FAR-FÜGL Ivans Mendez er lentur
Ivan Mendez, sá magnaði tónlistarmaður, gaf á dögunum út fyrstu breiðskífuna í eigin nafni. Plötuna kallar hann FAR-FÜGL.
„Platan inniheldur 10 lög, átta þeirra eru frumsamin en tvö eru tökulög sem ég held mikið uppá og hef fært í nýjan búning. Elsta lag plötunnar er frá 2017 en það nýjasta var samið í sóttkví í maí á þessu ári,“ skrifaði Ivan á Facebook á dögunum, þegar hann tilkynnti að farfuglinn hefði lent þann daginn.
„Framleiðsluferlið hefur verið langt, u.þ.b heilt ár af mikilli vinnu, en afskaplega lærdómsríkt og gefandi,“ sagði Ivan, því þetta væri jafnframt fyrsta plata sem hann hljóðritaði og hljóðblandaði upp á eigin spýtur. „Lokavinnslu (masteringu) sá þó kæri vinur minn Sigfús Jónsson um.“
„Lífræn framleiðsla!“
Ivan segir jafnframt á Facebook: „Við sköpun hljóðheims plötunnar ákvað ég að notast einungis við hljóðfæri úr við, skinni og skeljum, þau hljóð sem ég get framkallað með röddinni og búkslætti, og síðast en ekki síst greinum, fjöðrum og öðrum hlutum sem urðu á vegi mínum og náttúrulegir geta talist. Það má því segja að um lífræna framleiðslu sé að ræða!“
Á nýju plötunni gætir sums staðar suður-amerískra áhrifa, en sjálfur á Ivan rætur í Kólumbíu. Líklega má segja að hann sé farfugl ellegar FAR-FÜGL. Ivan hefur síðastliðin tvö ár verið við nám í Berlín, var á Íslandi í sumar en er á leið utan á ný til að ljúka því námi og vinna að frekari tónlist.
„Þar sem þetta er sjálfsútgáfa reiði ég mig alfarið á krafta samfélagsmiðla til að breiða plötunni og því þætti mér verulega vænt um að þú gætir hjálpað mér með því að deila henni áfram með þínum vinum, svo að hún komist í eyru sem flestra.“
Smellið hér til að hlusta á plötuna á Spotify.