Egill og Eiki Helga hefja Listasumar í dag
Sumarlistamaður Akureyrar, Egill Andrason, hleypir Listasumri af stokkunum á þaki inngangs Listasafnsins í dag, miðvikudaginn 7. júní kl. 15, með kraftmiklum tónleikum við hæfi, eins og það er orðað í tilkynningu frá Akureyrbæ. Fyrr um daginn byrjar fyrsta námskeið hátíðarinnar, útihjólabrettanámskeið með Eika Helga og félögum, á brettasvæðinu við Háskólann.
Listasumar sendur til og með 23. júlí og hverfist fyrstu vikurnar að mestu um listasmiðjur og námskeið fyrir börn og ungmenni og ýmislegt annað spennandi eins og til að mynda uppistand og „töfrandi tóna“ með Sögu Garðarsdóttur og Snorra Helgasyni í Minjasafninu og tónleikaröðina Mysing.
Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að huga að skráningu þar sem nú þegar er orðið fullt í nokkrar listasmiðjur og námskeið.
Viðburðadagatal hátíðarinnar er að finna á Listasumar.is og þar eru einnig upplýsingar um hvernig hægt er að skrá sig.
- Samstarfsaðilar Listasumars eru Akureyrarbær, Listasafnið á Akureyri, Minjasafnið á Akureyri, Gilfélagið, RÖSK, Kaktus, Menningarhúsið Hof, Amtsbókasafnið á Akureyri, Bílaklúbbur Akureyrar, Ketilkaffi, Braggaparkið, Sumartónleikar í Akureyrarkirkju og Geimstofan.
- Hægt verður að fylgjast með uppákomum á Listasumri á samfélagsmiðlum Akureyrarbæjar á Facebook og Instagram. Á vef Akureyrarbæjar er mælt með því að gestir hátíðarinnar noti myllumerkið #listasumar og jafnvel merki færslur og sögur með @akureyrarbaer.