Dylan og Kristján frá Djúpalæk í sömu hillu
Minningu skáldsins Kristjáns frá Djúpalæk verður gert hátt undir höfði á Græna hattinum í dag þegar hljómsveitin Djúpilækur heldur tónlistar- og sögustund þar sem sjónum verður beint að textagerð skáldsins góða við íslensk dans- og dægurlög. Vakin er athygli á óvenjulegri tímasetningu – samkoman hefst kl. 15.00.
Halldór Gunnarsson, sem gerði garðinn frægan með hljómsveitinni Þokkabót fyrir margt löngu, fer fyrir Djúpalæk. Hann kynntist Kristjáni á sínum tíma og segir frá milli laga; fjallar m.a. tengsl skáldsins við lagahöfunda, um pólitíska sýn Kristjáns, ekki síst menningarpólitíska, og ræðir um það verkefni skáldsins, að semja dægurlagatexta því það þótti tíðindum sæta að svo mikið skáld skyldi leggja lag sitt við dægurmenninguna – lágmenninguna – með þessum hætti.
Kristján frá Djúpalæk árið 1986. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Kristján fæddist og ólst upp á norðausturhorni landsins, við Bakkaflóa undir Langanesi, en þau Unnur eiginkona hans bjuggu allan sjötta áratuginn í Hveragerði. Þar voru þau nágrannar foreldra Halldórs og hann varð heimagangur hjá Halldór og Unni. Því er þó ekki beinlínis að þakka að ráðist var í gerð dagskrárinnar sem flutt verður í dag. Spurt er hvernig verkefnið kom til og Halldór svarar:
„Það var þannig að hópur fólks gerði dagskrá um Bob Dylan og þegar því verkefni lauk fórum við að hugsa um hvað við gætum gert næst, og þá kom Kristján frá Djúpalæk fyrstur upp í hugann!“
„Já, það má segja að segja að Dylan og Kristján hafi verið í sömu hillu,“ segir Halldór aðspurður – „þótt langt sé á milli þeirra.“
Ást á íslenskri tungu
„Þegar ég fór að grúska í þessu þá fannst mér það svo merkilegt hvers vegna þetta hátt skrifaða skáld er að yrkja fyrir lágmenninguna og það var skemmtileg stúdía; hann gerði þetta svo ólíkt öðrum skáldum. Kristján gerir texta sem beinlínis eru ætlaðir fyrir dægurlög,“ segir Halldór við Akureyri.net.
Halldór bendir á að lagahöfundar hafi gluggað í ljóðabækur manna eins og Tómasar Guðmundssonar og Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi og fundið sér ljóð. „Það kom til dæmis flatt upp á Tómas. Skilin á milli alvöru listar og lágmenningarinnar voru svo mikil á þessum tíma,“ segir Halldór.
„Kristján hóf að gera texta fyrir dægurlög vegna ástar á íslenskri tungu,“ segir Halldór. „Honum ofbauð hve mikil enska var sungin og sá þarna leið til þess að breyta því, með því að semja dægurlagatexta. Hann leit á þetta sem verkefni, og seinna sem brauðstrit eins og hann sagði sjálfur. Hann gat betur einbeitt sér að því að semja ljóð þegar hann hafði tekjur af dægurlagatextunum.“
Halldór nefnir að umræddir textar Kristjáns við dægurlög séu svo góður kveðskapur að þeir sómi sér vel einir og sér, þótt lagið sé fjarlægt. Það eigi ekki alltaf við. „Margir textar annarra eru hjákátlegir.“
Það gefur á bátinn
Kristján samdi nokkra texta fyrir dægurlagakeppni S.K.T. sem Góðtemplarareglan á Íslandi stóð fyrir á sjötta áratugnum og bar sigur úr býtum árið 1953 með Sjómannavalsinum „sem ég held ég geti fullyrt að sé fyrsta íslenska sjómannalagið. Þórður sjóari kemur í kjölfarið ári síðar og sjómannalög flæddu síðan um alla óskalagaþætti í útvarpinu lengi.“
Hljómsveitin Djúpilækur, frá vinstri: Sigurður Reynisson, Íris Jónsdóttir, Þröstur Þorbjörnsson, Haraldur Þorsteinsson og Halldór Gunnarsson.
Dagskrá Halldórs og félaga er að töluverðu leyti byggð á kverinu Það gefur á bátinn sem gefið var út 1957. Þar eru nokkrir textar Kristjáns, m.a Sjómannavals, Þórður sjóari, Kvöldið er okkar og Nótt í Atlavík. Ekki er víst að allir átti sig á kveðskapnum nema heyra upphafið:
Sjómannavals
Það gefur á bátinn við Grænlandog gustar um sigluna kalt
Þórður sjóari
Hann elskaði þilför, hann Þórður,og því komst hann ungur á flot.
Nótt í Atlavík
Í Hallormsstaðaskógier angan engu lík
Kvöldið er okkar
Kvöldið er okkarog vor um Vaglaskóg
Keppni S.K.T. var þess eðlis að lagahöfundar gátu valið sér þá texta sem þeir hrifust af og samið við þá lög. Svavar Benediktsson var snöggur til og gerði lög við Sjómannavals og Nótt í Atlavík og Ágúst Pétursson, góður vinur Kristjáns og nágranni í æsku, samdi lag við Þórð sjóara.
Nefna má til gamans að lag við Kvöldið er okkar varð ekki til fyrr áratug eftir að Kristján samdi það; Jónas Jónasson útvarpsmaður samdi þá fallegt lag sem hljómsveit Ingimars Eydal gerði landsfrægt.
Fleira mætti nefna en verður ekki gert því sjón og heyrn er sögu ríkari! Áhugavert verður að sjá og heyra það sem boðið verður upp á í dag á Græna hattinum.
Hljómsveitina Djúpalæk skipa auk Halldórs, sem spilar á harmonikku og píanó, þau Haraldur Þorsteinsson bassaleikari, Þröstur Þorbjörnsson gítarleikari, Sigurður Reynisson trommuleikari og söngkonan Íris Jónsdóttir.