Edelstein heldur í fótspor feðranna
Tónlist er gjarnan það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar nafnið Edelstein ber á góma og skyldi engan undra. Fjórða kynslóðin situr nú dagana langa og leikur á slaghörpu og blæs einmitt til tónleika í menningarhúsinu Hofi annað kvöld, fimmtudagskvöld. Óhætt er að hvetja sem flesta til að leyfa sér að njóta þess ævintýris sem þar verður boðið upp á.
Píanóleikarinn Alexander Smári Kristjánsson Edelstein flutti verk eftir Bach, Beethoven, Schubert og Rachmaninoff á útskriftartónleikum á bakkalárstigi frá Listaháskóla Íslands í Norðurljósasal Hörpu 15. maí, „og ég ætla að endurtaka leikinn í Hofi næsta fimmtudag,“ segir hann við Akureyri.net. Þar leikur hann altso sömu efnisskrá.
Ánægjulegur afmælisdagur
Svo skemmtilega vildi til að tónleikadaginn í Hörpu fögnuðu Alexander og Sólon Arnar, tvíburabróðir hans, 23 ára afmæli.
„Já, það var skemmtilegt að þetta hittist svona á,“ segir Alexander og hefur gaman af. „Ég hafði eiginlega ekki tíma til að hugsa út í það og var í rauninni búinn að gleyma afmælinu, en var minntur á það þegar góðvinur minn óskaði mér til hamingju með tónleikana og afmælið – eftir tónleikana!“ Bræðurnir eru samrýmdir og miklir vinir en fóru hvor sína leið. „Sólon, bróðir minn, útskrifast núna 12. júní úr sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri.
Segja má að tónlistin sé helsta áhugamál þess sem æfir sig nokkra klukkutíma hvern einasta dag en hún er ekki það eina, og þar eiga þeir einmitt samleið, bræðurnir. „Á sumrin stunda ég fluguveiði með bróðir mínum og vinum, ætli það sé ekki aðal áhugamálið mitt,“ segir Alexander.
Ekki aftur snúið
Alexander hóf ekki að læra á píanó fyrr en 11 ára, sem telst óvenju seint fyrir afreksmann í þeirri fallegu íþrótt sem einleikur á píanó er. Tónlist hóf hann þó að iðka mun fyrr enda í blóðinu og í raun kom aldrei annað til greina en hann fetaði þá slóð sem rataði á. Það var sjálfgefið.
„Ég byrjaði í Tónlistarskólanum á Akureyri 5 ára og lærði þá á selló. Síðan skipti ég yfir á gítarinn í nokkur ár en fann strax og ég fékk að prófa píanóið 11 ára gamall að ekki yrði aftur snúið,“ segir hann. „Píanóið heillaði mest af öllu.“ Og það er þetta með eplið og eikina eða fótspor feðranna: „Það hefur einhvern veginn alltaf legið fyrir mér að helga mig tónlistinni, þar sem atvinnu tónlistarmenn spanna nokkra ættliði í föðurætt minni.“
Langafi flúði nasismann
Heinz Edelstein, langafi Alexanders, sem flúði hingað til lands frá Þýskalandi ásamt fjölskyldu sinni undan nasismanum fyrir stríð, var sellóleikari, Stefán afi hans píanisti og Kristján, faðir Alexanders, er einni kunnasti gítarleikari landsins.
