„Ekki nóg að vera fallegur og hlaupa hæð sína í öllum herklæðum“
Hjörleifur Hjartarson tekur vel á móti blaðamanni á björtum laugardagseftirmiðdegi. Hann er berjablár á höndunum og segist vera nýkominn úr tínslu, enda haustið að ganga í garð. Við göngum inn í húsið að Laugasteini í Svarfaðardal þar sem Hjörleifur býr ásamt konu sinni, Írisi Ólöfu Sigurjónsdóttur.
Hjörleifur er höfundur leikverksins Njála á hundavaði sem dúóið Hundur í óskilum – Hjörleifur og Eiríkur Stephensen – sýnir í Samkomuhúsinu á Akureyri í september og október. Fyrsta sýning verður 22. þessa mánaðar.
Það fer ekki á milli mála að á heimilinu býr listafólk. Við komum okkur þægilega fyrir í bjartri stofu með dásamlegu útsýni inn dalinn og Hjörleifur býður upp á kaffi. Það kemur upp úr krafsinu strax í byrjun að það er ákveðinn vandi að titla viðmælanda dagsins, vegna þess að hann gerir ansi margt. Rithöfundur, sviðslistamaður, listamaður, landvörður, sauðfjárbóndi, leiðsögumaður svo eitthvað sé nefnt. Í grunninn segist Hjörleifur þó vera kennari. Hann starfaði sem grunnskólakennari allt til ársins 2007 en þrátt fyrir að leggja frá sér kennarastarfið í bókstaflegri mynd, segist hann þó kannski alltaf vera að kenna með einhverjum hætti. „Ég áttaði mig á því að ég hætti í raun aldrei að kenna. Ég er alltaf að skrifa eitthvað á mörkum fræðslu og skemmtunar. Bækur eða leikrit. Mig langar að vekja áhuga en ekki síður gleði. Gleðin er svolítið vanmetið fyrirbæri. Og fyndni! Mér finnst skrítið að gaman og alvara skuli vera yfirlýstar andstæður - eins og gaman sé ekki alvara heldur einhvers konar plat-ástand“ Hjörleifur segist vísast alltaf hafa notað húmor í kennslu. „Kennsla er í rauninni bara performans. Koma efninu til skila á þannig hátt að það veki áhuga. Þetta þekkja allir kennarar“
Vel nýtt kaffikanna, er óhætt að segja.
„Ég leitast við að eyða út þessum hefðbundnu mörkum á milli barna og fullorðinna. Gamans og alvöru, fræðslu og skemmtunar. Á milli þess sem eru vísindi og þjóðsögur. Þetta eru í rauninni tilbúin mörk. Ætli það sé ekki rauði þráðurinn í þessu öllu saman.“
„Þessa dagana er ég að klára bók.“ segir Hjörleifur og sækir bækurnar ‘Fuglar’ og ‘Hestar’, sem hann gerði með myndlistakonunni Rán Flygenring. „Ég er að klára enn eina bók með Rán, sem heitir ‘Álfar’ og er í sömu seríu. Þar endursegjum við álfasögur og skoðum íslenskt huldufólk í krók og kring. Hún kemur vonandi út í haust, við erum á lokasprettinum.“ Bækurnar um fugla og hesta eru skemmtilega myndskreyttar af Rán við texta Hjörleifs. „Við erum að fjalla um ýmis fyrirbæri í íslenskri náttúru og menningu. Þetta eru ekki hefðbundnar fræðibækur. Hugmyndin er að taka þessar tegundir bóka sem kannski eru stílaðar fyrir ákveðinn hóp lesenda og opna þær fyrir öllum; börnum og fullorðnum, hestafólki og ekki hestafólki, fuglafræðingum og öllum hinum, Ég leitast við að eyða út þessum hefðbundnu mörkum á milli barna og fullorðinna, gamans og alvöru, fræðslu og skemmtunar. Á milli þess sem eru vísindi og þjóðsögur. Þetta eru í rauninni tilbúin mörk. Ætli það sé ekki rauði þráðurinn í þessu öllu saman.“
Bækurnar sem Hjörleifur hefur gefið út með Rán Flygenring.
