg harpa, og hún fær að óma í þessu verki.

Hljómsveitarstjóri verður hinn hæfilegaríki enski hljómsveitarstjóri Ross Jamie Collins. Hann var staðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands starfsárið 2023-24 og á sér glæsilegan feril þó hann sé ungur að árum.

 

Synfóníuhljómsveit Norðurlands spilar fyrir fullu húsi í Hamraborg. Mynd: MAk

Klassísk og falleg strengjaverk eftir Barber og Tchaikovsky

„Við ætlum líka að flytja eitt áhrifamesta verk 20. aldarinnar, Adagio fyrir strengi eftir Samuel Barber,“ segir Þorvaldur Bjarni. „Það er ofboðselga fallegt og virðulegt, en það er líka tregi í því. Það er svo skrítið, en ég get ekki hlustað á þetta verk án þess að fá kökk í hálsinn. Ég hef reynt! Skellt því á og ætlað mér að halda sönsum. Það er ekki hægt, en ég skora á lesendur að prófa! Finnið þetta verk og reynið að komast í gegnum það ógrátandi.“ Hér er linkur á verkið. Þorvaldur hlær að þessari áskorun og ítrekar að þetta sé góður grátur.

Einnig verður flutt eitt mest spilaða strengjaverk heims, Serenade for strings í C-dúr eftir Tchaikovsky. „Ég get lofað því að gestir tónleikanna upplifa fegurð, stresslosun, fá kökk í hálsinn og hreinsun tárakirtlanna. Vasaklútur er staðalbúnaður,“ segir Þorvaldur Bjarni að lokum.

HÉR má sjá meira um tónleikana og finna miða.

  • Í næstu viku birtir Akureyri.net lengra viðtal við Þorvald Bjarna um starf og framtíðarsýn hans með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Ekki missa af því!