En stor overralskelse – Óvæntar fréttir
Sjón er sögu ríkari! Handrit að fyrstu bók Jóns Sveinssonar, Nonna, sem hann skrifaði á dönsku, er til sýnis á Nonnahátíð sem stendur til sunnudags. Akureyri.net greindi frá því í gær og ástæða er til að hvetja fólk til þess að líta við í Nonnahúsi og skoða handritin. Á þessu ári er öld síðan fyrsta Nonnabókin kom út á íslensku.
Auk handskrifaðs handrits Nonna má sjá handrit Freysteins Gunnarssonar, þýðanda verksins, einnig handskrifað. Landsbókasafn-Háskólabókasafn varðveitir skjalasafn Jóns Sveinssonar og lánar handritin tímabundið til Minjasafnsins á Akureyri.
„Nonni fór út í hinn stóra heim 1870, 12 ára gamall, og varð kaþólskur prestur í reglu jesúíta. Hann gerðist menntaskólakennari 25 ára við jesúítaskóla í Danmörku en á fertugsaldri fór hann að skrifa sögur um ævintýri sín á æskuárunum,“ segir í Nonnahúsi.
„Fyrstu bækurnar skrifaði Nonni á dönsku en fékk ekki útgefanda svo hann skrifaði þær á þýsku. Herder verlag í Þýskalandi tók þeim fegins hendi og gaf út allar bækurnar 12, þá fyrstu 1913. Bækurnar komu ekki út á íslensku fyrr en 1922. Þær hafa komið út í á fjórða tug landa á ótrúlegustu tungumálum.“
Fréttin frá því í gær: Handritin heim – til sýnis í Nonnahúsi
Handrit Nonna og Freysteins Gunnarssonar vöktu athygli fólks í Nonnahúsi í gær. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson
Fyrsta síða handrits bókarinnar, handskrifuð af Nonna.
Fyrsta síða þýðingar Freysteins Gunnarssonar í handriti.
Nonnabækur á pólsku til sýnis í Nonnahúsi.
Nonnabækur á máli baska til sýnis í Nonnahúsi.