Fara í efni
Menning

Dass af stælum og góðri stemningu

ÞAU á tónleikum í LYST í Lystigarðinum á Akureyri.

„Tónleikagestir mega búast við kvöldstund sem er stútfull af nýrri tónlist, dassi af stælum og góðri stemningu. Við ætlum að njóta og viljum að sem flestir njóti með okkur,“ segir Rakel Björk Björnsdóttir, söngkona í hljómsveitnni ÞAU, um tónleikaröðina ÞAU taka Norðurland sem hófst fyrir fullu húsi í LYST í Lystigarðinum á Akureyri á laugardaginn.

Næstu tónleikar eru Í skúrnum hjá Stebba Jak á Mývatni miðvikudaginn 12. júlí og Græna Hattinum á Akureyri daginn eftir. ÞAU klára svo tónleikaferðalagið með tónleikum á Sauðárkróki, Siglufirði og Dalvík.

Norðlensk kvæði

Á tónleikunum flytur hljómsveitin m.a. lög af nýrri plötu sem kemur út í haust og kallast það sama og tónleikaröðin – ÞAU taka Norðurland. Á plötunni verður að finna frumsamin lög sveitarinnar við kvæði norlenskra skálda. Þar á meðal eru skáldin Ólöf frá Hlöðum, Hulda, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, Kristján Jónsson fjallaskáld, Anna Ágústsdóttir og fleiri.

ÞAU segja að tónlist sveitarinnar sé rokkuð, ögrandi og hugljúf allt í senn með flottum íslenskum textum. Á tónleikum sveitarinnar er tónlist flutt lifandi á staðnum, þrátt fyrir að þau standi aðeins tvö á sviðinu. „Við notum til þess græjur sem taka okkur upp á sviðinu, svokallaða „looper-a.Þetta krefst mikillar nákvæmni og er mjög spennandi, því allt getur jú gerst,segir Garðar Borgþórsson, gítar- og slagsverksleikari sveitarinnar.

Þræðir leynast víða

Hluti af upplifun á tónleikum hljómsveitarinnar eru sögur af skáldunum og uppruna kvæðanna. Rakel Björk hefur lagst í mikla undirbúnings- og heimildavinnu vegna þessa. „Í ferlinu höfum við kynnst nýjum skáldum og fengið betri innsýn í hugarheim þeirra sem við þekktum fyrir,segir Rakel og bætir við. „Ég uppgötvaði tengsl við Norðurland í gegnum föðurfjölskyldu mína sem ég hafði ekki áttað mig almennilega á. Amma fæddist til dæmis á Krossum í Dalvíkurbyggð.

Rakel hefur kynnt sér þessa sögu vel. „Það sem mér fannst merkilegast var að kynnast langalangömmusystur minni, Hönnu Davíðsson, sem á ættir að rekja til Norðurlands. Hanna var þekkt myndlistarkona í Hafnarfirði og bjó í seinni tíð á kaffihúsinu Súfistanum við Strandgötu þar sem ég er fastagestur. Hún var óvenjuleg kona, bóhem með fjólublátt hár og klæddist fjólubláum fötum,“ lýsir Rakel.

Hún heldur áfram. „Dóttir hennar Hulda var gift Erlingi Þorsteinssyni, lækni, en faðir hans, Þorsteinn Erlingsson skáld, tengist mörgum skáldanna sem við tökum fyrir í efnisskránni okkar á tónleikunum. Þorsteinn átti til að mynda í mjög persónulegum bréfaskiptum við Ólöfu frá Hlöðum sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur. Þræðir leynast víða.“

Fólk ræður sjálft hvað það borgar

ÞAU hafa áður farið í álíka tónleikaferð um Vestfirði þar sem þau sömdu og fluttu frumsamin lög við kvæði skálda frá Vestfjörðum. Í tónleikaröðinni um Norðurland eins og í þeirri fyrir vestan ráða tónleikagestir sjálfir hvað þeir greiða fyrir miðann. „Við viljum með þessu fyrirkomulagi gefa öllum tækifæri á að koma á tónleikana. Hver og einn borgar það sem honum líður vel með. Við gerðum tilraun á þessu á Vestfjörðum í fyrra sumar og það reyndist mjög vel. Sumir borga minna, aðrir meira,” segir Rakel.

En á milli þess sem þau spila á alls sjö tónleikum á Norðurlandi, á Akureyri, Húsavík, Mývatni, Sauðárkróki, Siglufirði og Dalvík, ætla þau að njóta alls þess sem svæðið hefur upp á að bjóða. „Við verðum í sumarfríi í Vaglaskógi og á Siglufirði. Frá þessum tveimur stöðum keyrum við á tónleikastaðina með allt gengið með okkur, þ.á m. ömmur og afa sem sjá um að passa litlu fimm mánaða stelpuna okkar, Glóeyju,“ segir Rakel og bætir við að góðir vinir ætli að kíkja við og koma á tónleika.

Fyrst og fremst eru ÞAU spennt fyrir því að komast af stað og leika tónlist fyrir fólk á Norðurlandi. „Það fylgir því alltaf smá fiðringur að frumflytja eigin tónlist og útrásin er mikil. Við erum spennt og vonumst til að sjá gott fólk á Norðurlandi,” segja ÞAU að lokum.