„Er eitthvað á bak við það sem ég sé?“
Það að tilheyra, er fljótandi hugtak. Við ímyndum okkur kannski, að við hljótum að tilheyra þeim stað sem við fæðumst á og vöxum úr grasi. En það er ekki endilega alltaf þannig. Listakonan Rebekka Kühnis er gott dæmi um slíkt, en hún er svissnesk í húð og hár. Þegar hún hins vegar kom tvítug að aldri til Íslands, til þess að vinna í eitt sumar, fékk hún strax sterka tilfinningu fyrir því að vera komin heim. Þessi tilfinning lét hana ekki í friði fyrr en hún var flutt alfarið norður á bóginn og farin að mála íslenska náttúru fyrir okkur hin að njóta.
Í dag birtist síðari hluti viðtalsins við Rebekku Kühnis.
Rebekka er ekki bara myndlistarkona, heldur líka kennari í smíðum og hönnun við Hrafnagilsskóla. Nýverið setti hún upp sýningu verka sinna í menningarhúsinu Hofi, undir heitinu 'Hverfult', en þar kemur andleg tenging listakonunnar við íslenska náttúru bersýnilega í ljós.
Rebekka með hundinum sínum, Drífu, á göngu um hálendið. Það var í fyrstu gönguferðum hennar um hálendið sem hún fann viðfangsefni listsköpunar sinnar. Hún tók ótal ljósmyndir sem svo urðu grunnurinn að fyrstu landslagsverkunum. Mynd úr einkasafni Rebekku.
Í myndum Rebekku er ákveðinn ævintýrablær, en hrátt landslagið lifnar við á ýmsan hátt. Kannski með línum, lífrænu munstri eða þokukenndum lögum. Hér og þar svífa litlir jöklar í loftinu eða stuðlaberg brotnar niður í einingar sem svífa burt. Allt í mikilli hógværð og mýkt. „Tilfinningin er, að hlutirnir eru ekki svo fastir,“ segir Rebekka. „Allt er orka og gengur í bylgjum. Landslagið er síbreytilegt og ljós og tími hefur áhrif hverju sinni. Allt breytist. Ég finn þessa orku miklu betur í íslenskri náttúru heldur en í Sviss. Þar er allt fast.“ Myndirnar endurspegla það, hvernig Rebekka sér náttúru landsins okkar. „Þessir svífandi jöklar,“ bætir hún við, „ég bara sé þetta svona. Stundum. Ég hugsa líka gjarnan í lögum. Er eitthvað á bak við það sem ég sé? Þaðan held ég að línurnar komi svona mikið við sögu hjá mér.“
Mynd eftir Rebekku. Fengin af Facebook síðu listakonunnar.
Rennandi vatn frá æskustöðvunum fylgir inn í listina
Þó að Rebekka lýsi náttúrunni í Sviss sem fastri, er það þó ekki þannig að hún hafi ekki orðið fyrir neinum áhrifum frá svissnenskri náttúru. „Húsið sem ég ólst upp í stóð við á,“ segir hún. „Þetta var breið á og ég ólst upp við stöðugt rennandi vatn. Línurnar eru kannski vatn, sem er líka einmitt gegnsætt. Vatnið kemur oft við á myndunum mínum. Þar kem ég líka aðeins við í mynstri. Mynstri sem endurtekur sig í náttúrunni. Til dæmis í línunum sem vindurinn býr til í snjóinn. Þær geta myndað samhljóm með árfarvegum eða æðum trjánna. Þetta endurtekur sig í sífellu.“
Af hverju fann ég ekki einhverja leið í myndlist sem er auðveldari?
Þó að það sé ævintýralegur blær yfir verkum Rebekku, eru þetta allt raunverulegir staðir. „Ég hef alltaf útgangspunkt í ljósmynd sem ég hef tekið. Ég mála svo upplifun mína af staðnum. Stundum tek ég myndina inn í tölvu og fikta eitthvað í henni og prenta hana út, mála yfir útprentunina og finn eitthvað í henni,“ segir hún. „Oft eru myndirnar mjög lengi í vinnslu og ég kem til þeirra aftur og aftur. Stundum næ ég ekki að mála það sem ég sá fyrir mér. Myndirnar eru mjög tímafrekar og ég þarf að hafa gott plan. Það er ekki auðvelt að lagfæra það sem er á bak við allar þessar línur til dæmis! Þetta er í raun galið,“ segir listakonan og hlær að sjálfri sér. „Af hverju fann ég ekki einhverja leið í myndlist sem er auðveldari?“
Fjallabak er uppáhaldsstaður Rebekku. Hér eru þær stöllur, hún og Drífa, að hvíla sig eftir göngudag á fjöllum. Mynd úr einkasafni
Akureyri besti staðurinn til þess að vera árið um kring á Íslandi
„Þegar ég ákvað að flytja endanlega til Íslands, endaði ég á Akureyri. Mér fannst það besti staðurinn fyrir allar íslenskar árstíðir,“ segir Rebekka. Hún segir að það hafi ekki bara verið náttúran sjálf sem gerði útslagið, þegar hún ákvað að setjast að á landinu kalda. „Það var líka líkamlegt. Þessi sterka tilfinning um að vera heima. Þegar maður er svona manneskja sem hefur eiginlega aldrei upplifað það að tilheyra, án þess að vera eitthvað dramatísk, þá er svo gott að finna þessa tilfinningu.“
„Þó að ég tali kannski mest um náttúruna,“ segir Rebekka, „þá er fólkið hérna líka yndislegt. Ég hef mjög góða reynslu af því að kynnast Íslendingum. Ég hef heyrt það frá sumum útlendingum, að það sé erfitt að komast inn í samfélagið hérna, en ég upplifði það ekki sjálf. Ég kem reyndar frá Zürich, þar sem fólkið er kannski svipað að mörgu leyti.“
Tjald Rebekku týnist í víðáttunni. Mynd úr einkasafni.
Sýn Rebekku á íslenska náttúru og hálendið kemur á hárréttum tíma. Víðerni Íslands eru eign okkar allra og Íslendingar eru frumbyggjar á þessari köldu og misvinveittu eyju. Tengsl okkar við náttúruna hafa verið órjúfanleg í gegnum aldirnar, en samfélag mannanna á Íslandi hefur breyst. Við erum sífellt að fjarlægjast ræturnar, með tilkomu borgarvæðingar, símtækja, internets og truflana af ýmsu tagi. Ef til vill getur listafólk eins og Rebekka kveikt áhuga aftur, með sinni einstöku sýn á landið okkar.