Alexander lærði á píanó hjá Þórarni Stefánssyni í Tónlistarskólanum á Akureyri. „Ég útskrifaðist þaðan þegar ég er að klára 3. bekk í Menntaskólanum á Akureyri þannig að í 4. bekk í MA var ég kominn með annan fótinn til Reykjavíkur þar sem ég sótti píanótíma í Listaháskólanum undir leiðsögn Peter Máté og Eddu Erlendsdóttur,“ segir hann. „Þetta hefði í rauninni ekki verið möguleiki ef að Menntaskólinn á Akureyri og Tónlistarskólinn á Akureyri hefðu ekki boðið upp á námsleiðina, tónlistarbraut, sem gerir nemendum kleift að sinna tónlistarnáminu af fullum krafti samhliða Menntaskólanum.“
Hann er afar þakklátur fyrir þann möguleika sem gafst í skólunum, og segir mjög mikilvægt að geta einbeitt sér að tónlistinni. „Þroskaferli tónlistarmannsins, eins og í íþróttum og öðrum listgreinum, felur í sér miklar æfingar ásamt góðri leiðsögn og kennslu fagfólks.“
Öðruvísi markmið
Alexander segir nýliðinn vetur hafa verið námsmönnum býsna strembinn vegna veirunnar; flestir hafi eflaust fundið fyrir því. „Ég ætlaði að taka haustönnina í skiptinámi í Stokkhólmi en út af allri óvissunni ákvað ég að fara ekki. Þar sem námið mitt snýst mikið um það að koma fram og spila fyrir fólk varð þetta síðasta ár sérstakt. Fyrir tíma veirunnar fengum við nemendur í Listaháskólanum oft erlenda gestakennara sem héldu svokallaða „masterclassa“, ásamt því að koma fram á ýmsum viðburðum og tónleikum í lok annar. Maður er í rauninni alltaf að æfa og undirbúa þig fyrir eitthvað. Þegar það er síðan tekið frá manni breytist ýmislegt; allt í einu er ekkert fyrir stafni og tímapressan hverfur vegna þess að þú veist að þú ert ekki að fara spila fyrir almenning í langan tíma. Þá var mikilvægt fyrir mig að setja mér öðruvísi markmið sem að snéru meira að miklum sjálfsaga og skipulögðum æfingum. Þess vegna var það mjög sérstakt en ánægjulegt að spila loksins fyrir fólk á útskriftartónleikunum sjálfum.“
Mastersnám í Hollandi
Síðasta sumar tókst Alexander að halda nokkra tónleika. „Já, ég var með tónleikaröð á Norðurlandi og hugmyndin var sú að spila tónlist eftir norðlensk tónskáld ásamt völdum verkum úr klassísku píanóbókmenntunum,“ segir hann, en afar vel þótti takast til. „Á tónleikunum lék ég verk eftir meðal annars Daníel Þorsteinsson, Jón Hlöðver Áskelsson og Atla Örvarsson. Tónleikaröðin var styrkt af Eyþingi og Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra,“ segir Alexander, þakklátur bæði fyrir stuðninginn og að fá tækifæri til að spila á umræddum tónleikum.
Alexander lauk prófi frá Listaháskóla Íslands um daginn, sem fyrr segir, og næsta skref liggur fyrir. „Í haust er ég að fara í mastersnám til Hollands sem ég er mjög spenntur fyrir.“ Stefnan hefur verið tekin á þá kunnu borg Maastrich og skólann segir Alexander mjög góðan. Og framtíðarsýn hans er á hreinu: „Markmið mitt sem píanisti er mjög einfalt; að læra mikið af tónlist, hafa gaman af því og sjá svo hvert lífið leiðir mig.“
Hlustið á 7. sinfóníu Beethovens!
Einleikarinn ungi leikur reglulega verk margra gömlu meistaranna og þeirra yngri vitaskuld líka. Um páskana 2019 spilaði hann til að mynda píanókonsert nr. 20 eftir Mozart með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í Hofi og í Langholtskirkju í Reykjavík. Þegar spurt er um hvað honum finnst skemmtilegast að spila stendur ekki á svari: „Ef ég ætti að nefna uppáhalds tónskáld þá væri það Beethoven. Mér finnst erfitt að segja af hverju en ég gæti talið ýmislegt upp. Ég ætla að leyfa tónlistinni að tala fyrir sig sjálfa og bendi fólki á að hlusta á 7. sinfóníu tónskáldsins.“
Það er falleg og góð ábending. Önnur er að grípa tækifærið og hlusta á Bach, Beethoven, Schubert og Rachmaninoff í Hofi annað kvöld í flutningi þessa magnaða píanista – einleikarans okkar. Enginn vafi leikur á að Alexander Edelstein mun ná langt vegna snilli sinnar við nótnaborðið.
- Að ofan; bræðurnir Alexander Smári og Sólon Arnar ásamt foreldrum þeirra, Aðalbjörgu Allý Steinarsdóttur og Kristjáni Edelstein.