Eyþór Ingi: „Eitt það fallegasta sem til er“
Á efnisskrá tónleika í Akureyrarkirkju á sunnudaginn er m.a. sálumessa, Requiem, eftir franska tónskáldið Maurice Duruflé. Fram koma Kammerkór Norðurlands og Hymnodia, undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar, sem alla jafna stjórnar fyrrnefnda kórnum, en Eyþór Ingi Jónsson, kórstjóri Hymnodiu, leikur á orgel, Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir leikur á selló og Hildigunnur Einarsdóttir messósópran er einsöngvari.
Eyþór Ingi sagði í samtali við Sverri Pál á Akureyri.net fyrr í vikunni að orgelhlutinn væri gríðarlega erfiður og hann hefði um hríð fátt gert annað en að æfa sig frá því snemma morguns fram á rauða nótt! Hér er sú grein.
„Tæknilega er þetta mjög erfitt verk; tónskáldið skrifar það öðruvísi en vanalega er skrifað fyrir orgel. Svo var hann með rosalega stórar hendur þannig að það reynir mikið á að spila verkið; maður þreytist mjög,“ sagði Eyþór Ingi í samtali við blaðamann í gær, en Duruflé var orgelleikari og skrifaði verkið sem sagt fyrir sjálfan sig.
Eyþór Ingi leikur á pípuorgelið á svölum kirkjunnar en kórarnir, einsöngvari og sellóleikari eru niðri, auk stjórnandans. „Ég þarf því að kunna verkið sérstaklega vel vegna þess að stjórnandinn verður ekki við hliðina á mér.“
Verkefnið er krefjandi en mjög spennandi og skemmtilegt, segir Eyþór. „Requiem Duruflé er þekkt á meðal kóra,“ segir hann. „Þetta er stórkostlegt verk, eitt það fallegasta sem til er.“