Fara í efni
Menning

Eggert, Guðbjörg og sköpun bernskunnar

Eggert Pétursson, án titils.

Sköpun bernskunnar verður nú í áttunda sinn í Listasafninu á Akureyri og stendur frá 20. febrúar til 2. maí. Þátttakendur eru skólabörn á aldrinum fimm til sextán ára og í hvert sinn taka jafnframt þátt starfandi listamenn. Segja má að hér sé um að ræða hvort tveggja safnfræðslu og örvun til skapandi verka meðal barna.

Þátttakendur í Sköpun bernskunnar þetta árið eru allmargir. Fullorðnu listamennirnir eru Guðbjörg Ringsted og Eggert Pétursson. Þau hafa bæði unnið mikið með blóm og plöntur, Guðbjörg í verkum sínum sem taka mið af íslenskum þjóðbúningum og skarti en Eggert með margfrægum fíngerðum blómamálverkum á stórum flötum. Þema sýningarinnar er Gróður jarðar, svo valið á listamönnunum kemur ekki á óvart.

Skólabörnin sem þátt taka eru úr leikskólanum Iðavöllum og þremur grunnskólum, Glerárskóla, Síðuskóla og Giljaskóla, en einnig koma Minjasafnið/Leikfangasafnið við sögu.

Guðbjörg Ringsted og Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi Listasafnsins, leiðbeina leikskólabörnunum í Listasafninu en grunnskólabörnin vinna sín verk undir handleiðslu myndmenntakennara sinna. Sýningarstjóri er Guðrún Pálína.

Sköpun bernskunnar hefur notið velvildar og hlaut öndvegisstyrk Safnaráðs fyrir árin 2020-2022. Sýningarnar hafa jafnan verið litríkar og hugmyndum ungu listamannanna eru fá takmörk sett.