„Það er reyndar bara stutt síðan að ég varð nógu hugaður til þess að segja það beint út. Að ég sé rithöfundur. Og hvað þá listamaður.“
Hjörleifur segist alltaf hafa haft áhuga á sögum og sagnaarfi. „Ég er ekkert einn um það, þetta liggur svolítið í okkur öllum held ég. Ég byrjaði reyndar seint að gefa út bækur, en hef alltaf verið að skrifa á einhvern hátt. Það er reyndar stutt síðan að ég varð nógu hugaður til þess að segja það beint út. Að ég sé rithöfundur. Og hvað þá listamaður.“ Hjörleifur hlær og viðurkennir að það sé frekar kjánalegt í ljósi þess að hann hafi fyrst og fremst fengist við skriftir undanfarin ár. „Ég veit ekki hvað það er nákvæmlega, það er eitthvað svo hátíðlegt og eitthvað svo skuldbindandi. Vekur kannski óþægilegan áhuga og spurningar sem ekki er einfalt að svara. En nú er ég að æfa mig í því að segja þetta hreint út.
„Það er gaman að vera listamaður að atvinnu,“ segir Hjörleifur. „Ég hlakka til á hverjum morgni, vakna klukkan sjö og rýk af stað á vinnustofuna til þess að byrja að skrifa. En þetta er alveg heilmikil vinna, ég hef aldrei litið á þetta sem einhvern dans á rósum - að vera listamaður.“
Rithöfundurinn á vinnustofu sinni.
Njála á hundavaði verður til
Hljómsveitin, eða dúóið ‘Hundur í óskilum’ hefur verið starfandi í þrjátíu ár, en þar stígur Hjörleifur á stokk með Eiríki Stephensen. Nýjasta sýningin þeirra, ‘Njála á hundavaði’, verður sýnd í Samkomuhúsinu á Akureyri í september og október. „Þetta er fjórða sýningin sem við gerum. Textagerðin hefur færst smám saman á mínar hendur og ég skrifaði þetta leikverk.“ Brennu-Njálssaga eða Njála, er ein þekktasta Íslendingasagan og vissulega ekki einfalt að koma henni til skila í einni sýningu, en Hjörleifur segir að hann hafi einfaldlega sest niður með bókina og byrjað að lesa. „Ég skrifaði bara jafnóðum, á meðan ég las. Var með tölvuna hjá mér og nóteraði og skráði. Þegar ég var búinn með bókina var ég kominn með einhvern langan óskapnað af texta, og fór að búa til úr því senur.“
Sýningin var frumsýnd haustið 2021 í Borgarleikhúsinu, en Hjörleifur tekur það fram að það sé í fyrsta sinn sem þeir félagar frumsýni fyrir sunnan. „Samkomuhúsið á Akureyri er okkar heimavöllur. Borgarleikhúsið bauð okkur að framleiða sýninguna og maður slær ekki hendinni á móti því en okkur fannst ekki annað koma til greina en að fara með hana norður. Sinna okkar fólki, Norðurland á það inni hjá okkur“ segir Hjörleifur og hlakkar bersýnilega mikið til að byrja að sýna norðan heiða. Vert er að taka fram að miðar seljast hratt og það verður takmarkaður fjöldi sýninga, en miðasalan fer fram á www.mak.is.
Margslungnir karakterar
Tónlist, búningar, leikmunir og að sjálfsögðu húmor, einkenna sýninguna. Hjörleifur segist hafa gaman af því að spegla nútímann og mannlegu hliðina í fornum hetjum Njáls sögu. „Við vorum búnir að fjalla um kvennasöguna í annari sýningu, og frumhugmyndin með því að taka fyrir Njálu var kannski að skoða karlmennskuna. Eitraða karlmennsku og áhættusækni. Vissulega eru þó líka sterkar kvenpersónur í sögunni.“ Hjörleifur leikur meðal annars Hallgerði langbrók í sýningunni og þar er á ferðinni alvöru karakter. „Hallgerður er náttúrlega áhugaverð að mörgu leyti. Hún á erfiða æsku og hlýtur ekki þá virðingu sem henni þykir sæma, þar sem hún er af góðum ættum. Faðir hennar afskrifar hana svolítið og kemur henni frá sér. Hún er afskaplega bitur.“
„Þetta er eiginlega költ þarna á Bergþórshvoli.“
Hjörleifur hlær þegar hann er spurður að því hvort sé skemmtilegra að leika konur eða karla, en hann segist að minnsta kosti hafa tengt mest við Njál, sem sé að hans mati alveg stórkostleg persóna. „Það sem hæst rís, eftir að fara í gegnum söguna og skrifað sýninguna, er Njáll sjálfur. Persónan Njáll. Hann er svo margræður karakter og í raun nútímalegur. Hann er auðmaður, rosalega sleipur pólitíkus, séní í lögfræði og góður í að snúa málum sér í hag. Hann vill alltaf fara sáttaleiðina en sér svo gjarnan gegnum fingur sér þegar honum hentar. Svo er á honum þessi andlega hlið, hann er karismatískur andlegur leiðtogi og sjáandi.“ Hjörleifur segir að leikmyndin endurspegli svolítið þessa andlegu stemningu sem hann upplifir að hafi verið á Bergþórshvoli.
