Fara í efni
Menning

Elfa sýnir akrýlverk á Centrum í miðbænum

Elfa Björk við verk á veitingastaðnum Centrum í göngugötunni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Myndlistarsýningin Óður til móður stendur yfir á veitingastaðnum Centrum Kitchen & bar í göngugötunni. Elfa Björk Ragnarsdóttir sýnir þar abstrakt verk.

„Flestar myndirnar eru akrýlverk á striga en þrjár akrýl á vatnslitapappír,“ segir Elfa við Akureyri.net. Hún hefur lengi fengist við myndlist en aldrei haft hana sem aðalstarf. Elfa nam við Myndlistarskólann á Akureyri, sótti m.a. námskeið hjá Guðmundi Ármanni og Kristjáni Jóhannssyni 1997 og 1998, hjá Aaron L. Mitchell 2001 og listfræðslunámskeið Bryndísar Arnarsdóttur og Guðmundar Ármanns 2013 til 2015.

„Ég hef lengi málað og fór af fullum krafti í það þegar minna var að gera í vinnunni en áður vegna Covid,“ segir hún. „Allar myndirnar á sýningunni eru málaðar á þessu ári.“