Eik og Egill, tónleikar á Hælinu og plata
Föstudaginn 25. júní klukkan 16.00 mun tónlistarfólkið Eik og Egill halda dálitla tónleika á Hælinu, setri um sögu berklanna. Aðgangur er ókeypis en kaffi og kökur á vægu verði.
Eik Haraldsdóttir og Egill Andrason eiga býsna langa sögu saman í tónlist og leiklist, reyndar nærfellt hálfa ævina sem að vísu er ekki orðin löng, Eik verður nítján ára í haust og Egill tvítugur. Eik lauk stúdentsprófi frá MA nú í júní og framhaldsprófi í söng frá Tónlistarskólanum á Akureyri. Egill lauk á síðasta ári stúdentsprófi á leiklistarbraut í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Samstarf þeirra leiddi fljótt til þess að þau tóku að semja tónlist og flytja hana og nú er svo komið að þau hafa tekið upp plötu, sem þau nefna Lygasögur, en þegar hafa tvö lög af plötunni komið inn á streymisveitur. Svo skemmtilegt var að Egill var aðstoðarleikstjóri við uppsetningu Leikfélags MA á Hjartagulli nú í vor, en Eik var forseti Leikfélagsins.
Á plötunni Lygasögum eru þessi 10 lög með íslenskum textum, sem hafa orðið til og mótast hjá listamönnunum á sex árum, en til liðs við sig fengu þau framúrskarandi tónlistarmenn á sama reki, sem einnig tengjast MA og TónAk. Þar leikur Pétur Smári Víðisson á gítar, Hafsteinn Davíðsson á trommur og Jóhann Þór Bergþórsson á bassa. Egill leikur á píanó og þau Eik syngja.
Plötuútgáfa er ekki ókeypis, ef vel er til vandað, og þess vegna hafa Eik og Egill efnt til áheitasöfnunar á KarolinaFund – sjá hér – þar sem þau bjóða upp á ýmsa kosti fyrir þá sem vilja styrkja verkefnið. Áætlað er að platan komi út síðsumars eða snemma hausts og stefnt er að útgáfutónleikum sem verða auglýstir síðar. Og í haust skilja leiðir um sinn þegar Eik heldur til söngnáms í Kaupmannahöfn en Egill hefur nám á sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands, en hann hefur ásamt öðru getið sér orð sem höfundur söngleiks.
En áður en það gerist er sumsé hægt að hlýða á tónlist þessara ungu listamanna á Hælinu á föstudag og eflaust munu þau láta til sín taka í dagskrá Listasumars.