Hjörleifur sér mikil líkindi með Njáli og svokölluðum cult-leaders, eða leiðtogum sértrúarsöfnuða. „Þetta er eiginlega költ þarna á Bergþórshvoli. Það er fullt af einhverju fólki þarna, hann er með lærisveina og rekur þarna litla lagadeild og verður svo einhverskonar píslarvottur á endanum. Það vita allir að hverju stefnir, brennumennirnir eru á leiðinni, en þegar brennan á sér stað, safnar Njáll fólkinu inn í bæinn og segir því að treysta guði. Þarna er óneitanlega nokkur samhljómur með mörgum þeim fjöldasjálfsmorðum sem ýmis költ hafa framkvæmt gegnum mannkynssöguna og gaman að skoða þetta út frá þeirri pælingu. Var neistinn sem kveikti þessa sögu kannski í einhverju frægu költi sem brann þarna í Landeyjunum?
Á kynningarspjaldinu fyrir sýninguna má sjá nokkra karaktera þeirra félaga úr Njálu. Mynd mak.is
Hjörleifur hefur einnig velt fyrir sér kyngervi Njáls. „Hann er ekki hommi, hann á meira að segja hjákonu og þar af leiðandi tvær konur í rauninni og gerir þeim báðum börn. En hann er hinsegin á einhvern hátt. Það er alltaf verið að hnýta í það hvað hann er kvenlegur og Bergþóra og strákarnir eru sérlega viðkvæm fyrir því.“ Þetta er meðal annars það sem gerir Njálu svo nútímalega bók að mati Hjörleifs. „Njáll er svo margþættur. Vinur hans, Gunnar á Hlíðarenda, er svo töluvert grynnri persónuleiki,“ segir Hjörleifur. Og það er náttúrulega hinn stóri harmur Hallgerðar. Það er ekki nóg að vera fallegur og hlaupa hæð sína í öllum herklæðum.“
„Í grunninn erum við að færa Njálu aftur á það form sem hún var upphaflega.“
Aðspurður hvort að hann hafi fengið einhver mótmæli sagnfræðinga við túlkun sinni á Njálu, og titilpersónunni, segir Hjörleifur strax „nei, því miður! Ég væri mikið til í það samtal!“ Það er bersýnilegt að hann hefur krufið söguna í öreindir og mega áhorfendur í Samkomuhúsinu búast við að kynnast Njálu á alveg nýjan og skemmtilegan hátt.
„Í grunninn erum við að færa Njálu aftur á það form sem hún var upphaflega. Þetta var saga sem fólk kunni. Það voru sérstakir sagnamenn sem höfðu margar sögur á takteinunum og voru fengnir til að segja þær fyrir hóp af áheyrendum. Þetta var í rauninni leikhús. Kannski voru reglulegar sýningar á Njáls sögu á Odda á Rangárvöllum. Sagnamennirnir og konurnar færðu í stílinn og sögðu sögurnar hvert á sinn hátt þangað til einhver settist niður og skráði þær á skinn einhvern tímann í kringum 1275. Þá varð þetta að bók og hún er ennþá lesin sem betur fer. Ég er hissa á að þetta skuli ekki hafa verið gert fyrir löngu í leikhúsunum; að segja fólki söguna, Njálu - bókina okkar, sem allir eiga að þekkja og kunna rétt eins og Kardemommubæinn,“ segir Hjörleifur, sem ætti kannski að bæta ‘sagnamaður’ við listann af starfstitlum!
Ný sýning á teikniborðinu
Hjörleifur glottir þegar hann er spurður að því hvort að hugmynd sé komin að næstu sýningu Hunds í óskilum. „Já, ég er byrjaður að skrifa nýtt leikrit, en ég ætla ekki að segja þér um hvað það er! En, það verður alveg meiriháttar.“ Eina sem blaðamaður fær upp úr rithöfundinum er að hann er ekki að taka fyrir aðra íslendingasögu. „Það liggur ekki alveg beint við þegar maður er búinn með Njálu.“
Laugasteinn, heimili Hjörleifs og Írisar í Svarfaðardal.