Fantatök Ragnars Hólm í Gallerí Gróttu
Ragnar Hólm Ragnarsson opnar málverkasýninguna Fantatök í Gallerí Gróttu á Seltjarnarnesi í dag, fimmtudaginn 2. maí kl. 17.00.
„Í rúman áratug hefur Ragnar Hólm (f. 1962) sinnt myndlist af mikilli ástríðu og sótt námskeið hjá þekktu myndlistarfólki hér heima og erlendis. Hann hefur haldið yfir 20 einkasýningar, þá fyrstu árið 2010,“ segir í tilkynninu.
„Vatnslitamyndir Ragnars hafa verið valdar á fjölda samsýninga evrópskra vatnslitamálara. Síðustu árin hafa kraftmikil og litrík olíumálverk orðið æ fyrirferðameiri í listsköpun hans.
Við fyrstu sýn virðast málverkin koma úr ýmsum áttum. Í gegnum sýninguna liggur þó rauður þráður ólíkra táknmynda sem birtast og hverfa á víxl. Augun hvarfla frá því sem er til þess sem virðist vera þegar abstrakt málverk taka á sig mynd hlutbundins veruleika. Með djörfum pensilstrokum miðlar málarinn sterkum tilfinningum sem tengjast gjarnan gleði og ótta, frelsi og kvíða, friði og stríði,“ segir ennfremur.
„Abstrakt málverk mín hafa löngum verið öðrum þræði fígúratív en á síðustu árum hef ég meðvitað reynt að afmá andlit og ýmsar kynjaverur úr þeim þannig að hið óhlutbundna ráði fyrst og fremst för. Það ætlar hins vegar að reynast æði snúið verkefni því fólkið og táknin skjóta alltaf aftur upp kollinum,“ segir Ragnar um málverkin á sýningunni.
Sýningin er opin á afgreiðslutíma Bókasafns Seltjarnarness, Eiðistorgi 11.Síðasti sýningardagur er laugardagurinn 25. maí nk.
Tvö verka Ragnars á sýningunni, TILRAUN UM BLÁTT og Í TÚNINU HEIMA.